A A A A A
Bible Book List

Sálmarnir 135-136 Icelandic Bible (ICELAND)

135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,

er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.

Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.

Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.

Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.

Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.

Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.

Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,

sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.

10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:

11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,

12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.

13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,

14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.

15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.

16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.

18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.

19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!

20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!

21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.

136 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu,

sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu,

tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu,

10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu,

12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu,

13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu,

14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu,

15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu,

16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu,

17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,

18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,

19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu,

20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu,

21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu,

22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu,

23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu,

24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu,

25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu.

26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Fyrra bréf Páls til Korin 12 Icelandic Bible (ICELAND)

12 En svo ég minnist á gáfur andans, bræður, þá vil ég ekki að þér séuð fáfróðir um þær.

Þér vitið, að þegar þér voruð heiðingjar, þá létuð þér leiða yður til mállausra skurðgoðanna, rétt eins og verkast vildi.

Fyrir því læt ég yður vita, að enginn, sem talar af Guðs anda, segir: "Bölvaður sé Jesús!" og enginn getur sagt: "Jesús er Drottinn!" nema af heilögum anda.

Mismunur er á náðargáfum, en andinn er hinn sami,

og mismunur er á embættum, en Drottinn hinn sami,

og mismunur er á hæfileikum að framkvæma, en Guð hinn sami, sem öllu kemur til leiðar í öllum.

Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er.

Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda.

Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu

10 og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal.

11 En öllu þessu kemur til leiðar eini og sami andinn, og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni.

12 Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur.

13 Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.

14 Því að líkaminn er ekki einn limur, heldur margir.

15 Ef fóturinn segði: "Fyrst ég er ekki hönd, heyri ég ekki líkamanum til," þá er hann ekki fyrir það líkamanum óháður.

16 Og ef eyrað segði: "Fyrst ég er ekki auga, heyri ég ekki líkamanum til," þá er það ekki þar fyrir líkamanum óháð.

17 Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin?

18 En nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist.

19 Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn?

20 En nú eru limirnir margir, en líkaminn einn.

21 Augað getur ekki sagt við höndina: "Ég þarfnast þín ekki!" né heldur höfuðið við fæturna: "Ég þarfnast ykkar ekki!"

22 Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi.

23 Og þeim, sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum vér því meiri sæmd, og þeim, sem vér blygðumst vor fyrir, sýnum vér því meiri blygðunarsemi.

24 Þess þarfnast hinir ásjálegu limir vorir ekki. En Guð setti líkamann svo saman, að hann gaf þeim, sem síðri var, því meiri sæmd,

25 til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.

26 Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum.

27 Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig.

28 Guð hefur sett nokkra í kirkjunni, fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, sumum hefur hann veitt gáfu að gjöra kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum.

29 Hvort eru allir postular? Hvort eru allir spámenn? Hvort eru allir fræðarar? Hvort eru allir kraftaverkamenn?

30 Hvort hafa allir hlotið lækningagáfu? Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir tungutal?

31 Nei, sækist heldur eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég yður á enn þá miklu ágætari leið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes