Book of Common Prayer
18 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.
2 Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.
3 Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!
4 Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.
5 Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,
6 snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.
7 Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum, og óp mitt barst til eyrna honum.
8 Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður,
9 reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.
10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.
11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.
12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu, regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring.
13 Frá ljómanum fyrir honum brutust hagl og eldglæringar gegnum ský hans.
14 Þá þrumaði Drottinn á himnum, og Hinn hæsti lét raust sína gjalla.
15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum, lét eldingar leiftra og hræddi þá.
16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.
17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.
18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.
19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.
20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.
23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
3 Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.
5 Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.
6 Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?
2 Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.
3 Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.
4 Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.
5 Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.
6 Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.
7 Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!
8 Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
9 Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.
10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.
12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.
13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!
14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.
13 Einu sinni fóru þrír af höfðingjunum þrjátíu og komu til Davíðs í hamrinum, í Adúllamvíginu, en flokkur af Filistum lá í herbúðum í Refaímdal.
14 Þá var Davíð í víginu, en varðsveit Filista var þá í Betlehem.
15 Þá þyrsti Davíð og hann sagði: "Hver vill sækja mér vatn í brunninn í Betlehem, sem er þar við hliðið?"
16 Þá brutust kapparnir þrír gegnum herbúðir Filista, jusu vatni úr brunninum í Betlehem, sem þar er við hliðið, tóku það og færðu Davíð. En hann vildi ekki drekka það, heldur dreypti því Drottni til handa
17 og mælti: "Drottinn láti það vera fjarri mér að gjöra slíkt! Get ég drukkið blóð þeirra manna, sem stofnuðu lífi sínu í hættu með því að fara?" _ og hann vildi ekki drekka það. Þetta gjörðu kapparnir þrír.
1 Öldungurinn heilsar hinni útvöldu frú og börnum hennar, sem ég elska í sannleika. Og ekki ég einn, heldur einnig allir, sem þekkja sannleikann.
2 Vér gjörum það sakir sannleikans, sem er stöðugur í oss og mun vera hjá oss til eilífðar.
3 Náð, miskunn og friður frá Guði föður og frá Jesú Kristi, syni föðurins, mun vera með oss í sannleika og kærleika.
4 Það hefur glatt mig mjög, að ég hef fundið nokkur af börnum þínum, er ganga fram í sannleika, samkvæmt því boðorði, sem vér tókum við af föðurnum.
5 Og nú bið ég þig, frú mín góð, og er þá ekki að skrifa þér nýtt boðorð, heldur það, er vér höfðum frá upphafi: Vér skulum elska hver annan.
6 Og í þessu birtist elskan, að vér lifum eftir boðorðum hans. Þetta er boðorðið, eins og þér heyrðuð það frá upphafi, til þess að þér skylduð lifa í því.
7 Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki játa, að Jesús sé Kristur, kominn í holdi. Þetta er afvegaleiðandinn og andkristurinn.
8 Hafið gætur á sjálfum yður að þér missið ekki það, sem vér höfum áunnið, heldur megið fá full laun.
9 Sérhver sem fer of langt og er ekki stöðugur í kenningu Krists, hefur ekki Guð. Sá sem er stöðugur í kenningunni, hann hefur bæði föðurinn og soninn.
10 Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn.
11 Því að sá, sem biður hann vera velkominn, verður hluttakandi í hans vondu verkum.
12 Þótt ég hafi margt að rita yður, vildi ég ekki gjöra það með pappír og bleki, en ég vona að koma til yðar og tala munnlega við yður, til þess að gleði vor verði fullkomin.
2 Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar.
2 Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans.
3 En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: "Þeir hafa ekki vín."
4 Jesús svarar: "Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn."
5 Móðir hans sagði þá við þjónana: "Gjörið það, sem hann kann að segja yður."
6 Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.
7 Jesús segir við þá: "Fyllið kerin vatni." Þeir fylltu þau á barma.
8 Síðan segir hann: "Ausið nú af og færið veislustjóra." Þeir gjörðu svo.
9 Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann
10 og sagði: "Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú."
11 Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann.
by Icelandic Bible Society