Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

24 Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa.

Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum.

_ Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað?

_ Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið.

Hann mun blessun hljóta frá Drottni og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.

_ Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins, stundar eftir augliti þínu, þú Jakobs Guð. [Sela] _________

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

_ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan.

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

10 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]

25 Davíðssálmur.

Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.

Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.

Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.

Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.

Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.

Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.

Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.

Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.

10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.

11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.

12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.

13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.

14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.

15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.

16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.

17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.

18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.

19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.

20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.

21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.

22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.

18 Næsta dag gekk Páll með oss til Jakobs, og allir öldungarnir komu þangað.

19 Páll heilsaði þeim og lýsti síðan nákvæmlega öllu, sem Guð hafði gjört meðal heiðingjanna með þjónustu hans.

20 Þeir vegsömuðu Guð fyrir það, sem þeir heyrðu, og sögðu við hann: "Þú sérð, bróðir hve margir tugir þúsunda það eru meðal Gyðinga, sem trú hafa tekið, og allir eru þeir vandlátir um lögmálið.

21 En þeim hefur verið sagt, að þú kennir öllum Gyðingum, sem eru meðal heiðingja, að hverfa frá Móse og segir, að þeir skuli hvorki umskera börn sín né fylgja siðum vorum.

22 Hvað á nú að gjöra? Víst mun það spyrjast, að þú ert kominn.

23 Gjör því þetta, sem vér nú segjum þér. Hjá oss eru fjórir menn, sem heit hvílir á.

24 Tak þá með þér, lát hreinsast með þeim og ber kostnaðinn fyrir þá, að þeir geti látið raka höfuð sín. Þá mega allir sjá, að ekkert er hæft í því, sem þeim hefur verið sagt um þig, heldur gætir þú lögmálsins sjálfur í breytni þinni.

25 En um heiðingja, sem trú hafa tekið, höfum vér gefið út bréf og ályktað, að þeir skuli varast kjöt fórnað skurðgoðum, blóð, kjöt af köfnuðum dýrum og saurlifnað."

26 Páll tók að sér mennina og lét hreinsast með þeim daginn eftir. Síðan gekk hann inn í helgidóminn og gjörði kunnugt, hvenær hreinsunardagarnir væru á enda og fórnin fyrir hvern þeirra skyldi fram borin.

27 Þegar dagarnir sjö voru nær liðnir, sáu Gyðingar frá Asíu Pál í helgidóminum. Þeir komu öllu fólkinu í uppnám, lögðu hendur á hann

28 og hrópuðu: "Ísraelsmenn, veitið nú lið. Þetta er maðurinn, sem alls staðar kennir öllum það, sem er andstætt lýðnum, lögmálinu og þessum stað. Og nú hefur hann auk heldur farið með Grikki inn í helgidóminn og saurgað þennan heilaga stað."

29 En þeir höfðu áður séð Trófímus frá Efesus með honum í borginni og hugðu, að Páll hefði farið með hann inn í helgidóminn.

30 Öll borgin varð uppvæg, fólk þusti að, þeir tóku Pál og drógu hann út úr helgidóminum. Jafnskjótt var dyrunum læst.

31 Þeir ætluðu að lífláta hann, en hersveitarforingjanum var tjáð, að öll Jerúsalem væri í uppnámi.

32 Hann brá við og tók með sér hermenn og hundraðshöfðingja og hljóp niður til þeirra. Þegar þeir sáu hersveitarforingjann og hermennina, hættu þeir að berja Pál.

33 Hersveitarforinginn kom þá að, tók hann og skipaði að binda hann tvennum fjötrum og spurði, hver hann væri og hvað hann hefði gjört.

34 En sitt kallaði hver í mannfjöldanum. Þegar hann gat ekki orðið neins vísari sökum óróans, bauð hann að fara með hann upp í kastalann.

35 Þegar komið var að þrepunum, urðu hermennirnir að bera hann vegna ofsans í fólkinu,

36 en múgur manns fylgdi eftir og æpti: "Burt með hann!"

37 Um leið og fara átti með Pál inn í kastalann, segir hann við hersveitarforingjann: "Leyfist mér að tala nokkur orð við þig?" Hann svaraði: "Kannt þú grísku?

38 Ekki ert þú þá Egyptinn, sem æsti til uppreisnar á dögunum og fór með morðvargana fjögur þúsund út í óbyggðir."

39 Páll sagði: "Ég er Gyðingur, frá Tarsus í Kilikíu, borgari í ekki ómerkum bæ. Ég bið þig, leyf mér að tala til fólksins."

40 Hann leyfði það. Páll bandaði hendi til fólksins, þar sem hann stóð á þrepunum. Þegar hann hafði fengið gott hljóð, mælti hann til þeirra á hebreska tungu:

Read full chapter