Add parallel Print Page Options

Heyrið, synir, áminning föður yðar og hlýðið til, svo að þér lærið hyggindi!

Því að góðan lærdóm gef ég yður, hafnið eigi kenning minni!

Þegar ég var sonur í föðurhúsum, viðkvæmt einkabarn heima hjá móður minni,

þá kenndi faðir minn mér og sagði við mig: "Hjarta þitt haldi fast orðum mínum, varðveit þú boðorð mín, og muntu lifa!

Afla þér visku, afla þér hygginda! Gleym eigi og vík eigi frá orðum munns míns!

Hafna henni eigi, þá mun hún varðveita þig, elska hana, þá mun hún vernda þig.

Upphaf viskunnar er: afla þér visku, afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar!

Haf hana í hávegum, þá mun hún hefja þig, hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana.

Hún mun setja yndislegan sveig á höfuð þér, sæma þig prýðilegri kórónu."

10 Heyr þú, son minn, og veit viðtöku orðum mínum, þá munu æviár þín mörg verða.

11 Ég vísa þér veg spekinnar, leiði þig á brautir ráðvendninnar.

12 Gangir þú þær, skal leið þín ekki verða þröng, og hlaupir þú, skalt þú ekki hrasa.

13 Haltu fast í agann, slepptu honum ekki, varðveittu hann, því að hann er líf þitt.

14 Kom þú eigi á götu óguðlegra og gakk eigi á vegi vondra manna.

15 Sneið hjá honum, farðu hann ekki, snú þú frá honum og farðu fram hjá.

16 Því að þeir geta ekki sofið, nema þeir hafi gjört illt, og þeim kemur ekki dúr á auga, nema þeir hafi fellt einhvern.

17 Því að þeir eta glæpabrauð og drekka ofbeldisvín.

18 Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.

19 Vegur óguðlegra er eins og niðamyrkur, þeir vita ekki, um hvað þeir hrasa.

20 Son minn, gef gaum að ræðu minni, hneig eyra þitt að orðum mínum.

21 Lát þau eigi víkja frá augum þínum, varðveit þau innst í hjarta þínu.

22 Því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau, og lækning fyrir allan líkama þeirra.

23 Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.

24 Haltu fláræði munnsins burt frá þér og lát fals varanna vera fjarri þér.

25 Augu þín líti beint fram og augnalok þín horfi beint fram undan þér.

26 Gjör braut fóta þinna slétta, og allir vegir þínir séu staðfastir.

27 Vík hvorki til hægri né vinstri, haltu fæti þínum burt frá illu.

Son minn, gef gaum að speki minni, hneig eyra þitt að hyggindum mínum,

til þess að þú megir varðveita mannvit og varir þínar geymi þekkingu.

Því að hunangsseimur drýpur af vörum lauslátrar konu, og gómur hennar er hálli en olía.

En að síðustu er hún beiskari en malurt, beitt eins og tvíeggjað sverð.

Fætur hennar ganga niður til dauðans, spor hennar liggja til Heljar.

Til þess að hún hitti ekki leið lífsins, eru brautir hennar á reiki, og hún veit ekki hvert hún fer.

Heyrið mig því, synir, og víkið eigi frá orðum munns míns.

Legg leið þína langt frá henni og kom þú ekki nálægt húsdyrum hennar,

svo að þú gefir ekki öðrum æskublóma þinn og ár þín grimmum manni,

10 svo að útlendir menn mettist ekki af eigum þínum og aflafé þitt lendi ekki í annarlegu húsi,

11 og þú andvarpir að lokum, þá er líkami þinn og hold veslast upp,

12 og segir: "Hversu hefi ég hatað aga og hjarta mitt fyrirlitið umvöndun!

13 að ég skyldi ekki hlýða raustu kennara minna og hneigja eyra mitt til þeirra, er fræddu mig!

14 Við sjálft lá, að ég hefði ratað í mestu ógæfu á miðju dómþingi safnaðarins."

15 Drekk þú vatn úr vatnsþró þinni og rennandi vatn úr brunni þínum.

16 Eiga lindir þínar að flóa út á götuna, lækir þínir út á torgin?

17 Þér einum skulu þær tilheyra og engum óviðkomandi með þér.

18 Uppspretta þín sé blessuð, og gleð þig yfir festarmey æsku þinnar,

19 elsku-hindinni, yndis-gemsunni. Brjóst hennar gjöri þig ætíð drukkinn, og ást hennar fjötri þig ævinlega.

20 En hví skyldir þú, son minn, láta léttúðarkonu töfra þig, og faðma barm lauslátrar konu?

21 Því að vegir sérhvers manns blasa við Drottni, og allar brautir hans gjörir hann sléttar.

22 Misgjörðir hins óguðlega fanga hann, og hann verður veiddur í snörur synda sinna.

23 Hann mun deyja vegna skorts á aga og kollsteypast vegna sinnar miklu heimsku.

Son minn, hafir þú gengið í ábyrgð fyrir náunga þinn, hafir þú gengið til handsala fyrir annan mann,

hafir þú ánetjað þig með orðum munns þíns, látið veiðast með orðum munns þíns,

þá gjör þetta, son minn, til að losa þig _ því að þú ert kominn á vald náunga þíns _ far þú, varpa þér niður og legg að náunga þínum.

Lát þér eigi koma dúr á auga, né blund á brá.

Losa þig eins og skógargeit úr höndum hans, eins og fugl úr höndum fuglarans.

Far þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn.

Þótt hann hafi engan höfðingja, engan yfirboðara eða valdsherra,

þá aflar hann sér samt vista á sumrin og dregur saman fæðu sína um uppskerutímann.

Hversu lengi ætlar þú, letingi, að hvílast? hvenær ætlar þú að rísa af svefni?

10 Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast!

11 Þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður.

12 Varmenni, illmenni er sá, sem gengur um með fláttskap í munni,

13 sem deplar augunum, gefur merki með fótunum, bendir með fingrunum,

14 elur fláræði í hjarta sínu, upphugsar ávallt illt, kveikir illdeilur.

15 Fyrir því mun ógæfa skyndilega yfir hann koma, snögglega mun hann sundurmolast og engin lækning fást.

16 Sex hluti hatar Drottinn og sjö eru sálu hans andstyggð:

17 drembileg augu, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði,

18 hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka,

19 ljúgvottur sem lygar mælir, og sá er kveikir illdeilur meðal bræðra.

20 Varðveit þú, son minn, boðorð föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar.

21 Fest þau á hjarta þitt stöðuglega, bind þau um háls þinn.

22 Þegar þú ert á gangi, þá leiði þau þig, þegar þú hvílist, vaki þau yfir þér, og þegar þú vaknar, þá ræði þau við þig.

23 Því að boðorð er lampi og viðvörun ljós og agandi áminningar leið til lífsins,

24 með því að þær varðveita þig fyrir vondri konu, fyrir hálli tungu hinnar lauslátu.

25 Girnst eigi fríðleik hennar í hjarta þínu og lát hana eigi töfra þig með augnahárum sínum.

26 Því að skækja fæst fyrir einn brauðhleif, og hórkona sækist eftir dýru lífi.

27 Getur nokkur borið svo eld í barmi sínum, að föt hans sviðni ekki?

28 Eða getur nokkur gengið á glóðum án þess að brenna sig á fótunum?

29 Svo fer þeim, sem hefir mök við konu náunga síns, enginn sá kemst klakklaust af, sem hana snertir.

30 Fyrirlíta menn eigi þjófinn, þó að hann steli til þess að seðja hungur sitt?

31 Og náist hann, verður hann að borga sjöfalt, verður að láta allar eigur húss síns.

32 En sá sem drýgir hór með giftri konu, er vitstola, sá einn gjörir slíkt, er tortíma vill sjálfum sér.

33 Högg og smán mun hann hljóta, og skömm hans mun aldrei afmáð verða.

34 Því að afbrýði er karlmanns-reiði, og hann hlífir ekki á hefndarinnar degi.

35 Hann lítur ekki við neinum bótum og friðast eigi, þótt þú ryðjir í hann gjöfum.