Add parallel Print Page Options

107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum

og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.

Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,

þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.

Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra

og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.

Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum.

10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu, bundnir eymd og járnum,

11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta,

12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim.

13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,

14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni og braut sundur fjötra þeirra.

15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

16 því að hann braut eirhliðin og mölvaði járnslárnar.

17 Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni og vegna misgjörða sinna voru þjáðir,

18 þeim bauð við hverri fæðu og voru komnir nálægt hliðum dauðans.

19 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,

20 hann sendi út orð sitt og læknaði þá og bjargaði þeim frá gröfinni.

21 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

22 og færa þakkarfórnir og kunngjöra verk hans með fögnuði.

23 Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum,

24 þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu.

25 Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess.

26 Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni.

27 Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin.

28 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra.

29 Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar.

30 Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu.

31 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

32 vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna.

33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum,

34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna.

35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum

36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg,

37 sá akra og planta víngarða og afla afurða.

38 Og hann blessar þá, svo að þeir margfaldast stórum og fénað þeirra lætur hann eigi fækka.

39 Og þótt þeir fækki og hnígi niður sakir þrengingar af böli og harmi,

40 þá hellir hann fyrirlitning yfir tignarmenn og lætur þá villast um veglaus öræfi,

41 en bjargar aumingjanum úr eymdinni og gjörir ættirnar sem hjarðir.

42 Hinir réttvísu sjá það og gleðjast, og öll illska lokar munni sínum.

43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu, og menn taki eftir náðarverkum Drottins.

108 Ljóð. Davíðssálmur.

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!

Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,

til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.

109 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður,

því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér, tala við mig með ljúgandi tungu.

Með hatursorðum umkringja þeir mig og áreita mig að ástæðulausu.

Þeir launa mér elsku mína með ofsókn, en ég gjöri ekki annað en biðja.

Þeir launa mér gott með illu og elsku mína með hatri.

Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn, og ákærandinn standi honum til hægri handar.

Hann gangi sekur frá dómi og bæn hans verði til syndar.

Dagar hans verði fáir, og annar hljóti embætti hans.

Börn hans verði föðurlaus og kona hans ekkja.

10 Börn hans fari á flæking og vergang, þau verði rekin burt úr rústum sínum.

11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans, og útlendir fjandmenn ræni afla hans.

12 Enginn sýni honum líkn, og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans.

13 Niðjar hans verði afmáðir, nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.

14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni og synd móður hans eigi afmáð,

15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins og hann afmái minningu þeirra af jörðunni

16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku, heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða og hinn ráðþrota til þess að drepa hann.

17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum, hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum.

18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli, hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn og í bein hans sem olía,

19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig, og sem belti, er hann sífellt gyrðist.

20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni og þeirra, er tala illt í gegn mér.

21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar, frelsa mig sakir nafns þíns,

22 því að ég er hrjáður og snauður, hjartað berst ákaft í brjósti mér.

23 Ég hverf sem hallur skuggi, ég er hristur út eins og jarðvargar.

24 Kné mín skjögra af föstu, og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti.

25 Ég er orðinn þeim að spotti, þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið.

26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni,

27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd, að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.

28 Bölvi þeir, þú munt blessa, verði þeir til skammar, er rísa gegn mér, en þjónn þinn gleðjist.

29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing, sveipi um sig skömminni eins og skikkju.

30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum, meðal fjölmennis vil ég vegsama hann,

31 því að hann stendur hinum snauða til hægri handar til þess að hjálpa honum gegn þeim er sakfella hann.

Þannig líti menn á oss svo sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.

Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr.

En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af yður eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur.

Ég er mér ekki neins ills meðvitandi, en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig.

Dæmið því ekki fyrir tímann, áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós, sem í myrkrinu er hulið, og opinbera ráð hjartnanna. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði, sem hann á skilið.

En þetta hef ég yðar vegna, bræður, heimfært til sjálfs mín og Apollóss, til þess að þér af okkar dæmi mættuð læra regluna: "Farið ekki lengra en ritað er," _ og til þess að enginn yðar hroki sér upp einum í vil, öðrum til niðrunar.

Því að hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?

Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður!

Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.

10 Vér erum heimskir sökum Krists, en þér vitrir fyrir samfélag yðar við Krist! Vér erum veikir, en þér sterkir, þér eruð í hávegum hafðir, en vér óvirtir.

11 Allt til þessarar stundar þolum vér hungur, þorsta og klæðleysi, oss er misþyrmt, vér höfum engan samastað,

12 og vér stöndum í erfiði og verðum að vinna með eigin höndum.

13 Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér. Vér erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa.

14 Ekki rita ég þetta til þess að gjöra yður kinnroða, heldur til að áminna yður eins og elskuleg börn mín.

15 Enda þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður. Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið.

16 Ég bið yður: Verið eftirbreytendur mínir.

17 Þess vegna sendi ég Tímóteus til yðar, sem er elskað og trútt barn mitt í Drottni. Hann mun minna yður á vegu mína í Kristi, eins og ég kenni alls staðar í hverjum söfnuði.

18 En nokkrir hafa gjörst hrokafullir, rétt eins og ég ætlaði ekki að koma til yðar,

19 en ég mun brátt koma til yðar, ef Drottinn vill, og mun ég þá kynna mér, ekki orð hinna stærilátu, heldur kraft þeirra.

20 Því að Guðs ríki er ekki fólgið í orðum, heldur í krafti.

21 Hvað viljið þér? Á ég að koma til yðar með hirtingarvönd eða í kærleika og hógværðar anda?