Add parallel Print Page Options

Já, fögur ertu, vina mín, já, fögur ertu. Augu þín eru dúfuaugu fyrir innan skýluraufina. Hár þitt er eins og geitahjörð, sem rennur niður Gíleaðfjall.

Tennur þínar eru eins og hópur af nýklipptum ám, sem koma af sundi, sem allar eru tvílembdar og engin lamblaus meðal þeirra.

Varir þínar eru eins og skarlatsband og munnur þinn yndislegur. Vangi þinn er eins og kinn á granatepli út um skýluraufina.

Háls þinn er eins og Davíðsturn, reistur fyrir hernumin vopn. Þúsund skildir hanga á honum, allar törgur kappanna.

Brjóst þín eru eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar, sem eru á beit meðal liljanna.

Þar til kular af degi og skuggarnir flýja, vil ég ganga til myrruhólsins og til reykelsishæðarinnar.

Öll ertu fögur, vina mín, og á þér eru engin lýti.

Með mér frá Líbanon, brúður, með mér skaltu koma frá Líbanon! Lít niður frá Amanatindi, frá Senír- og Hermontindi, frá bælum ljónanna, frá fjöllum pardusdýranna.

Þú hefir rænt hjarta mínu, systir mín, brúður, þú hefir rænt hjarta mínu með einu augnatilliti þínu, með einni festi af hálsskarti þínu.

10 Hversu ljúf er ást þín, systir mín, brúður, hversu miklu dýrmætari er ást þín en vín og angan smyrsla þinna heldur en öll ilmföng.

11 Hunangsseimur drýpur af vörum þínum, brúður, hunang og mjólk er undir tungu þinni, og ilmur klæða þinna er eins og Líbanonsilmur.

12 Lokaður garður er systir mín, brúður, lokuð lind, innsigluð uppspretta.

13 Frjóangar þínir eru lystirunnur af granateplatrjám með dýrum ávöxtum, kypurblóm og nardusgrös,

14 nardus og krókus, kalamus og kanel, ásamt alls konar reykelsisrunnum, myrra og alóe, ásamt alls konar ágætis ilmföngum.

15 Þú ert garðuppspretta, brunnur lifandi vatns og bunulækur ofan af Líbanon.

16 Vakna þú, norðanvindur, og kom þú, sunnanblær, blás þú um garð minn, svo að ilmur hans dreifist. Unnusti minn komi í garð sinn og neyti hinna dýru ávaxta hans.

Ég kom í garð minn, systir mín, brúður, ég tíndi myrru mína og balsam. Ég át hunangsköku mína og hunangsseim, ég drakk vín mitt og mjólk. Etið, vinir, drekkið, gjörist ástdrukknir.

Ég sef, en hjarta mitt vakir, heyr, unnusti minn drepur á dyr! "Ljúk upp fyrir mér, systir mín, vina mín, dúfan mín, ljúfan mín! Því að höfuð mitt er alvott af dögg, hárlokkar mínir af dropum næturinnar."

"Ég er komin úr kyrtlinum, hvernig ætti ég að fara í hann aftur? Ég hefi laugað fæturna, hvernig ætti ég að óhreinka þá aftur?"

Unnusti minn rétti höndina inn um gluggann, og hjarta mitt svall honum á móti.

Ég reis á fætur til þess að ljúka upp fyrir unnusta mínum, og myrra draup af höndum mínum og fljótandi myrra af fingrum mínum á handfang slárinnar.

Ég lauk upp fyrir unnusta mínum, en unnusti minn var farinn, horfinn. Ég stóð á öndinni meðan hann talaði. Ég leitaði hans, en fann hann ekki, ég kallaði á hann, en hann svaraði ekki.

Verðirnir sem ganga um borgina, hittu mig, þeir slógu mig, þeir særðu mig, verðir múranna sviptu slæðunum af mér.

Ég særi yður, Jerúsalemdætur: Þegar þér finnið unnusta minn, hvað ætlið þér þá að segja honum? Að ég sé sjúk af ást!

Hvað hefir unnusti þinn fram yfir aðra unnusta, þú hin fegursta meðal kvenna? Hvað hefir unnusti þinn fram yfir aðra unnusta, úr því þú særir oss svo?

10 Unnusti minn er mjallahvítur og rauður, hann ber af tíu þúsundum.

11 Höfuð hans er skíragull, hinir hrynjandi hárlokkar hans hrafnsvartir,

12 augu hans eins og dúfur við vatnslæki, baðandi sig í mjólk, sett í umgjörð,

13 kinnar hans eins og balsambeð, er í vaxa kryddjurtir. Varir hans eru liljur, drjúpandi af fljótandi myrru.

14 Hendur hans eru gullkefli, sett krýsolítsteinum, kviður hans listaverk af fílabeini, lagt safírum.

15 Fótleggir hans eru marmarasúlur, sem hvíla á undirstöðum úr skíragulli, ásýndar er hann sem Líbanon, frábær eins og sedrustré.

16 Gómur hans er sætleikur, og allur er hann yndislegur. Þetta er unnusti minn og þetta er vinur minn, þér Jerúsalemdætur.

Þér óskynsömu Galatar! Hver hefur töfrað yður? Þér hafið þó fengið skýra mynd af Jesú Kristi á krossinum, málaða fyrir augum yðar.

Um þetta eitt vil ég fræðast af yður: Öðluðust þér andann fyrir lögmálsverk eða við að hlýða á fagnaðarerindið og trúa?

Eruð þér svo óskynsamir? Þér sem byrjuðuð í anda, ætlið þér nú að enda í holdi?

Hafið þér til einskis reynt svo mikið? _ ef það þá er til einskis!

Hvað um það, _ sá sem veitir yður andann og framkvæmir máttarverk meðal yðar, gjörir hann það vegna lögmálsverka yðar eða vegna þess að þér heyrið og trúið?

Svo var og um Abraham, "hann trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað."

Þér sjáið þá, að þeir sem byggja á trúnni, þeir eru einmitt synir Abrahams.

Ritningin sá það fyrir, að Guð mundi réttlæta heiðingjana fyrir trú, og því boðaði hún Abraham fyrirfram þann fagnaðarboðskap: "Af þér skulu allar þjóðir blessun hljóta."

Þannig hljóta þeir, sem byggja á trúnni, blessun ásamt hinum trúaða Abraham.

10 En bölvun hvílir á öllum þeim, sem byggja á lögmálsverkum, því að ritað er: "Bölvaður er sá, sem ekki heldur fast við allt það, sem í lögmálsbókinni er ritað, og breytir eftir því."

11 En það er augljóst að fyrir Guði réttlætist enginn með lögmáli, því að "hinn réttláti mun lifa fyrir trú."

12 En lögmálið spyr ekki um trú. Það segir: "Sá, sem breytir eftir boðum þess, mun lifa fyrir þau."

13 Kristur keypti oss undan bölvun lögmálsins með því að verða bölvun fyrir oss, því að ritað er: "Bölvaður er hver sá, sem á tré hangir."

14 Þannig skyldi heiðingjunum hlotnast blessun Abrahams í Kristi Jesú, og vér öðlast fyrir trúna andann, sem fyrirheitið var.

15 Bræður, ég tek dæmi úr mannlegu lífi: Enginn ónýtir eða eykur við staðfesta arfleiðsluskrá, enda þótt hún sé aðeins af manni gjörð.

16 Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og afkvæmi hans, _ þar stendur ekki "og afkvæmum", eins og margir ættu í hlut, heldur "og afkvæmi þínu", eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur.

17 Með þessu vildi ég sagt hafa: Sáttmála, sem áður var staðfestur af Guði, getur lögmálið, sem kom fjögur hundruð og þrjátíu árum síðar, ekki ónýtt, svo að það felli fyrirheitið úr gildi.

18 Sé því þá svo farið, að arfurinn fáist með lögmáli, þá fæst hann ekki framar með fyrirheiti, en Guð veitti Abraham náð sína með fyrirheiti.

19 Hvað er þá lögmálið? Vegna afbrotanna var því bætt við, þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um. Fyrir umsýslan engla er það til orðið, fyrir tilstilli meðalgangara.

20 En meðalgangara gjörist ekki þörf þar sem einn á í hlut, en Guð er einn.

21 Er þá lögmálið gegn fyrirheitum Guðs? Fjarri fer því. Ef vér hefðum fengið lögmál, sem veitt gæti líf, þá fengist réttlætið vissulega með lögmáli.

22 En ritningin segir, að allt sé hneppt undir vald syndarinnar, til þess að fyrirheitið veitist þeim, sem trúa, fyrir trú á Jesú Krist.

23 Áður en trúin kom, vorum vér í gæslu lögmálsins innilokaðir, þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist.

24 Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.

25 En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara.

26 Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú.

27 Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi.

28 Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.

29 En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.