Add parallel Print Page Options

46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.

Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.

Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.

Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]

Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.

Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.

Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.

Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.

10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.

11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."

12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.

Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.

Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.

Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]

Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.

Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!

Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!

Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.

10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.

48 Ljóð. Kóraítasálmur.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.

Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.

Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.

Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.

Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.

Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.

Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.

Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]

10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.

11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.

12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.

13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.

14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,

15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.

49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,

bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!

Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.

Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.

Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,

þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.

Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.

Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,

10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.

11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.

12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.

13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.

14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]

15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.

16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]

17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,

18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.

19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."

20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.

21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.

50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.

Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.

Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.

Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:

"Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."

Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]

"Heyr, þjóð mín, og lát mig tala, Ísrael, og lát mig áminna þig, ég er Drottinn, Guð þinn!

Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.

Ég þarf ekki að taka uxa úr húsi þínu né geithafra úr stíu þinni,

10 því að mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.

11 Ég þekki alla fugla á fjöllunum, og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.

12 Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því, því að jörðin er mín og allt sem á henni er.

13 Et ég nauta kjöt, eða drekk ég hafra blóð?

14 Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.

15 Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig."

16 En við hinn óguðlega segir Guð: "Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn,

17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér?

18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.

19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik.

20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar.

21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.

22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.

23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."