Add parallel Print Page Options

Á áttunda mánuði annars ríkisárs Daríusar kom orð Drottins til Sakaría spámanns Berekíasonar, Iddósonar, svo hljóðandi:

Drottinn var stórreiður feðrum yðar.

Seg því við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Snúið yður til mín _ segir Drottinn allsherjar _ þá mun ég snúa mér til yðar _ segir Drottinn allsherjar.

Verið ekki eins og feður yðar, sem hinir fyrri spámenn áminntu með svofelldum orðum: "Svo segir Drottinn allsherjar: Snúið yður frá yðar vondu breytni og frá yðar vondu verkum!" En þeir hlýddu ekki og gáfu engan gaum að mér _ segir Drottinn.

Feður yðar _ hvar eru þeir? Og spámennirnir _ geta þeir lifað eilíflega?

En orð mín og ályktanir, þau er ég bauð þjónum mínum, spámönnunum, að kunngjöra, hafa þau ekki náð feðrum yðar, svo að þeir sneru við og sögðu: "Eins og Drottinn allsherjar hafði ásett sér að gjöra við oss eftir breytni vorri og verkum vorum, svo hefir hann við oss gjört"?

Á tuttugasta og fjórða degi hins ellefta mánaðar, það er mánaðarins sebat, á öðru ríkisári Daríusar, kom orð Drottins til Sakaría spámanns Berekíasonar, Iddósonar, svo hljóðandi:

Ég sá sýn á náttarþeli: mann ríðandi á rauðum hesti, og hafði hann staðnæmst meðal mýrtustrjánna, sem eru í dalverpinu. Að baki honum voru rauðir, jarpir og hvítir hestar.

Og er ég spurði: "Hverjir eru þessir, herra minn?" svaraði engillinn mér, sá er við mig talaði: "Ég skal sýna þér, hverjir þeir eru."

10 Þá tók maðurinn, sem staðnæmst hafði meðal mýrtustrjánna, til máls og sagði: "Þessir eru þeir, sem Drottinn hefir sent til þess að fara um jörðina."

11 Þá svöruðu þeir engli Drottins, er staðnæmst hafði meðal mýrtustrjánna, og sögðu: "Vér höfum farið um jörðina, og sjá, öll jörðin er í ró og kyrrð."

12 Þá svaraði engill Drottins og sagði: "Drottinn allsherjar, hversu lengi á því fram að fara, að þú miskunnir þig ekki yfir Jerúsalem og Júdaborgir, er þú hefir nú reiður verið í sjötíu ár?"

13 Þá svaraði Drottinn englinum, er við mig talaði, blíðum orðum og huggunarríkum,

14 og engillinn sem við mig talaði, sagði við mig: "Kunngjör og seg: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég brenn af mikilli vandlæting vegna Jerúsalem og Síonar

15 og ég er stórreiður hinum andvaralausu heiðingjum, sem juku á bölið, þá er ég var lítið eitt reiður.

16 Fyrir því segir Drottinn svo: Ég sný mér aftur að Jerúsalem með miskunnsemi. Hús mitt skal verða endurreist í henni _ segir Drottinn allsherjar _ og mælivaður skal þaninn verða yfir Jerúsalem.

17 Kunngjör enn fremur og seg: Svo segir Drottinn allsherjar: Enn skulu borgir mínar fljóta í gæðum, og enn mun Drottinn hugga Síon og enn útvelja Jerúsalem."

Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar fjögur horn voru.

Þá spurði ég engilinn, sem við mig talaði: "Hvað merkja þessi?" Hann svaraði mér: "Þetta eru hornin, sem tvístrað hafa Júda, Ísrael og Jerúsalem."

Því næst lét Drottinn mig sjá fjóra smiði,

og er ég spurði: "Hvað ætla þessir að gjöra?" svaraði hann á þessa leið: "Þetta eru hornin, sem tvístruðu Júda svo, að enginn bar höfuð hátt, en þessir eru komnir til þess að skelfa þau, til þess að varpa niður hornum þeirra þjóða, er hófu horn gegn Júdalandi til þess að tvístra því."

Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar maður var. Hann hélt á mæliþræði í hendi sér.

Þá spurði ég: "Hvert ætlar þú?" Hann svaraði mér: "Að mæla Jerúsalem til þess að sjá, hve löng og hve breið hún er."

Þá gekk engillinn, er við mig talaði, allt í einu fram, og annar engill gekk fram á móti honum.

Við hann sagði hann: "Hlaup þú og tala þú svo til þessa unga manns: ,Jerúsalem skal liggja opin og ógirt sökum þess fjölda manna og skepna, sem í henni verða,

og ég sjálfur skal vera eins og eldveggur kringum hana _ segir Drottinn _ og ég skal sýna mig dýrlegan í henni."`

10 Upp, upp, flýið úr norðurlandinu _ segir Drottinn _ því að ég hefi tvístrað yður í allar áttir _ segir Drottinn.

11 Upp, forðið yður til Síonar, þér sem búið í Babýlon!

12 Svo segir Drottinn allsherjar, hinn vegsamlegi, sem hefir sent mig til þjóðanna sem rændu yður: Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn.

13 Því sjá, ég mun veifa hendi minni yfir þeim, og þá skulu þeir verða þrælum sínum að herfangi, og þér skuluð viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig.

14 Fagna þú og gleð þig, dóttirin Síon! Því sjá, ég kem og vil búa mitt í þér _ segir Drottinn.

15 Á þeim degi munu margar þjóðir ganga Drottni á hönd og verða hans lýður og búa mitt á meðal þín, og þú munt viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til þín.

16 Þá mun Drottinn taka Júda til eignar sem arfleifð sína í hinu heilaga landi og enn útvelja Jerúsalem.

17 Allt hold veri hljótt fyrir Drottni! Því að hann er risinn upp frá sínum heilaga bústað.

Því næst lét hann mig sjá Jósúa æðsta prest, þar sem hann stóð frammi fyrir engli Drottins og Satan honum til hægri handar til þess að ákæra hann.

En Drottinn mælti til Satans: "Drottinn ávíti þig, Satan! Drottinn, sem útvalið hefir Jerúsalem, ávíti þig! Er ekki þessi eins og brandur úr báli dreginn?"

Jósúa var í óhreinum klæðum, þar er hann stóð frammi fyrir englinum.

Þá tók engillinn til máls og mælti til þeirra, er stóðu frammi fyrir honum: "Færið hann úr hinum óhreinu klæðum!" Síðan sagði hann við hann: "Sjá, ég hefi burt numið misgjörð þína frá þér og læt nú færa þig í skrúðklæði."

Enn fremur sagði hann: "Látið hreinan ennidúk um höfuð hans!" Þá létu þeir hreinan ennidúk um höfuð hans og færðu hann í klæðin, en engill Drottins stóð hjá.

Og engill Drottins vitnaði fyrir Jósúa og sagði:

"Svo segir Drottinn allsherjar: Ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín, þá skalt þú og stjórna húsi mínu og gæta forgarða minna, og ég heimila þér að ganga meðal þessara þjóna minna."

Heyr, Jósúa æðsti prestur, þú og félagar þínir, sem sitja frammi fyrir þér, eru fyrirboðar þess, að ég læt þjón minn Kvist koma.

Því sjá, steinninn, sem ég hefi lagt frammi fyrir Jósúa _ sjö augu á einum steini _ sjá, ég gref á hann letur hans _ segir Drottinn allsherjar _ og tek burt á einum degi misgjörð þessa lands.

10 Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ munuð þér bjóða hver öðrum inn undir víntré og fíkjutré.

Þá vakti engillinn, er við mig talaði, mig aftur, eins og þegar maður er vakinn af svefni,

og sagði við mig: "Hvað sér þú?" Ég svaraði: "Ég sé ljósastiku, og er öll af gulli. Ofan á henni er olíuskál og á henni eru sjö lampar og sjö pípur fyrir lampana.

Og hjá ljósastikunni standa tvö olíutré, annað hægra megin við olíuskálina, hitt vinstra megin."

Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, sem við mig talaði: "Hvað merkir þetta, herra minn?"

Og engillinn, sem við mig talaði, svaraði og sagði við mig: "Veistu ekki, hvað þetta merkir?" Ég svaraði: "Nei, herra minn!"

Þá tók hann til máls og sagði við mig: "Þetta eru orð Drottins til Serúbabels: Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn! _ segir Drottinn allsherjar.

Hver ert þú, stóra fjall? Fyrir Serúbabel skalt þú verða að sléttu. Og hann mun færa út hornsteininn, og þá munu kveða við fagnaðaróp: Dýrlegur, dýrlegur er hann!"

Og orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:

Hendur Serúbabels hafa lagt grundvöll þessa húss, hendur hans munu og fullgjöra það. Og þá skaltu viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar.

10 Því að allir þeir, sem lítilsvirða þessa litlu byrjun, munu horfa fagnandi á blýlóðið í hendi Serúbabels. Þessir sjö lampar eru augu Drottins, sem líta yfir gjörvalla jörðina.

11 Þá tók ég til máls og sagði við hann: "Hvað merkja þessi tvö olíutré, hægra og vinstra megin ljósastikunnar?"

12 Og ég tók annað sinn til máls og sagði við hann: "Hvað merkja þær tvær olíuviðargreinar, sem eru við hliðina á þeim tveimur gullpípum, sem láta olífuolíu streyma út úr sér?"

13 Þá sagði hann við mig: "Veistu ekki, hvað þær merkja?" Ég svaraði: "Nei, herra minn!"

14 Þá sagði hann: "Það eru þeir tveir smurðu, er standa frammi fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar."

18 Eftir þetta sá ég annan engil stíga ofan af himni, og hafði hann mikið vald og jörðin ljómaði af dýrð hans.

Og hann hrópaði með sterkri röddu og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla og orðin að djöfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla.

Því að hún hefur byrlað öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns, og konungar jarðarinnar drýgðu saurlifnað með henni og kaupmenn jarðarinnar auðguðust af gnóttum munaðar hennar."

Og ég heyrði aðra rödd af himni, sem sagði: "Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.

Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.

Gjaldið henni eins og hún hefur goldið og tvígjaldið henni eftir verkum hennar, byrlið henni tvöfalt í bikarinn, sem hún hefur byrlað.

Veitið henni eins mikla kvöl og sorg og hennar stærilæti og óhóf hefur verið. Hún segir í hjarta sínu: ,Hér sit ég og er drottning, ekkja er ég eigi, sorg mun ég aldrei sjá.`

Fyrir því munu plágur hennar koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er Drottinn Guð, sem hana dæmdi."

Og konungar jarðarinnar, sem með henni drýgðu saurlifnað og lifðu í munaði, munu gráta og kveina yfir henni er þeir sjá reykinn af brennu hennar.

10 Af ótta fyrir kvöl hennar munu þeir standa langt frá og segja: "Vei, vei, borgin mikla, Babýlon, borgin volduga, á einni stundu kom dómur þinn."

11 Og kaupmenn jarðarinnar gráta og harma yfir henni, því að enginn kaupir nú framar vörur þeirra,

12 farma af gulli og silfri, gimsteinum og perlum, dýru líni og purpura, silki og skarlati og alls konar ilmvið og alls konar muni af fílabeini og alls konar muni af hinum dýrasta viði og af eiri og járni og marmara,

13 og kanelbörk og balsam, ilmjurtir og smyrsl, reykelsi, vín og olíu og fínt mjöl, og hveiti og eyki og sauði og hesta og vagna og man og mannasálir.

14 Og ávöxturinn, sem sála þín girnist, hefur brugðist þér, öll sæld og glys þér horfið og enginn mun framar örmul af því finna.

15 Seljendur þessara hluta, sem auðgast hafa á henni, munu standa álengdar af ótta yfir kvöl hennar, grátandi og harmandi

16 og segja: "Vei, vei, borgin mikla, sem klæddist dýru líni, purpura og skarlati og var gulli roðin og gimsteinum og perlum.

17 Á einni stundu eyddist allur þessi auður." Og allir skipstjórar, allir farmenn og hásetar og allir þeir, sem atvinnu reka á sjónum, stóðu álengdar

18 og hrópuðu, er þeir sáu reykinn af brennu hennar, og sögðu: "Hvaða borg jafnast við borgina miklu?"

19 Og þeir jusu mold yfir höfuð sér og hrópuðu grátandi og harmandi: "Vei, vei, borgin mikla, sem allir þeir, er skip eiga á sjónum, auðguðust á vegna auðæfa hennar. Á einni stundu var hún í eyði lögð."

20 Fagna yfir henni, þú himinn og þér heilögu og þér postular og spámenn, því að Guð hefur rekið réttar yðar á henni.

21 Og einn sterkur engill tók upp stein, eins og mikinn kvarnarstein, og kastaði í hafið og sagði: "Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða.

22 Og hörpusláttur og sönglist, pípuhljómur og lúðurþytur skal ekki framar heyrast í þér og engir iðnaðarmenn og iðnir skulu framar í þér finnast og kvarnarhljóð skal eigi framar í þér heyrast.

23 Lampaljós skal eigi framar í þér lýsa og raust brúðguma og brúðar skal eigi framar heyrast í þér. Kaupmenn þínir voru höfðingjar jarðarinnar, af því að allar þjóðir leiddust í villu af töfrum þínum.

24 Og í henni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni."