Add parallel Print Page Options

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,

15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.

16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.

17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!

18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.

19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.

20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!

21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.

52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,

þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.

Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!

Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!

Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]

Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!

Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]

Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:

"Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."

10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.

11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.

53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.

54 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð,

þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?

Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.

Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.

Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]

Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.

Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.

Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,

því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.

55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.

Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.

Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn

sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.

Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,

ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,

svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,

já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]

Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."

10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.

11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.

12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.

13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,

14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,

15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.

16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.

17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.

18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.

19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.

20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.

21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.

22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.

23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.

24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.

56 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.

Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.

Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.

Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.

Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?

Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.

Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.

Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.

Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.

10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.

11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.

12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,

14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.

57 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál.

Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.

Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.

Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti.

Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!

Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela]

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.

Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

11 því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.

12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.