A A A A A
Bible Book List

Sálmarnir 70-73 Icelandic Bible (ICELAND)

70 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.

Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar.

Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.

Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé.

En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"

Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!

71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.

Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.

Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.

Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.

Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.

Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.

Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.

Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.

Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.

10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:

11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."

12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.

13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.

14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.

15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.

16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.

17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.

18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.

19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?

20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.

21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.

22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.

23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.

24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.

72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,

að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.

Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.

Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.

Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.

Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.

Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.

Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.

Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.

10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.

11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.

12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.

13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.

14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.

15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.

16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.

17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.

18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,

19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.

20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.

73 Asafs-sálmur. Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru.

Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,

því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.

Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur.

Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.

Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra, þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn.

Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi.

Þeir spotta og tala af illsku, mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni.

Með munni sínum snerta þeir himininn, en tunga þeirra er tíðförul um jörðina.

10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá og teygar gnóttir vatns.

11 Þeir segja: "Hvernig ætti Guð að vita og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?"

12 Sjá, þessir menn eru guðlausir, og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín.

13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,

14 ég þjáist allan daginn, og á hverjum morgni bíður mín hirting.

15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig, sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna.

16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það, það var erfitt í augum mínum,

17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs og skildi afdrif þeirra:

18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð, þú lætur þá falla í rústir.

19 Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum.

20 Eins og draum er maður vaknar, þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur.

21 Þegar beiskja var í hjarta mínu og kvölin nísti hug minn,

22 þá var ég fáráðlingur og vissi ekkert, var sem skynlaus skepna gagnvart þér.

23 En ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína.

24 Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð.

25 Hvern á ég annars að á himnum? Og hafi ég þig, hirði ég eigi um neitt á jörðu.

26 Þótt hold mitt og hjarta tærist, er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.

27 Því sjá, þeir sem fjarlægjast þig, farast, þú afmáir alla þá, sem eru þér ótrúir.

28 En mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég hefi gjört Drottin að athvarfi mínu og segi frá öllum verkum þínum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes