Book of Common Prayer
145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.
146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.
147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.
148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.
149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.
150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.
151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.
152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.
153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.
154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.
155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.
156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.
157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.
158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.
159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.
160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.
161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín.
162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.
163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.
164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.
165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.
166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín.
167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.
168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir.
169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.
170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.
171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín.
172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti.
173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.
174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín.
175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið.
176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.
128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.
2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.
3 Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.
4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.
5 Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
6 og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!
129 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _
2 þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér.
3 Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng,
4 en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra.
5 Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon.
6 Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist.
7 Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur,
8 og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: "Blessun Drottins sé með yður." Vér blessum yður í nafni Drottins!
130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
2 Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!
3 Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?
4 En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.
5 Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.
6 Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.
7 Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.
8 Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.
34 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
2 "Mannsson, spá þú um Ísraels hirða, spá þú og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Vei hirðum Ísraels, er héldu sjálfum sér til haga. Eiga ekki hirðarnir að halda sauðunum til haga?
3 Mjólkurinnar neyttuð þér, klædduð yður af ullinni, slátruðuð alifénu, en sauðunum hafið þér eigi haldið til haga.
4 Þér komuð ekki þrótti í veiku skepnurnar og læknuðuð ekki hið sjúka, bunduð ekki um hið limlesta, sóttuð ekki það, er hrakist hafði, og leituðuð ekki hins týnda, heldur drottnuðuð þér yfir þeim með hörku og grimmd.
5 Og fyrir því tvístruðust þeir, af því að enginn var hirðirinn, og urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð.
6 Sauðir mínir ráfuðu um öll fjöll og allar háar hæðir, sauðir mínir voru tvístraðir um allt landið, og enginn skeytti um þá og enginn leitaði þeirra.
7 Heyrið því orð Drottins, þér hirðar!
8 Svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð: Vissulega, af því að sauðir mínir urðu að herfangi og af því að sauðir mínir urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð, með því að enginn var hirðirinn og með því að hirðar mínir skeyttu eigi um sauði mína, _ því að hirðarnir héldu sjálfum sér til haga, en sauðum mínum héldu þeir ekki til haga _
9 fyrir því heyrið orð Drottins, þér hirðar!
10 Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna hirðana og ég skal krefja sauða minna af hendi þeirra og gjöra enda á fjárgæslu þeirra. Og hirðarnir skulu ekki lengur halda sjálfum sér til haga, heldur skal ég hrífa sauði mína úr munni þeirra, svo að þeir verði þeim eigi framar að bráð.
11 Svo segir Drottinn Guð: Hér er ég sjálfur og mun leita sauða minna og annast þá.
12 Eins og hirðir annast hjörð sína þann dag, sem hann er á meðal hinna tvístruðu sauða sinna, þannig mun ég annast sauði mína og heimta þá úr öllum þeim stöðum, þangað sem þeir hröktust í þokunni og dimmviðrinu.
13 Og ég mun sækja þá til þjóðanna og saman safna þeim úr löndunum og leiða þá inn í land þeirra og halda þeim til haga á Ísraels fjöllum, í dölunum og á öllum byggðum bólum í landinu.
14 Ég mun halda þeim í góðu haglendi, og beitiland þeirra mun vera á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir liggja í góðu beitilandi og ganga í feitu haglendi á Ísraels fjöllum.
15 Ég mun sjálfur halda sauðum mínum til haga og sjálfur bæla þá, segir Drottinn Guð.
16 Ég mun leita að hinu týnda og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og koma þrótti í hið veika, en varðveita hið feita og sterka. Ég mun halda þeim til haga, eins og vera ber.
12 Ég rita yður, börnin mín, af því að syndir yðar eru yður fyrirgefnar fyrir sakir nafns hans.
13 Ég rita yður, þér feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég rita yður, þér ungu menn, af því að þér hafið sigrað hinn vonda.
14 Ég hef ritað yður, börn, af því að þér þekkið föðurinn. Ég hef ritað yður, feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég hef ritað yður, ungu menn, af því að þér eruð styrkir og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda.
15 Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins.
16 Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.
17 Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.
5 Þessa tólf sendi Jesús út og mælti svo fyrir: "Haldið ekki til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg.
6 Farið heldur til týndra sauða af Ísraelsætt.
7 Farið og prédikið: ,Himnaríki er í nánd.`
8 Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda. Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.
9 Takið ekki gull, silfur né eir í belti,
10 eigi mal til ferðar eða tvo kyrtla og hvorki skó né staf. Verður er verkamaðurinn fæðis síns.
11 Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur, og þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju.
12 Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs,
13 og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það, en sé það ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar.
14 Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar.
15 Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg.
by Icelandic Bible Society