A A A A A
Bible Book List

Sálmarnir 103-105 Icelandic Bible (ICELAND)

103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,

lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,

leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.

Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.

Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.

Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.

10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,

11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.

12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.

14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.

15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,

16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.

17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,

18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.

19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.

20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.

21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.

22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.

104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.

Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.

Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.

Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.

Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.

Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,

en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.

Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.

Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.

10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,

11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.

12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.

13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.

14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni

15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.

16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett

17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.

18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.

19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.

20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.

21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.

22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,

23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.

24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.

25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.

26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.

27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.

29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.

30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,

32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.

33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.

35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.

105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!

Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.

Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.

Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.

Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,

þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.

Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.

Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,

sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,

10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,

11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.

12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,

13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.

14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.

15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."

16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,

17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.

18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,

19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.

20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.

21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,

22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.

23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.

24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.

25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.

26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,

27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.

28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,

29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,

30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,

31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,

32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,

33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,

34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,

35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,

36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.

37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.

38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.

39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.

40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.

41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.

42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn

43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.

44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,

45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes