Book of Common Prayer
16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.
2 Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."
3 Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.
4 Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.
5 Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.
6 Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.
7 Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.
8 Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.
9 Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,
10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.
11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.
3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.
6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.
8 Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna
9 fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.
10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.
11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.
12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.
13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.
14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.
2 Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.
3 "Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.
4 Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.
5 Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,
6 til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.
7 En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.
8 Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.
9 "Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"
10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.
11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.
12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.
13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.
14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.
15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;
16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.
17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.
18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,
19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.
20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,
21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.
22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!
23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!
24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!
25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.
26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.
27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.
28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.
29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.
30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,
31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,
32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.
5 Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá: Heyr þú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég birti yður í dag. Lærið þau og varðveitið þau, svo að þér haldið þau.
2 Drottinn Guð vor gjörði við oss sáttmála á Hóreb.
3 Ekki gjörði Drottinn þennan sáttmála við feður vora, heldur við oss, oss sem hér erum allir lifandi í dag.
4 Drottinn talaði við yður á fjallinu augliti til auglitis út úr eldinum.
5 Ég stóð þá á milli Drottins og yðar til þess að flytja yður orð Drottins, því að þér hræddust eldinn og fóruð ekki upp á fjallið. Hann sagði:
6 "Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
7 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
8 Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér, engar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eða því, sem er á jörðu niðri, eða því, sem er í vötnunum undir jörðinni.
9 Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, og í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata,
10 en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.
11 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.
12 Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér.
13 Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk,
14 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín, uxi þinn eða asni eða nokkur skepna, eða útlendingur, sem hjá þér er innan þinna borgarhliða, svo að þræll þinn og ambátt þín geti hvílt sig eins og þú.
15 Og minnstu þess, að þú varst þræll á Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leiddi þig út þaðan með sterkri hendi og útréttum armlegg. Þess vegna bauð Drottinn Guð þinn þér að halda hvíldardaginn.
16 Heiðra föður þinn og móður þína, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér, svo að þú verðir langlífur og svo að þér vegni vel í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
17 Þú skalt ekki morð fremja.
18 Þú skalt ekki drýgja hór.
19 Þú skalt ekki stela.
20 Þú skalt ekki bera falsvitni gegn náunga þínum.
21 Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, og ekki ágirnast hús náunga þíns, ekki land hans, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."
22 Þessi orð talaði Drottinn með hárri röddu til alls safnaðar yðar á fjallinu út úr eldinum, skýinu og sortanum. Bætti hann þar engu við, og hann ritaði þau á tvær steintöflur og fékk mér þær.
11 Ég hef gjörst frávita. Þér hafið neytt mig til þess. Ég átti heimtingu á að hljóta meðmæli af yður. Því að í engu stóð ég hinum stórmiklu postulum að baki, enda þótt ég sé ekki neitt.
12 Postulatákn voru gjörð á meðal yðar af mikilli þrautseigju, tákn, undur og kraftaverk.
13 Í hverju voruð þér settir lægra en hinir söfnuðirnir, nema ef vera skyldi í því, að ég sjálfur hef ekki verið yður til byrði? Fyrirgefið mér þennan órétt.
14 Þetta er nú í þriðja sinn, að ég er ferðbúinn að koma til yðar, og ætla ég ekki að verða yður til byrði. Ég sækist ekki eftir eigum yðar, heldur yður sjálfum. Því að ekki eiga börnin að safna fé handa foreldrunum, heldur foreldrarnir handa börnunum.
15 Ég er fús til að verja því, sem ég á, já, leggja sjálfan mig í sölurnar fyrir yður. Ef ég elska yður heitar, verð ég þá elskaður minna?
16 En látum svo vera, að ég hafi ekki verið yður til byrði, en hafi verið slægur og veitt yður með brögðum.
17 Hef ég notað nokkurn þeirra, sem ég hef sent til yðar, til þess að hafa eitthvað af yður?
18 Ég bað Títus að fara og sendi bróðurinn með honum. Hefur þá Títus haft eitthvað af yður? Komum við ekki fram í einum og sama anda? Fetuðum við ekki í sömu fótsporin?
19 Fyrir löngu eruð þér farnir að halda, að vér séum að verja oss gagnvart yður. Nei, vér tölum fyrir augliti Guðs, eins og þeir, sem tilheyra Kristi. Allt er það yður til uppbyggingar, mínir elskuðu.
20 Ég er hræddur um, að mér muni þykja þér öðruvísi en ég óska, er ég kem, og að yður muni þykja ég öðruvísi en þér óskið og á meðal yðar kunni að vera deilur, öfund, reiði, eigingirni, bakmælgi, rógburður, hroki og óeirðir.
21 Ég er hræddur um, að Guð minn muni auðmýkja mig hjá yður, þegar ég kem aftur, og að ég muni hryggjast yfir mörgum þeirra, sem áður hafa syndgað og ekki hafa snúið sér frá saurlífi, frillulífi og ólifnaði, sem þeir hafa drýgt.
13 Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn.
14 Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.
15 Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.
16 Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum?
17 Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda.
18 Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.
19 Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.
20 Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.
21 Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ,Herra, herra,` ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.
by Icelandic Bible Society