A A A A A
Bible Book List

Sálmarnir 66-69 Icelandic Bible (ICELAND)

66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,

syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.

Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.

Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]

Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.

Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.

Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]

Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.

Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.

10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.

11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.

12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,

14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.

15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]

16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.

17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.

18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.

19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.

20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.

67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.

Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]

svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.

Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.

68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.

Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.

En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.

Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.

Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.

Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.

Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]

þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.

10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.

11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.

12 Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her:

13 "Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi.

14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli."

15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon.

16 Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall.

17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?

18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.

19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.

20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]

21 Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.

22 Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna, hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni.

23 Drottinn hefir sagt: "Ég vil sækja þá til Basan, flytja þá frá djúpi hafsins,

24 að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum."

25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.

26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.

27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.

28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.

29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss

30 frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir.

31 Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!

32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.

33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, [Sela]

34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.

35 Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum.

36 Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum, Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin. Lofaður sé Guð!

69 Til söngstjórans. Liljulag. Davíðssálmur.

Hjálpa mér, ó Guð, því að vötnin ætla að drekkja mér.

Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju og hefi enga fótfestu, ég er kominn ofan í vatnadjúp og bylgjurnar ganga yfir mig.

Ég hefi æpt mig þreyttan, er orðinn brennandi þurr í kverkunum, augu mín eru döpruð orðin af að þreyja eftir Guði mínum.

Fleiri en hárin á höfði mér eru þeir er hata mig að ástæðulausu, fleiri en bein mín þeir sem án saka eru óvinir mínir. Því sem ég hefi eigi rænt, hefi ég samt orðið að skila aftur.

Þú, Guð, þekkir heimsku mína, og sakir mínar dyljast þér eigi.

Lát eigi þá, er vona á þig, verða til skammar mín vegna, ó Drottinn, Drottinn hersveitanna, lát eigi þá er leita þín, verða til svívirðingar mín vegna, þú Guð Ísraels.

Þín vegna ber ég háðung, þín vegna hylur svívirðing auglit mitt.

Ég er ókunnur orðinn bræðrum mínum og óþekktur sonum móður minnar.

10 Vandlæting vegna húss þíns hefir uppetið mig, og smánanir þeirra er smána þig, hafa lent á mér.

11 Ég hefi þjáð mig með föstu, en það varð mér til háðungar.

12 Ég gjörði hærusekk að klæðnaði mínum, og ég varð þeim að orðskvið.

13 Þeir er sitja í hliðinu, ræða um mig, og þeir er drekka áfengan drykk, syngja um mig.

14 En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar. Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns sakir mikillar miskunnar þinnar.

15 Drag mig upp úr leðjunni, svo að ég sökkvi eigi, lát mig björgun hljóta frá hatursmönnum mínum og úr hafdjúpinu.

16 Lát eigi vatnsbylgjurnar ganga yfir mig, né djúpið svelgja mig, og lát eigi brunninn lykja aftur op sitt yfir mér.

17 Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar, snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar.

18 Hyl eigi auglit þitt fyrir þjóni þínum, því að ég er í nauðum staddur, flýt þér að bænheyra mig.

19 Nálgast sál mína, leys hana, frelsa mig sakir óvina minna.

20 Þú þekkir háðung mína og skömm og svívirðing, allir fjendur mínir standa þér fyrir sjónum.

21 Háðungin kremur hjarta mitt, svo að ég örvænti. Ég vonaði, að einhver mundi sýna meðaumkun, en þar var enginn, og að einhverjir mundu hugga, en fann engan.

22 Þeir fengu mér malurt til matar, og við þorstanum gáfu þeir mér vínsýru að drekka.

23 Svo verði þá borðið fyrir framan þá að snöru, og að gildru fyrir þá sem ugglausir eru.

24 Myrkvist augu þeirra, svo að þeir sjái eigi, og lát lendar þeirra ávallt riða.

25 Hell þú reiði þinni yfir þá og lát þína brennandi gremi ná þeim.

26 Búðir þeirra verði eyddar og enginn búi í tjöldum þeirra,

27 því að þann sem þú hefir lostið, ofsækja þeir og auka þjáningar þeirra er þú hefir gegnumstungið.

28 Bæt sök við sök þeirra og lát þá eigi ganga inn í réttlæti þitt.

29 Verði þeir afmáðir úr bók lifenda og eigi skráðir með réttlátum.

30 En ég er volaður og þjáður, hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér.

31 Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng.

32 Það mun Drottni líka betur en uxar, ungneyti með hornum og klaufum.

33 Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs _ hjörtu yðar lifni við.

34 Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína.

35 Hann skulu lofa himinn og jörð, höfin og allt sem í þeim hrærist.

36 Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda, og menn skulu búa þar og fá landið til eignar.

37 Niðjar þjóna hans munu erfa það, og þeir er elska nafn hans, byggja þar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes