Add parallel Print Page Options

Eftir þetta sá ég sýn: Opnar dyr á himninum og raustin hin fyrri, er ég heyrði sem lúður gylli, talaði við mig og sagði: "Stíg upp hingað, og ég mun sýna þér það, sem verða á eftir þetta."

Jafnskjótt var ég hrifinn í anda. Og sjá: Hásæti stóð á himni og einhver sat í hásætinu.

Sá, er þar sat, sýndist líkur jaspissteini og sardissteini og regnbogi var kringum hásætið á að sjá sem smaragður.

Umhverfis hásætið voru tuttugu og fjögur hásæti, og í þeim hásætum sá ég sitja tuttugu og fjóra öldunga, skrýdda hvítum klæðum og á höfðum þeirra gullkórónur.

Út frá hásætinu gengu eldingar, dunur og þrumur, og sjö eldblys brunnu frammi fyrir hásætinu. Það eru þeir sjö andar Guðs.

Og frammi fyrir hásætinu var sem glerhaf, líkt kristalli. Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir.

Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni.

Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu. Og eigi láta þær af, dag og nótt, að segja: Heilagur, heilagur, heilagur, Drottinn Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur.

Og þegar verurnar gjalda honum, sem í hásætinu situr, dýrð og heiður og þökk, honum sem lifir um aldir alda,

10 þá falla öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir honum, sem í hásætinu situr, og tilbiðja hann, sem lifir um aldir alda, og varpa kórónum sínum niður fyrir hásætinu og segja:

11 Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.

Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum.

Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: "Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?"

En enginn var sá á himni eða jörðu eða undir jörðunni, sem lokið gæti upp bókinni og litið í hana.

Og ég grét stórum af því að enginn reyndist maklegur að ljúka upp bókinni og líta í hana.

En einn af öldungunum segir við mig: "Grát þú eigi! Sjá, sigrað hefur ljónið af Júda ættkvísl, rótarkvistur Davíðs, hann getur lokið upp bókinni og innsiglum hennar sjö."

Þá sá ég fyrir miðju hásætinu og fyrir verunum fjórum og öldungunum lamb standa, sem slátrað væri. Það hafði sjö horn og sjö augu, og eru það sjö andar Guðs, sendir út um alla jörðina.

Og það kom og tók við bókinni úr hægri hendi hans, er í hásætinu sat.

Þegar það hafði tekið við henni, féllu verurnar fjórar og öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir lambinu. Þeir höfðu hver um sig hörpu og gullskálar, fullar af reykelsi, það eru bænir hinna heilögu.

Og þeir syngja nýjan söng: Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.

10 Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á jörðunni.

11 Þá sá ég og heyrði raust margra engla, sem stóðu hringinn í kringum hásætið og verurnar og öldungana, og tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda.

12 Þeir sögðu með hárri röddu: Maklegt er lambið hið slátraða að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft, heiður og dýrð og lofgjörð.

13 Og allt skapað, sem er á himni og jörðu og undir jörðunni og á hafinu, allt sem í þeim er, heyrði ég segja: Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda.

14 Og verurnar fjórar sögðu: "Amen." Og öldungarnir féllu fram og veittu lotningu.

Og ég sá, er lambið lauk upp einu af innsiglunum sjö, og ég heyrði eina af verunum fjórum segja eins og með þrumuraust: "Kom!"

Og ég sá, og sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.

Þegar lambið lauk upp öðru innsiglinu, heyrði ég aðra veruna segja: "Kom!"

Og út gekk annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið.

Þegar lambið lauk upp þriðja innsiglinu, heyrði ég þriðju veruna segja: "Kom!" Og ég sá, og sjá: Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér.

Og mitt á meðal veranna fjögurra heyrði ég eins konar rödd er sagði: "Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar byggs fyrir daglaun, en eigi skalt þú spilla olíunni og víninu."

Þegar lambið lauk upp fjórða innsiglinu, heyrði ég rödd fjórðu verunnar, er sagði: "Kom!"

Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.

Þegar lambið lauk upp fimmta innsiglinu, sá ég undir altarinu sálir þeirra manna, sem drepnir höfðu verið fyrir sakir Guðs orðs og fyrir sakir vitnisburðarins, sem þeir höfðu.

10 Og þeir hrópuðu hárri röddu og sögðu: "Hversu lengi ætlar þú, Herra, þú heilagi og sanni, að draga það að dæma og hefna blóðs vors á byggjendum jarðarinnar?"

11 Og þeim var fengin, hverjum og einum, hvít skikkja. Og þeim var sagt, að þeir skyldu enn hvílast litla hríð, þangað til samþjónar þeirra og bræður þeirra, sem áttu að deyðast eins og sjálfir þeir, einnig fylltu töluna.

12 Og ég sá, er lambið lauk upp sjötta innsiglinu. Og mikill landskjálfti varð, og sólin varð svört sem hærusekkur, og allt tunglið varð sem blóð.

13 Og stjörnur himinsins hröpuðu niður á jörðina eins og þegar fíkjutré, skekið af stormvindi, fellir haustaldin sín.

14 Og himinninn sviptist burt eins og þegar bókfell vefst saman, og hvert fjall og ey færðist úr stað sínum.

15 Og konungar jarðarinnar og höfðingjarnir og herforingjarnir og auðmennirnir, mektarmennirnir og hver þræll og þegn fólu sig í hellum og í hömrum fjalla.

16 Og þeir segja við fjöllin og hamrana: "Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins;

17 því að kominn er dagurinn, hinn mikli dagur reiði þeirra, og hver mun geta staðist?"

Eftir þetta sá ég fjóra engla, er stóðu á fjórum skautum jarðarinnar. Þeir héldu fjórum vindum jarðarinnar, til þess að eigi skyldi vindur blása yfir jörðina né hafið né yfir nokkurt tré.

Og ég sá annan engil stíga upp í austri. Hann hélt á innsigli lifanda Guðs og hrópaði hárri röddu til englanna fjögurra, sem gefið var vald til að granda jörðinni og hafinu,

og sagði: "Vinnið ekki jörðinni grand og ekki heldur hafinu né trjánum, þar til er vér höfum sett innsigli á enni þjóna Guðs vors."

Og ég heyrði tölu þeirra, sem merktir voru innsigli, hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir af öllum ættkvíslum Ísraelssona voru merktar innsigli.

Af Júda ættkvísl voru tólf þúsund merkt innsigli, af Rúbens ættkvísl tólf þúsund, af Gaðs ættkvísl tólf þúsund,

af Assers ættkvísl tólf þúsund, af Naftalí ættkvísl tólf þúsund, af Manasse ættkvísl tólf þúsund,

af Símeons ættkvísl tólf þúsund, af Leví ættkvísl tólf þúsund, af Íssakars ættkvísl tólf þúsund,

af Sebúlons ættkvísl tólf þúsund, af Jósefs ættkvísl tólf þúsund, af Benjamíns ættkvísl tólf þúsund menn merktir innsigli.

Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum.

10 Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.

11 Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð

12 og sögðu: Amen, lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.

13 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: "Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?"

14 Og ég sagði við hann: "Herra minn, þú veist það." Hann sagði við mig: "Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.

15 Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá.

16 Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti.

17 Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra."

Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund.

Og ég sá englana sjö, sem stóðu frammi fyrir Guði, og þeim voru fengnar sjö básúnur.

Og annar engill kom og nam staðar við altarið. Hann hélt á reykelsiskeri úr gulli. Honum var fengið mikið reykelsi til þess að hann skyldi leggja það við bænir allra hinna heilögu á gullaltarið frammi fyrir hásætinu.

Og reykurinn af reykelsinu steig upp með bænum hinna heilögu úr hendi engilsins frammi fyrir Guði.

Þá tók engillinn reykelsiskerið og fyllti það eldi af altarinu og varpaði ofan á jörðina. Og þrumur komu og dunur og eldingar og landskjálfti.

Og englarnir sjö, sem héldu á básúnunum sjö, bjuggu sig til að blása.

Hinn fyrsti básúnaði. Þá kom hagl og eldur, blóði blandað, og því var varpað ofan á jörðina. Og þriðjungur jarðarinnar eyddist í loga, og þriðjungur trjánna eyddist í loga, og allt grængresi eyddist í loga.

Annar engillinn básúnaði. Þá var sem miklu fjalli, logandi af eldi, væri varpað í hafið. Þriðjungur hafsins varð blóð,

og þriðjungurinn dó af lífverum þeim, sem eru í hafinu, og þriðjungur skipanna fórst.

10 Þriðji engillinn básúnaði. Þá féll stór stjarna af himni, logandi sem blys, og hún féll ofan á þriðjung fljótanna og á lindir vatnanna.

11 Nafn stjörnunnar er Remma. Þriðjungur vatnanna varð að remmu og margir menn biðu bana af vötnunum, af því að þau voru beisk orðin.

12 Fjórði engillinn básúnaði. Þá varð þriðjungur sólarinnar lostinn og þriðjungur tunglsins og þriðjungur stjarnanna, svo að þriðjungur þeirra yrði myrkur. Og dagurinn missti þriðjung birtu sinnar og nóttin hið sama.

13 Þá sá ég og heyrði örn einn fljúga um háhvolf himins. Hann kallaði hárri röddu: "Vei, vei, vei þeim, sem á jörðu búa, vegna lúðurhljóma englanna þriggja, sem eiga eftir að básúna."