Add parallel Print Page Options

50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.

Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.

Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.

Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:

"Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."

Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]

"Heyr, þjóð mín, og lát mig tala, Ísrael, og lát mig áminna þig, ég er Drottinn, Guð þinn!

Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.

Ég þarf ekki að taka uxa úr húsi þínu né geithafra úr stíu þinni,

10 því að mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.

11 Ég þekki alla fugla á fjöllunum, og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.

12 Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því, því að jörðin er mín og allt sem á henni er.

13 Et ég nauta kjöt, eða drekk ég hafra blóð?

14 Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.

15 Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig."

16 En við hinn óguðlega segir Guð: "Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn,

17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér?

18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.

19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik.

20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar.

21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.

22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.

23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."

53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.

60 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu,

þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.

Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss.

Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.

Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín.

Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]

Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.

75 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð.

Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig, og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum.

"Þegar mér þykir tími til kominn, dæmi ég réttvíslega.

Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela]

Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka! og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin!

Hefjið eigi hornin gegn himninum, mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!"

Því að hvorki frá austri né vestri né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn,

heldur er Guð sá sem dæmir, hann niðurlægir annan og upphefur hinn.

Því að bikar er í hendi Drottins með freyðandi víni, fullur af kryddi. Af því skenkir hann, já, dreggjar þess súpa og sötra allir óguðlegir menn á jörðu.

10 En ég vil fagna að eilífu, lofsyngja Jakobs Guði.

11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin, en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.