Add parallel Print Page Options

25 Davíðssálmur.

Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.

Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.

Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.

Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.

Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.

Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.

Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.

Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.

10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.

11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.

12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.

13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.

14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.

15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.

16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.

17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.

18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.

19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.

20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.

21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.

22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.

29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.

Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.

Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.

Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.

Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.

Raust Drottins klýfur eldsloga.

Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.

Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!

10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.

11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.

33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.

Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.

Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.

Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.

Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.

Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.

Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.

Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,

því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.

10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,

11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.

12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.

13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,

14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,

15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.

16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.

17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.

18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.

19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.

20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.

21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.

22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.

36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.

Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.

Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.

Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.

Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.

Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.

Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.

Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.

Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.

10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.

11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.

12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.

13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.

39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.

Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."

Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.

Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:

"Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.

Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."

Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.

Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.

10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.

11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.

12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.

14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.