A A A A A
Bible Book List

Sálmarnir 1-8 Icelandic Bible (ICELAND)

Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,

heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.

Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.

Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.

Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.

Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?

Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:

"Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."

Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.

Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:

"Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."

Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.

Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.

Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."

10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.

11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.

12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,

13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.

Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.

Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.

Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]

En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.

Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]

Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.

Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.

Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.

Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]

Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.

Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína.

Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]

Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.

Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela]

Færið réttar fórnir og treystið Drottni.

Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?" Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.

Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.

Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.

Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.

Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.

Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.

Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.

Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.

Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.

Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.

En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.

Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér.

10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir.

11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.

12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér.

13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.

Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.

Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?

Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?

Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.

Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.

Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.

10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.

11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.

Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.

Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,

svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.

Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,

hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,

þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]

Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.

Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.

Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.

10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!

11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.

12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.

13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,

14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.

15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.

16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.

17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.

18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.

Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.

Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.

Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,

hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?

Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:

sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,

fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.

10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes