Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

Ég hóf aftur upp augu mín og sá bókrollu, sem var á flugi.

Þá sagði hann við mig: "Hvað sér þú?" Ég svaraði: "Ég sé bókrollu á flugi, tuttugu álna langa og tíu álna breiða."

Þá sagði hann við mig: "Þetta er bölvunin, sem út gengur yfir gjörvallt landið, því að sérhverjum sem stelur, verður samkvæmt henni sópað héðan, og sérhverjum sem meinsæri fremur, verður samkvæmt henni sópað héðan."

Ég hefi látið hana út ganga _ segir Drottinn allsherjar _ til þess að hún komi inn í hús þjófsins og inn í hús þess, sem meinsæri fremur við nafn mitt, og staðnæmist inni í húsi hans og eyði því bæði að viðum og veggjum.

Þessu næst gekk fram engillinn, er við mig talaði, og sagði við mig: "Hef upp augu þín og sjá, hvað þar kemur fram!"

Ég sagði: "Hvað er þetta?" Þá sagði hann: "Þetta er efan, sem kemur í ljós." Þá sagði hann: "Þetta er misgjörð þeirra í öllu landinu."

Þá lyftist allt í einu upp kringlótt blýlok, og sat þar kona ein niðri í efunni.

Þá sagði hann: "Þetta er Vonskan!" _ kastaði henni ofan í efuna og kastaði blýlokinu ofan yfir opið.

Síðan hóf ég upp augu mín og sá allt í einu tvær konur koma fram, og stóð vindur undir vængi þeim _ því að þær höfðu vængi sem storksvængi _ og hófu þær efuna upp milli jarðar og himins.

10 Þá sagði ég við engilinn, sem við mig talaði: "Hvert fara þær með efuna?"

11 Hann svaraði mér: "Þær ætla að reisa henni hús í Sínearlandi, og þegar það er búið, þá setja þær hana þar á sinn stað."

Ég hóf aftur upp augu mín og sá, hvar fjórir vagnar komu út á milli tveggja fjalla, en fjöllin voru eirfjöll.

Fyrir fyrsta vagninum voru rauðir hestar, fyrir öðrum vagninum svartir hestar,

fyrir þriðja vagninum voru hvítir hestar og fyrir fjórða vagninum rauðskjóttir hestar.

Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, er við mig talaði: "Hvað merkir þetta, herra minn?"

Engillinn svaraði og sagði við mig: "Þetta eru þeir fjórir vindar himinsins. Þeir hafa gengið fyrir Drottin gjörvallrar jarðarinnar og eru nú að fara af stað.

Vagninn með svörtu hestunum fyrir var að fara til landsins norður frá, og hinir hvítu fóru á eftir þeim, en hinir skjóttu fóru til landsins suður frá."

Og hinir rauðu fóru út, og með því að þeir voru ráðnir í að halda af stað til þess að fara um jörðina, sagði hann: "Farið! Farið um jörðina!" Og þeir fóru um jörðina.

Þá kallaði hann á mig og sagði við mig: "Sjá, þeir sem fara til landsins norður frá, svala reiði minni við landið norður frá."

Orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:

10 Tak þú við gjöfum hinna herleiddu af hendi Heldaí, Tobía og Jedaja, og far þú sjálfur þann sama dag og gakk þú inn í hús Jósía Sefaníasonar, en þangað eru þeir komnir frá Babýlon.

11 Þar skalt þú taka silfur og gull og búa til kórónu og setja á höfuð Jósúa Jósadakssonar æðsta prests.

12 Og þú skalt mæla þannig til hans: Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, maður heitir Kvistur. Af hans rótum mun spretta, og hann mun byggja musteri Drottins.

13 Hann er sá sem byggja mun musteri Drottins, og hann mun tign hljóta, svo að hann mun sitja og drottna í hásæti sínu, og prestur mun vera honum til hægri handar, og friðarþel mun vera milli þeirra beggja.

14 En kórónan skal vera þeim Helem, Tobía, Jedaja og Hen Sefaníasyni til minningar í musteri Drottins.

15 Og þeir sem búa í fjarlægð, munu koma til að byggja musteri Drottins. Og þá munuð þér viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar. Ef þér hlýðið röddu Drottins, Guðs yðar, þá mun þetta verða.

Á fjórða ríkisári Daríusar konungs kom orð Drottins til Sakaría. Á fjórða degi hins níunda mánaðar, í kislevmánuði,

sendu Betel Sareser og Regem Melek og menn hans sendimenn til þess að blíðka Drottin.

Þeir lögðu svolátandi fyrirspurn fyrir prestana, sem þjónuðu í húsi Drottins allsherjar, og fyrir spámennina: "Á ég að gráta og fasta í fimmta mánuðinum, eins og ég hefi gjört nú í mörg undanfarin ár?"

Þá kom orð Drottins allsherjar til mín, svo hljóðandi:

Tala þú til alls landslýðsins og til prestanna á þessa leið: Þar sem þér hafið fastað og kveinað í fimmta og sjöunda mánuðinum nú í sjötíu ár, hvort var það þá mín vegna, að þér föstuðuð?

Og er þér etið og drekkið, eruð það þá ekki þér, sem etið, og eruð það ekki þér, sem drekkið?

Eru þetta ekki þau orð, er Drottinn lét kunngjöra fyrir munn hinna fyrri spámanna, þá er Jerúsalem var byggð og naut friðar, ásamt borgunum umhverfis hana, og þá er Suðurlandið og sléttlendið voru byggð?

Þá kom orð Drottins til Sakaría, svo hljóðandi:

Svo segir Drottinn allsherjar: Dæmið rétta dóma og auðsýnið hver öðrum kærleika og miskunnsemi.

10 Veitið ekki ágang ekkjum og munaðarleysingjum, útlendingum né fátækum mönnum, og enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu.

11 En þeir vildu ekki gefa því gaum og þverskölluðust. Þeir gjörðu eyru sín dauf, til þess að þeir skyldu ekki heyra,

12 og þeir gjörðu hjörtu sín að demanti, til þess að þeir skyldu ekki heyra fræðsluna og orðin, sem Drottinn allsherjar sendi fyrir anda sinn, fyrir munn hinna fyrri spámanna, og það kom mikil reiði frá Drottni allsherjar.

13 Og eins og hann kallaði, en þeir heyrðu ekki, svo skulu þeir nú _ sagði Drottinn allsherjar _ kalla, en ég ekki heyra.

14 Og ég feyki þeim burt meðal allra þjóða, er þeir eigi hafa þekkt, og landið skal verða að auðn, þá er þeir eru burt farnir, svo að enginn fer þar um á leið fram eða aftur. Þannig gjörðu þeir unaðslegt land að auðn.

Orð Drottins allsherjar kom til mín, svo hljóðandi:

Svo segir Drottinn allsherjar: Ég er gagntekinn af vandlætisfullri elsku til Síonar og er upptendraður af mikilli reiði hennar vegna.

Svo segir Drottinn: Ég er á afturleið til Síonar og mun taka mér bólfestu í Jerúsalem miðri. Og Jerúsalem mun nefnd verða borgin trúfasta og fjall Drottins allsherjar fjallið helga.

Svo segir Drottinn allsherjar: Enn munu gamlir menn og gamlar konur sitja á torgum Jerúsalem og hvert þeirra hafa staf í hendi sér fyrir elli sakir.

Og torg borgarinnar munu full vera af drengjum og stúlkum, sem leika sér þar á torgunum.

Svo segir Drottinn allsherjar: Þótt það sé furðuverk í augum þeirra, sem eftir verða af þessum lýð á þeim dögum, hvort mun það og vera furðuverk í mínum augum? _ segir Drottinn allsherjar.

Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég mun frelsa lýð minn úr landi sólarupprásarinnar og úr landi sólsetursins,

og ég mun flytja þá heim og þeir skulu búa í Jerúsalem miðri, og þeir skulu vera minn lýður og ég skal vera þeirra Guð í trúfesti og réttlæti.

Svo segir Drottinn allsherjar: Verið hughraustir, þér sem á þessum dögum heyrið þessi orð af munni spámannanna, sem uppi voru, er undirstöðusteinninn var lagður til þess að endurreisa hús Drottins allsherjar, musterið.

10 Því að fyrir þann tíma varð enginn arður af erfiði mannanna og enginn arður af vinnu skepnanna, og enginn var óhultur fyrir óvinum, hvort heldur hann gekk út eða kom heim, og ég hleypti öllum mönnum upp, hverjum á móti öðrum.

11 En nú stend ég öðruvísi gagnvart leifum þessa lýðs en í fyrri daga _ segir Drottinn allsherjar _

12 því að sáðkorn þeirra verða ósködduð. Víntréð ber sinn ávöxt, og jörðin ber sinn gróða. Himinninn veitir dögg sína, og ég læt leifar þessa lýðs taka allt þetta til eignar.

13 Og eins og þér, Júda hús og Ísraels hús, hafið verið hafðir að formæling meðal þjóðanna, eins vil ég nú svo hjálpa yður, að þér verðið hafðir að blessunaróskum. Óttist ekki, verið hughraustir.

14 Því að svo segir Drottinn allsherjar: Eins og ég ásetti mér að gjöra yður illt, þá er feður yðar reittu mig til reiði _ segir Drottinn allsherjar _ og lét mig ekki iðra þess,

15 eins hefi ég nú aftur ásett mér á þessum dögum að gjöra vel við Jerúsalem og Júda hús. Óttist ekki!

16 Þetta er það sem yður ber að gjöra: Talið sannleika hver við annan og dæmið ráðvandlega og eftir óskertum rétti í hliðum yðar.

17 Enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu og hafið ekki mætur á lyga-svardögum. Því að allt slíkt hata ég _ segir Drottinn.

18 Orð Drottins allsherjar kom til mín, svo hljóðandi:

19 Svo segir Drottinn allsherjar: Fastan í hinum fjórða mánuði, fastan í hinum fimmta mánuði, fastan í hinum sjöunda mánuði og fastan í hinum tíunda mánuði mun verða Júda húsi til fagnaðar og gleði og að unaðslegum hátíðardögum. En elskið sannleik og frið.

20 Svo segir Drottinn allsherjar: Enn munu koma heilar þjóðir og íbúar margra borga.

21 Íbúar einnar borgar munu fara til annarrar og segja: "Vér skulum fara til þess að blíðka Drottin og til þess að leita Drottins allsherjar! Ég fer líka!"

22 Og þannig munu fjölmennir þjóðflokkar og voldugar þjóðir koma til þess að leita Drottins allsherjar í Jerúsalem og til þess að blíðka Drottin.

23 Svo segir Drottinn allsherjar: Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings og segja: "Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður."

19 Eftir þetta heyrði ég sem sterkan ym mikils fjölda á himni. Þeir sögðu: "Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors.

Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna."

Og aftur var sagt: "Hallelúja! Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda."

Og öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar féllu fram og tilbáðu Guð, sem í hásætinu situr, og sögðu: "Amen, hallelúja!"

Og frá hásætinu barst rödd, er sagði: "Lofsyngið Guði vorum, allir þér þjónar hans, þér sem hann óttist, smáir og stórir."

Þá heyrði ég raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: "Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.

Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig.

Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra."

Og hann segir við mig: "Rita þú: Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins." Og hann segir við mig: "Þetta eru hin sönnu orð Guðs."

10 Og ég féll fram fyrir fætur honum til að tilbiðja hann og hann segir við mig: "Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, sem hafa vitnisburð Jesú. Tilbið þú Guð. Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar."

11 Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi.

12 Augu hans eru sem eldslogi og á höfði hans eru mörg ennisdjásn. Og hann ber nafn ritað, sem enginn þekkir nema hann sjálfur.

13 Hann er skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er: Orðið Guðs.

14 Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni.

15 Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda.

16 Og á skikkju sinni og lend sinni hefur hann ritað nafn: "Konungur konunga og Drottinn drottna."

17 Og ég sá einn engil, sem stóð á sólunni. Hann hrópaði hárri röddu til allra fuglanna, sem flugu um himinhvolfið: "Komið, safnist saman til hinnar miklu máltíðar Guðs

18 til þess að eta hold konunga og hold herforingja og hold kappa og hold hesta og þeirra, sem á þeim sitja, og hold allra, bæði frjálsra og ófrjálsra, smárra og stórra."

19 Og ég sá dýrið og konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra safnaðar saman til að heyja stríð við þann, sem á hestinum sat, og við herlið hans.

20 Og dýrið var handtekið og ásamt því falsspámaðurinn, sem táknin gjörði í augsýn þess, en með þeim leiddi hann afvega þá, sem tekið höfðu við merki dýrsins, og þá, sem tilbeðið höfðu líkneski þess. Báðum þeim var kastað lifandi í eldsdíkið, sem logar af brennisteini.

21 Og hinir voru drepnir með sverði þess, er á hestinum sat, sverðinu, sem út gekk af munni hans, og allir fuglarnir söddust af hræjum þeirra.