Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 20-21

20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.

Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.

Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]

Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.

Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.

Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.

Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.

Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.

10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.

21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!

Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]

Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.

Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.

Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.

Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.

Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.

Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.

10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.

11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,

12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.

13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.

14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!

Sálmarnir 110

110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."

Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!

Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.

Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."

Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.

Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.

Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.

Sálmarnir 116-117

116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.

Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.

Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.

Þá ákallaði ég nafn Drottins: "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"

Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.

Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.

Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.

Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.

Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.

10 Ég trúði, þó ég segði: "Ég er mjög beygður."

11 Ég sagði í angist minni: "Allir menn ljúga."

12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?

13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.

14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.

15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.

16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.

17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.

18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,

19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.

117 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir,

því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.

Fimmta bók Móse 5:22-33

22 Þessi orð talaði Drottinn með hárri röddu til alls safnaðar yðar á fjallinu út úr eldinum, skýinu og sortanum. Bætti hann þar engu við, og hann ritaði þau á tvær steintöflur og fékk mér þær.

23 Er þér heyrðuð röddina út úr myrkrinu og fjallið stóð í björtu báli, þá genguð þér til mín, allir höfðingjar ættkvísla yðar og öldungar yðar,

24 og sögðuð: "Sjá, Drottinn Guð vor hefir sýnt oss dýrð sína og mikilleik, og vér heyrðum rödd hans úr eldinum. Vér höfum séð það í dag, að Guð getur talað við mann, og maðurinn þó haldið lífi.

25 Hví skulum vér þá deyja? því að þessi mikli eldur ætlar að eyða oss. Ef vér höldum áfram að hlusta á raust Drottins Guðs vors, munum vér deyja.

26 Því að hver er sá af öllu holdi, að hann hafi heyrt rödd hins lifandi Guðs tala út úr eldinum, eins og vér, og þó haldið lífi?

27 Far þú og hlýð þú á allt það, sem Drottinn Guð vor segir, og seg þú oss allt það, er Drottinn Guð vor talar við þig, svo að vér megum hlýða á það og breyta eftir því."

28 Drottinn heyrði ummæli yðar, er þér töluðuð við mig, og Drottinn sagði við mig: "Ég heyrði ummæli þessa fólks, er þeir töluðu við þig. Er það allt vel mælt, sem þeir sögðu.

29 Ó, að þeir hefðu slíkt hugarfar, að þeir óttuðust mig og varðveittu allar skipanir mínar alla daga, svo að þeim vegni vel og börnum þeirra um aldur og ævi.

30 Far þú og seg þeim: ,Hverfið aftur í tjöld yðar!`

31 En þú, þú skalt standa hér hjá mér meðan ég legg fyrir þig allar þær skipanir, lög og ákvæði, sem þú átt að kenna þeim, svo að þeir breyti eftir þeim í því landi, sem ég gef þeim til eignar."

32 Gætið því þess að gjöra svo sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður. Víkið eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri.

33 Gangið í öllu þann veg, sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður, svo að þér megið lífi halda og yður vegni vel og þér lifið lengi í landinu, sem þér fáið til eignar.

Síðara bréf Páls til Kori 13

13 Þetta er nú í þriðja sinn, sem ég kem til yðar. Því "aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír beri."

Það sem ég sagði yður við aðra komu mína, það segi ég yður nú aftur fjarstaddur, bæði þeim, sem hafa brotlegir orðið, og öðrum: Næsta sinn, sem ég kem, mun ég ekki hlífa neinum,

enda krefjist þér sönnunar þess, að Kristur tali í mér. Hann er ekki veikur gagnvart yður, heldur máttugur á meðal yðar.

Hann var krossfestur í veikleika, en hann lifir fyrir Guðs kraft. Og einnig vér erum veikir í honum, en munum þó lifa með honum fyrir Guðs kraft, sem hann sýnir yður.

Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa. Gjörið þér yður ekki grein fyrir, að Jesús Kristur er í yður? Það skyldi vera, að þér stæðust ekki prófið.

En ég vona, að þér komist að raun um, að vér höfum staðist prófið.

Vér biðjum til Guðs, að þér gjörið ekki neitt illt, ekki til þess að það sýni ágæti vort, heldur til þess að þér gjörið hið góða. Vér gætum eins sýnst óhæfir.

Því að ekki megnum vér neitt gegn sannleikanum, heldur fyrir sannleikann.

Vér gleðjumst, þegar vér erum veikir, en þér eruð styrkir. Það, sem vér biðjum um, er að þér verðið fullkomnir.

10 Þess vegna rita ég þetta fjarverandi, til þess að ég þurfi ekki, þegar ég er kominn, að beita hörku, samkvæmt því valdi, sem Drottinn hefur gefið mér. Það er til uppbyggingar, en ekki til niðurbrots.

11 Að öðru leyti, bræður, verið glaðir. Verið fullkomnir, áminnið hver annan, verið samhuga, verið friðsamir. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður.

12 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir heilagir biðja að heilsa yður.

Matteusarguðspjall 7:22-29

22 Margir munu segja við mig á þeim degi: ,Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?`

23 Þá mun ég votta þetta: ,Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.`

24 Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi.

25 Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi.

26 En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi.

27 Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið."

28 Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu, undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans,

29 því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur, og ekki eins og fræðimenn þeirra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society