Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 120-127

120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.

Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.

Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?

Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.

Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.

Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.

Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.

121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.

Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.

Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.

Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."

Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.

Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,

þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,

því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.

Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.

Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.

Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.

Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.

123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.

Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.

Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.

Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.

124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _

hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,

þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.

Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,

þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.

Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.

Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.

Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.

125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.

Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.

Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.

Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.

En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!

126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.

Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."

Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.

Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.

Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.

Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.

127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.

Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!

Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.

Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.

Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.

Esekíel 33:21-33

21 Á tólfta árinu eftir að vér vorum herleiddir, fimmta dag hins tíunda mánaðar kom til mín flóttamaður frá Jerúsalem með þau tíðindi: "Borgin er unnin!"

22 En hönd Drottins hafði komið yfir mig kveldið áður en flóttamaðurinn kom, og Guð hafði lokið upp munni mínum áður en hinn kom til mín um morguninn. Munnur minn var upp lokinn, og ég þagði eigi lengur.

23 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

24 "Mannsson, þeir sem búa í þessum borgarrústum í Ísraelslandi segja: ,Abraham var ekki nema einn og þó fékk hann landið til eignar, en vér erum margir, oss var landið gefið til eignar.`

25 Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Þér etið fórnarkjöt á fjöllunum og hefjið augu yðar til skurðgoðanna og úthellið blóði, og þér viljið eiga landið!

26 Þér reiðið yður á sverð yðar, þér hafið svívirðing í frammi, þér smánið hver annars konu, og þér viljið eiga landið!

27 Þú skalt mæla þannig til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Svo sannarlega sem ég lifi, þeir sem hafast við í rústunum, skulu falla fyrir sverði, þá sem eru úti á bersvæði, gef ég villidýrunum að fæðslu, og þeir sem hafast við í klettavígjum og hellum, skulu deyja af drepsótt.

28 Og ég skal gjöra landið að auðn og öræfum, og úti er um þess dýrlega skraut, og Ísraels fjöll skulu í eyði liggja, svo að enginn fer þar um.

29 Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég gjöri landið að auðn og öræfum vegna allra þeirra svívirðinga, er þeir hafa framið.

30 Mannsson, samlandar þínir tala sín á milli um þig hjá veggjunum og við húsdyrnar, og segja hver við annan: ,Komið og heyrið, hvaða orð kemur frá Drottni!`

31 Og þeir koma til þín í hópum og sitja frammi fyrir þér, en þegar þeir hafa heyrt orð þín, þá breyta þeir ekki eftir þeim. Því að lygi er í munni þeirra, en hjarta þeirra eltir fégróðann.

32 Og sjá, þú ert þeim eins og ástarkvæði, eins og sá, er hefir fagra söngrödd og vel leikur á strengina: Þeir hlusta á orð þín, en breyta ekki eftir þeim.

33 En þegar það kemur fram, og það kemur vissulega fram, þá munu þeir viðurkenna, að spámaður var meðal þeirra."

Fyrsta bréf Jóhannesar 2:1-11

Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.

Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.

Og á því vitum vér, að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans.

Sá sem segir: "Ég þekki hann," og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum.

En hver sem varðveitir orð hans, í honum er sannarlega kærleikur til Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum.

Þeim sem segist vera stöðugur í honum, honum ber sjálfum að breyta eins og hann breytti.

Þér elskaðir, það er ekki nýtt boðorð, sem ég rita yður, heldur gamalt boðorð, sem þér hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið, sem þér heyrðuð.

Engu að síður er það nýtt boðorð, er ég rita yður, sem er augljóst í honum og í yður, því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.

Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu.

10 Sá sem elskar bróður sinn, hann er stöðugur í ljósinu og í honum er ekkert, er leitt geti hann til falls.

11 En sá sem hatar bróður sinn, hann er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer, því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Matteusarguðspjall 9:35-10:4

35 Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi.

36 En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.

37 Þá sagði hann við lærisveina sína: "Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir.

38 Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar."

10 Og hann kallaði til sín lærisveina sína tólf og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum, að þeir gætu rekið þá út og læknað hvers kyns sjúkdóm og veikindi.

Nöfn postulanna tólf eru þessi: Fyrstur Símon, sem kallast Pétur, og Andrés bróðir hans, þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróðir hans,

Filippus og Bartólómeus, Tómas og Matteus tollheimtumaður, Jakob Alfeusson og Taddeus,

Símon vandlætari og Júdas Ískaríot, sá er sveik hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society