Add parallel Print Page Options

Orð Drottins, sem kom til Sefanía Kúsísonar, Gedaljasonar, Amaríasonar, Hiskíasonar, á dögum Jósía Amónssonar Júdakonungs.

Ég vil gjörsópa öllu burt af jörðunni _ segir Drottinn.

Ég vil sópa burt mönnum og skepnum, ég vil sópa burt fuglum himinsins og fiskum sjávarins, hneykslunum ásamt hinum óguðlegu, og ég vil afmá mennina af jörðunni _ segir Drottinn.

Ég mun útrétta hönd mína gegn Júda og gegn öllum Jerúsalembúum og afmá nafn Baals af þessum stað, nafn hofgoðanna ásamt prestunum,

svo og þá er á þökunum falla fram fyrir her himinsins, og þá sem falla fram fyrir Drottni, en sverja um leið við Milkóm,

svo og þá sem gjörst hafa Drottni fráhverfir og eigi leita Drottins né spyrja eftir honum.

Verið hljóðir fyrir Drottni Guði! Því að nálægur er dagur Drottins. Já, Drottinn hefir efnt til fórnar, hann hefir þegar vígt gesti sína.

Á fórnardegi Drottins mun ég vitja höfðingjanna og konungssonanna, svo og allra þeirra, er klæðast útlenskum klæðnaði.

Þann dag vitja ég allra, sem stökkva yfir þröskuldinn, þeirra er fylla hús Drottins síns með ofbeldi og svikum.

10 Á þeim degi _ segir Drottinn _ mun heyrast neyðaróp frá Fiskhliðinu, kveinan úr öðru borgarhverfi og ógurlegt harmakvein frá hæðunum.

11 Kveinið, þér sem búið í Mortélinu, því að allur kaupmannalýðurinn er eyddur, afmáðir allir þeir, er silfur vega.

12 Í þann tíma mun ég rannsaka Jerúsalem með skriðljósum og vitja þeirra manna, sem liggja á dreggjum sínum, þeirra er segja í hjarta sínu: "Drottinn gjörir hvorki gott né illt."

13 Þá munu fjármunir þeirra verða að herfangi og hús þeirra að auðn. Þeir munu byggja hús, en ekki búa í þeim, planta víngarða, en ekki drekka vínið, sem úr þeim kemur.

14 Hinn mikli dagur Drottins er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög. Heyr! Dagur Drottins! Beisklega kveinar þá kappinn.

15 Sá dagur er dagur reiði, dagur neyðar og þrengingar, dagur eyðingar og umturnunar, dagur myrkurs og niðdimmu, dagur skýþykknis og skýsorta,

16 dagur lúðra og herblásturs _ gegn víggirtu borgunum og háu múrtindunum.

17 Þá mun ég hræða mennina, svo að þeir ráfi eins og blindir menn, af því að þeir hafa syndgað gegn Drottni, og blóði þeirra skal úthellt verða sem dufti og innyflum þeirra sem saur.

18 Hvorki silfur þeirra né gull fær frelsað þá á reiðidegi Drottins, heldur skal allt landið eyðast fyrir eldi vandlætingar hans. Því að tortíming, já bráða eyðing býr hann öllum þeim, sem á jörðunni búa.

Beyg þig og læg þig, þú þjóð, sem eigi blygðast þín,

áður en þér verðið eins og fjúkandi sáðir, áður en hin brennandi reiði Drottins kemur yfir yður, áður en reiðidagur Drottins kemur yfir yður.

Leitið Drottins, allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi Drottins.

Gasa mun verða yfirgefin og Askalon verða að auðn. Asdódbúar munu burt reknir verða um hábjartan dag og Ekron í eyði lögð.

Vei yður, þér sem búið meðfram sjávarsíðunni, þú Kreta þjóð! Orð Drottins beinist gegn yður, Kanaan, land Filista! Já, ég mun eyða þig, svo að þar skal enginn búa.

Og sjávarsíðan skal verða að beitilandi fyrir hjarðmenn og að fjárbyrgjum fyrir sauðfé.

Þá mun sjávarsíðan falla til þeirra, sem eftir verða af Júda húsi. Þar skulu þeir vera á beit, í húsum Askalon skulu þeir leggjast fyrir að kveldi. Því að Drottinn, Guð þeirra, mun vitja þeirra og snúa við högum þeirra.

Ég hefi heyrt svívirðingar Móabs og smánaryrði Ammóníta, er þeir svívirtu með þjóð mína og höfðu hroka í frammi við land þeirra.

Fyrir því skal, svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn allsherjar, Guð Ísraels _ fara fyrir Móab eins og fyrir Sódómu, og fyrir Ammónítum eins og fyrir Gómorru. Þeir skulu verða að gróðrarreit fyrir netlur, að saltgröf og að óbyggðri auðn til eilífrar tíðar. Leifar lýðs míns skulu ræna þá og eftirleifar þjóðar minnar erfa þá.

10 Þetta skal þá henda fyrir drambsemi þeirra, að þeir hafa svívirt þjóð Drottins allsherjar og haft hroka í frammi við hana.

11 Ógurlegur mun Drottinn verða þeim, því að hann lætur alla guði jarðarinnar dragast upp, svo að öll eylönd heiðingjanna dýrki hann, hver maður á sínum stað.

12 Einnig þér, Blálendingar, munuð falla fyrir sverði mínu.

13 Og hann mun rétta út hönd sína gegn norðri og afmá Assýríu. Og hann mun leggja Níníve í eyði, gjöra hana þurra sem eyðimörk.

14 Mitt í henni skulu hjarðir liggja, alls konar dýr hópum saman. Pelíkanar og stjörnuhegrar munu eiga náttból á súlnahöfðum hennar. Heyr kliðinn í gluggatóttunum! Rofhrúgur á þröskuldunum, því að sedrusviðarþilin hafa verið rifin burt!

15 Er þetta glaummikla borgin, er sat andvaralaus og sagði í hjarta sínu: "Ég og engin önnur"? Hversu er hún orðin að auðn, að bæli fyrir villidýr! Hver sá er þar fer um, blístrar og hristir hönd sína hæðnislega.

Vei hinni þverúðarfullu og saurguðu, hinni ofríkisfullu borg!

Hún hlýðir engri áminningu, hún tekur engri hirtingu, hún treystir ekki Drottni og nálægir sig ekki Guði sínum.

Höfðingjarnir í henni eru sem öskrandi ljón, dómendur hennar sem úlfar að kveldi, þeir leifa engu til morguns.

Spámenn hennar eru léttúðarmenn, svikaseggir. Prestar hennar vanhelga hið heilaga, misbjóða lögmálinu.

En Drottinn er réttlátur í henni, hann gjörir ekkert rangt. Á morgni hverjum leiðir hann réttlæti sitt í ljós, það bregst ekki, en hinn rangláti kann ekki að skammast sín.

Ég hefi afmáð þjóðir, múrtindar þeirra voru brotnir niður. Ég hefi lagt stræti þeirra í eyði, svo að enginn var þar á ferð. Borgir þeirra voru eyddar, urðu mannlausar, svo að þar bjó enginn.

Ég sagði: "Óttast þú mig aðeins, tak hirtingu!" þá skal bústaður hennar ekki afmáður verða, eftir allt sem ég hefi fyrirskipað gegn henni. En þeir hafa verið því kostgæfari í því að láta allar gjörðir sínar vera illverk.

Bíðið mín þess vegna _ segir Drottinn, _ bíðið þess dags, er ég rís upp sem vottur. Því að það er mitt ásett ráð að safna saman þjóðum og stefna saman konungsríkjum til þess að úthella yfir þá heift minni, allri minni brennandi reiði. Því að fyrir eldi vandlætingar minnar skal allt landið verða eytt.

Já, þá mun ég gefa þjóðunum nýjar, hreinar varir, svo að þær ákalli allar nafn Drottins og þjóni honum einhuga.

10 Handan frá Blálands fljótum munu þeir færa mér sláturfórnir, flytja mér matfórnir.

11 Á þeim degi þarft þú eigi að skammast þín fyrir öll illverk þín, þau er þú syndgaðir með gegn mér, því að þá mun ég ryðja burt frá þér þeim, er ofkætast drambsamlega í þér, og þú munt ekki framar ofmetnast á mínu heilaga fjalli.

12 Og ég mun láta í þér eftir verða auðmjúkan og lítilmótlegan lýð, þeir munu leita sér hælis í nafni Drottins.

13 Leifar Ísraels munu engin rangindi fremja, né heldur tala lygar, og í munni þeirra mun ekki finnast sviksöm tunga. Já, þeir munu vera á beit og leggjast, án þess að nokkur styggi þá.

14 Fagna þú, dóttirin Síon, lát gleðilátum, þú Ísrael! Ver kát og gleð þig af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem!

15 Drottinn hefir afmáð refsidóma þína, rýmt burt óvini þínum. Konungur Ísraels, Drottinn, er hjá þér, þú munt eigi framar á neinu illu kenna.

16 Á þeim degi mun sagt verða við Jerúsalem: "Óttast ekki, Síon, lát ekki hugfallast!

17 Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir. Hann kætist yfir þér með fögnuði, hann þegir í kærleika sínum, hann fagnar yfir þér með gleðisöng."

18 Ég saman safna þeim, sem hryggir eru út af hátíðarsamkomunni, frá þér voru þeir, smán hvílir á þeim.

19 Sjá, á þeim tíma skal ég eiga erindi við þá, er þig þjáðu. Þá skal ég frelsa hið halta og smala saman því tvístraða, og ég skal gjöra þá fræga og nafnkunna á allri jörðunni.