Book of Common Prayer
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.
2 Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.
3 Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.
4 Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.
5 Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt
6 og horfir djúpt á himni og á jörðu.
7 Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum
8 og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.
9 Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.
9 "Hverjum þykist spámaðurinn vera að kenna visku og hvern ætlar hann að fræða með boðskap sínum? Erum vér nývandir af mjólkinni og nýteknir af brjóstunum?
10 Alltaf að skipa og skipa, skipa og skipa _ skamma og skamma, skamma og skamma _ ýmist þetta, ýmist hitt."
11 Já, með stamandi vörum og annarlegri tungu mun hann láta tala til þessarar þjóðar,
12 hann sem sagði við þá: "Þetta er hvíldin _ ljáið hinum þreytta hvíld! _ Hér er hvíldarstaður." En þeir vildu ekki heyra.
13 Fyrir því mun orð Drottins láta svo í eyrum þeirra: "Skipa og skipa, skipa og skipa _ skamma og skamma, skamma og skamma _ ýmist þetta, ýmist hitt," að þeir steypist aftur á bak og beinbrotni, festist í snörunni og verði teknir.
14 Heyrið því orð Drottins, þér spottsamir menn, þér sem drottnið yfir fólki því, sem býr í Jerúsalem.
15 Þér segið: "Vér höfum gjört sáttmála við dauðann og samning við Hel. Þó að hin dynjandi svipa ríði yfir, þá mun hún eigi til vor koma, því að vér höfum gjört lygi að hæli voru og falið oss í skjóli svikanna."
16 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo: Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon, traustan stein, óbifanlegan, ágætan hornstein. Sá sem trúir, er eigi óðlátur.
17 Ég gjöri réttinn að mælivað og réttlætið að mælilóði. Og haglhríð skal feykja burt hæli lyginnar og vatnsflóð skola burt skjólinu.
18 Sáttmáli yðar við dauðann skal rofinn verða og samningur yðar við Hel eigi standa. Þá er hin dynjandi svipa ríður yfir, skuluð þér sundurmarðir verða af henni.
19 Í hvert sinn, sem hún ríður yfir, skal hún hremma yður, því að á hverjum morgni ríður hún yfir, nótt sem nýtan dag. Og það skal verða skelfingin ein að skilja boðskapinn.
20 Hvílan mun verða of stutt til þess að maður fái rétt úr sér, og ábreiðan of mjó til þess að maður fái skýlt sér með henni.
21 Drottinn mun standa upp, eins og á Perasímfjalli, hann mun reiðast, eins og í dalnum hjá Gíbeon. Hann mun vinna verk sitt, hið undarlega verk sitt, og framkvæma starf sitt, hið óvanalega starf sitt.
22 Látið nú af spottinu, svo að fjötrar yðar verði ekki enn harðari, því að ég hefi heyrt af hinum alvalda, Drottni allsherjar, að fastráðið sé, að eyðing komi yfir land allt.
9 Nú kom einn af englunum sjö, sem héldu á skálunum sjö, sem fullar voru af síðustu plágunum sjö, og talaði við mig og sagði: "Kom hingað, og ég mun sýna þér brúðina, eiginkonu lambsins."
10 Og hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem niður steig af himni frá Guði.
11 Hún hafði dýrð Guðs. Ljómi hennar var líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær.
12 Hún hafði mikinn og háan múr og tólf hlið og við hliðin stóðu tólf englar og nöfn þeirra tólf kynkvísla Ísraelssona voru rituð á hliðin tólf.
13 Móti austri voru þrjú hlið, móti norðri þrjú hlið, móti suðri þrjú hlið og móti vestri þrjú hlið.
14 Og múr borgarinnar hafði tólf undirstöðusteina og á þeim nöfn hinna tólf postula lambsins.
15 Og sá, sem við mig talaði, hélt á kvarða, gullstaf, til að mæla borgina og hlið hennar og múr hennar.
16 Borgin liggur í ferhyrning, jöfn á lengd og breidd. Og hann mældi borgina með stafnum, tólf þúsund skeið. Lengd hennar og breidd og hæð eru jafnar.
17 Og hann mældi múr hennar, hundrað fjörutíu og fjórar álnir, eftir kvarða manns, sem er einnig mál engils.
18 Múr hennar var byggður af jaspis og borgin af skíra gulli sem skært gler væri.
19 Undirstöðusteinar borgarmúrsins voru skreyttir alls konar gimsteinum. Fyrsti undirstöðusteinninn var jaspis, annar safír, þriðji kalsedón, fjórði smaragð,
20 fimmti sardónyx, sjötti sardis, sjöundi krýsólít, áttundi beryll, níundi tópas, tíundi krýsópras, ellefti hýasint, tólfti ametýst.
21 Og hliðin tólf voru tólf perlur, og hvert hlið úr einni perlu. Og stræti borgarinnar var af skíru gulli sem gagnsætt gler.
26 En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret,
27 til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María.
28 Og engillinn kom inn til hennar og sagði: "Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér."
29 En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri.
30 Og engillinn sagði við hana: "Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði.
31 Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ.
32 Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans,
33 og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða."
34 Þá sagði María við engilinn: "Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?"
35 Og engillinn sagði við hana: "Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs.
36 Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja,
37 en Guði er enginn hlutur um megn."
38 Þá sagði María: "Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum." Og engillinn fór burt frá henni.
by Icelandic Bible Society