Book of Common Prayer
93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.
2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.
3 Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.
4 Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.
5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.
150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!
2 Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!
3 Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!
4 Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!
5 Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!
15 Bræður, ég tek dæmi úr mannlegu lífi: Enginn ónýtir eða eykur við staðfesta arfleiðsluskrá, enda þótt hún sé aðeins af manni gjörð.
16 Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og afkvæmi hans, _ þar stendur ekki "og afkvæmum", eins og margir ættu í hlut, heldur "og afkvæmi þínu", eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur.
17 Með þessu vildi ég sagt hafa: Sáttmála, sem áður var staðfestur af Guði, getur lögmálið, sem kom fjögur hundruð og þrjátíu árum síðar, ekki ónýtt, svo að það felli fyrirheitið úr gildi.
18 Sé því þá svo farið, að arfurinn fáist með lögmáli, þá fæst hann ekki framar með fyrirheiti, en Guð veitti Abraham náð sína með fyrirheiti.
19 Hvað er þá lögmálið? Vegna afbrotanna var því bætt við, þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um. Fyrir umsýslan engla er það til orðið, fyrir tilstilli meðalgangara.
20 En meðalgangara gjörist ekki þörf þar sem einn á í hlut, en Guð er einn.
21 Er þá lögmálið gegn fyrirheitum Guðs? Fjarri fer því. Ef vér hefðum fengið lögmál, sem veitt gæti líf, þá fengist réttlætið vissulega með lögmáli.
22 En ritningin segir, að allt sé hneppt undir vald syndarinnar, til þess að fyrirheitið veitist þeim, sem trúa, fyrir trú á Jesú Krist.
67 En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:
68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.
69 Hann hefur reist oss horn hjálpræðis í húsi Davíðs þjóns síns,
70 eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,
71 frelsun frá óvinum vorum og úr höndum allra, er hata oss.
72 Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn og minnst síns heilaga sáttmála,
73 þess eiðs, er hann sór Abraham föður vorum
74 að hrífa oss úr höndum óvina og veita oss að þjóna sér óttalaust
75 í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.
76 Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
77 og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra.
78 Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
79 og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg.
80 En sveinninn óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags, er hann skyldi koma fram fyrir Ísrael.
1 Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams.
2 Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans.
3 Júda gat Peres og Sara við Tamar, Peres gat Esrom, Esrom gat Ram,
4 Ram gat Ammínadab, Ammínadab gat Nakson, Nakson gat Salmon,
5 Salmon gat Bóas við Rahab, og Bóas gat Óbeð við Rut. Óbeð gat Ísaí,
6 og Ísaí gat Davíð konung. Davíð gat Salómon við konu Úría,
7 Salómon gat Róbóam, Róbóam gat Abía, Abía gat Asaf,
8 Asaf gat Jósafat, Jósafat gat Jóram, Jóram gat Ússía,
9 Ússía gat Jótam, Jótam gat Akas, Akas gat Esekía,
10 Esekía gat Manasse, Manasse gat Amos, Amos gat Jósía.
11 Jósía gat Jekonja og bræður hans á tíma herleiðingarinnar til Babýlonar.
12 Eftir herleiðinguna til Babýlonar gat Jekonja Sealtíel, Sealtíel gat Serúbabel,
13 Serúbabel gat Abíúd, Abíúd gat Eljakím, Eljakím gat Asór,
14 Asór gat Sadók, Sadók gat Akím, Akím gat Elíúd,
15 Elíúd gat Eleasar, Eleasar gat Mattan, Mattan gat Jakob,
16 og Jakob gat Jósef, mann Maríu, en hún ól Jesú, sem kallast Kristur.
17 Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Davíð fram að herleiðingunni til Babýlonar og fjórtán ættliðir frá herleiðingunni til Krists.
by Icelandic Bible Society