Book of Common Prayer
5 Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.
2 Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.
3 Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.
4 Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.
5 Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.
6 Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.
7 Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.
8 En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.
9 Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér.
10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir.
11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.
12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér.
13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.
6 Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.
4 Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?
5 Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.
6 Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?
7 Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.
8 Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.
9 Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.
10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.
11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.
10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?
2 Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.
3 Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.
4 Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.
5 Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.
6 Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."
7 Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.
8 Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.
9 Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.
10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.
11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."
12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.
13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?
14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.
15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.
16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.
17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.
18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.
11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"
2 Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.
3 Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?
4 Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.
5 Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.
6 Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.
7 Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.
15 Gætið yðar því vandlega, líf yðar liggur við _ því að þér sáuð enga mynd á þeim degi, þegar Drottinn talaði við yður hjá Hóreb út úr eldinum, _
16 að þér ekki mannspillið yður á því að búa yður til skurðgoð í mynd einhvers líkneskis, hvort heldur er í líki karls eða konu,
17 í líki einhvers ferfætlings, sem til er á jörðinni, í líki einhvers fleygs fugls, er flýgur í loftinu,
18 í líki einhvers dýrs, sem skríður á jörðinni, eða í líki einhvers fisks, sem til er í vötnunum undir jörðinni,
19 og að þú eigi, þegar þú lyftir augum þínum til himins og sér sólina, tunglið og stjörnurnar, allan himinsins her, látir tælast til þess að falla fram fyrir þeim og dýrka þau. Því að Drottinn Guð þinn hefir skipt þeim meðal allra þjóða undir himninum.
20 Yður hefir Drottinn tekið að sér og leitt yður út úr járnbræðsluofninum, út úr Egyptalandi, svo að þér skylduð verða eignarþjóð hans, sem og hefir verið til þessa.
21 Drottinn reiddist mér yðar vegna, svo að hann sór, að ég skyldi ekki komast yfir Jórdan og ekki komast inn í góða landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar,
22 heldur hlýt ég að deyja í þessu landi og fæ ekki að komast yfir Jórdan. En þér munuð komast yfir um og fá þetta góða land til eignar.
23 Gætið yðar, að þér gleymið ekki sáttmálanum, er Drottinn Guð yðar hefir við yður gjört, og búið yður ekki til skurðgoð í mynd einhvers þess, er Drottinn Guð þinn hefir bannað þér.
24 Því að Drottinn Guð þinn er eyðandi eldur, vandlátur Guð.
11 Ó að þér vilduð umbera dálitla fávisku hjá mér! Jú, vissulega umberið þér mig.
2 Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs, því að ég hef fastnað yður einum manni, Kristi, og vil leiða fram fyrir hann hreina mey.
3 En ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.
4 Því að ef einhver kemur og prédikar annan Jesú en vér höfum prédikað, eða þér fáið annan anda en þér hafið fengið, eða annað fagnaðarerindi en þér hafið tekið á móti, þá umberið þér það mætavel.
5 Ég álít mig þó ekki í neinu standa hinum stórmiklu postulum að baki.
6 Þótt mig bresti mælsku, brestur mig samt ekki þekkingu og vér höfum á allan hátt birt yður hana í öllum greinum.
7 Eða drýgði ég synd, er ég lítillækkaði sjálfan mig til þess að þér mættuð upphafnir verða og boðaði yður ókeypis fagnaðarerindi Guðs?
8 Aðra söfnuði rúði ég og tók mála af þeim til þess að geta þjónað yður, og er ég var hjá yður og leið þröng, varð ég þó ekki neinum til byrði,
9 því að úr skorti mínum bættu bræðurnir, er komu frá Makedóníu. Og í öllu varaðist ég að verða yður til þyngsla og mun varast.
10 Svo sannarlega sem sannleiki Krists er í mér, skal þessi hrósun um mig ekki verða þögguð niður í héruðum Akkeu.
11 Hvers vegna? Er það af því að ég elska yður ekki? Nei, Guð veit að ég gjöri það.
12 En það, sem ég gjöri, mun ég og gjöra til þess að svipta þá tækifærinu, sem færis leita til þess að vera jafnokar vorir í því, sem þeir stæra sig af.
13 Því að slíkir menn eru falspostular, svikulir verkamenn, er taka á sig mynd postula Krists.
14 Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd.
15 Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd réttlætisþjóna. Afdrif þeirra munu verða samkvæmt verkum þeirra.
16 Enn segi ég: Ekki álíti neinn mig fávísan. En þó svo væri, þá takið samt við mér sem fávísum, til þess að ég geti líka hrósað mér dálítið.
17 Það sem ég tala nú, þegar ég tek upp á að hrósa mér, tala ég ekki að hætti Drottins, heldur eins og í heimsku.
18 Með því að margir hrósa sér af sínum mannlegu afrekum, vil ég einnig hrósa mér svo,
19 því að fúslega umberið þér hina fávísu, svo vitrir sem þér eruð.
20 Þér umberið það, þótt einhver hneppi yður í ánauð, þótt einhver eti yður upp, þótt einhver hremmi yður, þótt einhver lítilsvirði yður, þótt einhver slái yður í andlitið.
21 Ég segi það mér til minnkunar, að í þessu höfum vér sýnt oss veika. En þar sem aðrir láta drýgindalega, _ ég tala fávíslega _, þar gjöri ég það líka.
16 Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.
17 En nær þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt,
18 svo að menn verði ekki varir við, að þú fastar, heldur faðir þinn, sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.
19 Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.
20 Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.
21 Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.
22 Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur.
23 En sé auga þitt spillt, verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið.
by Icelandic Bible Society