A A A A A
Bible Book List

Sálmarnir 21-25 Icelandic Bible (ICELAND)

21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!

Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]

Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.

Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.

Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.

Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.

Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.

Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.

10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.

11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,

12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.

13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.

14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!

22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.

"Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.

Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.

Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,

til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.

En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.

Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.

"Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"

10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.

11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.

12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.

13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.

14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.

15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;

16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.

17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.

18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,

19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.

20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,

21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.

22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!

23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!

24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!

25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.

26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.

27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.

28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.

30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,

31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,

32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.

23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

24 Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa.

Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum.

_ Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað?

_ Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið.

Hann mun blessun hljóta frá Drottni og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.

_ Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins, stundar eftir augliti þínu, þú Jakobs Guð. [Sela] _________

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

_ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan.

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

10 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]

25 Davíðssálmur.

Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.

Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.

Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.

Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.

Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.

Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.

Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.

Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.

10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.

11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.

12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.

13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.

14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.

15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.

16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.

17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.

18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.

19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.

20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.

21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.

22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes