Book of Common Prayer
63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.
2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.
5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.
9 Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.
10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.
11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.
12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.
98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.
4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
15 Ég tala til yðar sem skynsamra manna. Dæmið þér um það, sem ég segi.
16 Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists?
17 Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.
18 Lítið á Ísraelsþjóðina. Eiga þeir, sem fórnirnar eta, ekki hlut í altarinu?
19 Hvað segi ég þá? Að kjöt fórnað skurðgoðum sé nokkuð? Eða skurðgoð sé nokkuð?
20 Nei, heldur að það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði. En ég vil ekki, að þér hafið samfélag við illa anda.
21 Ekki getið þér drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda.
22 Eða eigum vér að reita Drottin til reiði? Munum vér vera máttugri en hann?
23 Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt, en ekki byggir allt upp.
24 Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.
15 Ef bróðir þinn syndgar [gegn þér], skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn.
16 En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að ,hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.`
17 Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.
18 Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni.
19 Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim.
20 Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra."
by Icelandic Bible Society