Add parallel Print Page Options

108 Ljóð. Davíðssálmur.

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!

Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,

til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.

109 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður,

því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér, tala við mig með ljúgandi tungu.

Með hatursorðum umkringja þeir mig og áreita mig að ástæðulausu.

Þeir launa mér elsku mína með ofsókn, en ég gjöri ekki annað en biðja.

Þeir launa mér gott með illu og elsku mína með hatri.

Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn, og ákærandinn standi honum til hægri handar.

Hann gangi sekur frá dómi og bæn hans verði til syndar.

Dagar hans verði fáir, og annar hljóti embætti hans.

Börn hans verði föðurlaus og kona hans ekkja.

10 Börn hans fari á flæking og vergang, þau verði rekin burt úr rústum sínum.

11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans, og útlendir fjandmenn ræni afla hans.

12 Enginn sýni honum líkn, og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans.

13 Niðjar hans verði afmáðir, nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.

14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni og synd móður hans eigi afmáð,

15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins og hann afmái minningu þeirra af jörðunni

16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku, heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða og hinn ráðþrota til þess að drepa hann.

17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum, hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum.

18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli, hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn og í bein hans sem olía,

19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig, og sem belti, er hann sífellt gyrðist.

20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni og þeirra, er tala illt í gegn mér.

21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar, frelsa mig sakir nafns þíns,

22 því að ég er hrjáður og snauður, hjartað berst ákaft í brjósti mér.

23 Ég hverf sem hallur skuggi, ég er hristur út eins og jarðvargar.

24 Kné mín skjögra af föstu, og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti.

25 Ég er orðinn þeim að spotti, þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið.

26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni,

27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd, að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.

28 Bölvi þeir, þú munt blessa, verði þeir til skammar, er rísa gegn mér, en þjónn þinn gleðjist.

29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing, sveipi um sig skömminni eins og skikkju.

30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum, meðal fjölmennis vil ég vegsama hann,

31 því að hann stendur hinum snauða til hægri handar til þess að hjálpa honum gegn þeim er sakfella hann.

110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."

Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!

Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.

Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."

Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.

Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.

Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.

111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.

Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.

Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.

Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.

Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.

Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,

örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.

Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.

10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.

112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.

Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.

Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.

Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,

því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.

Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.

Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.

Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.

10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.

113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.

Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.

Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.

Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt

og horfir djúpt á himni og á jörðu.

Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum

og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.

Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.

114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,

varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.

Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.

Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.

Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,

þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?

Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,

hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.