A A A A A
Bible Book List

Orðskviðirnir 30-31 Icelandic Bible (ICELAND)

30 Orð Agúrs Jakesonar. Guðmælið. Maðurinn segir: Ég hefi streitst, ó Guð, ég hefi streitst, ó Guð, og er að þrotum kominn.

Því að ég er of heimskur til að geta talist maður, og ég hefi eigi mannsvit,

ég hefi eigi lært speki, svo að ég hafi þekking á Hinum heilaga.

Hver hefir stigið upp til himna og komið niður? Hver hefir safnað vindinum í greipar sínar? Hver hefir bundið vatnið í skikkju sína? Hver hefir reist öll endimörk jarðar? Hvað heitir hann og hvað heitir sonur hans _ fyrst þú veist það?

Sérhvert orð Guðs er hreint, hann er skjöldur þeim, er leita hælis hjá honum.

Bæt engu við orð hans, til þess að hann ávíti þig eigi og þú standir sem lygari.

Um tvennt bið ég þig, synja mér þess eigi, áður en ég dey:

Lát fals og lygaorð vera fjarri mér, gef mér hvorki fátækt né auðæfi, en veit mér minn deildan verð.

Ég kynni annars að verða of saddur og afneita og segja: "Hver er Drottinn?" eða ef ég yrði fátækur, kynni ég að stela og misbjóða nafni Guðs míns.

10 Ræg eigi þjóninn við húsbónda hans, svo að hann biðji þér ekki óbæna og þú verðir að gjalda.

11 Til er það kyn, sem bölvar föður sínum og blessar ekki móður sína,

12 kyn, sem þykist vera hreint og hefir þó eigi þvegið af sér saurinn

13 kyn, sem lyftir hátt augunum og sperrir upp augnahárin,

14 kyn, sem hefir sverð að tönnum og hnífa að jöxlum til þess að uppeta hina voluðu úr landinu og hina fátæku burt frá mönnunum.

15 Blóðsugan á tvær dætur, sem heita Gefðu! Gefðu! Þrennt er til, sem er óseðjandi, fernt, sem aldrei segir: "Það er nóg!" _

16 Helja og móðurlíf óbyrjunnar, jörðin, sem aldrei seðst af vatni, og eldurinn, sem aldrei segir: "Það er nóg!"

17 Það auga, sem gjörir gys að föður sínum og fyrirlítur hlýðni við móður sína, mega hrafnarnir við lækinn kroppa út og arnarungarnir eta.

18 Þrennt er, sem mér virðist undursamlegt, og fernt, sem ég skil eigi:

19 vegur arnarins um loftið, vegur höggormsins yfir klettinn, vegur skipsins um reginhaf og vegur manns hjá konu.

20 Þannig er atferli hórkonunnar: Hún neytir, þurrkar sér um munninn og segir: "Ég hefi ekkert rangt gjört."

21 Undan þrennu nötrar jörðin, og undir fernu getur hún ekki risið:

22 undir þræli, þegar hann verður konungur, og guðlausum manni, þegar hann mettast brauði,

23 undir smáðri konu, þegar hún giftist, og þernu, þegar hún bolar burt húsmóður sinni.

24 Fjórir eru smáir á jörðinni, og þó eru þeir vitrir spekingar:

25 Maurarnir eru kraftlítil þjóð, og þó afla þeir sér fæðunnar á sumrin.

26 Stökkhérarnir eru þróttlítil þjóð, og þó gjöra þeir sér híbýli í klettunum.

27 Engispretturnar hafa engan konung, og þó fer allur hópurinn út í röð og reglu.

28 Ferfætlunni getur þú náð með tómum höndunum, og þó er hún í konungahöllum.

29 Þrír eru þeir, sem tigulegir eru á velli, og fjórir, sem tigulegir eru í gangi:

30 ljónið, hetjan meðal dýranna, er eigi hopar fyrir neinni skepnu,

31 lendgyrtur hesturinn og geithafurinn og konungur, er enginn fær móti staðið.

32 Hafir þú heimskast til að upphefja sjálfan þig, eða hafir þú gjört það af ásettu ráði, þá legg höndina á munninn!

33 Því að þrýstingur á mjólk framleiðir smjör, og þrýstingur á nasir framleiðir blóð, og þrýstingur á reiði framleiðir deilu.

31 Orð Lemúels konungs í Massa, er móðir hans kenndi honum.

Hvað á ég að segja þér, sonur minn? og hvað, sonur kviðar míns? og hvað, sonur áheita minna?

Gef ekki konum kraft þinn, né ástarhót þín þeim er spilla konungum.

Ekki sæmir konungum, Lemúel, ekki sæmir konungum að drekka vín, né höfðingjum áfengur drykkur.

Þeir kynnu að drekka og gleyma lögunum og rangfæra málefni allra aumra manna.

Gefið áfengan drykk þeim, sem kominn er í örþrot, og vín þeim, sem sorgbitnir eru.

Drekki hann og gleymi fátækt sinni og minnist ekki framar mæðu sinnar.

Ljúk þú upp munni þínum fyrir hinn mállausa, fyrir málefni allra þeirra manna, sem eru að örmagnast.

Ljúk þú upp munni þínum, dæm með réttvísi og rétt þú hlut hinna voluðu og snauðu.

10 Væna konu, hver hlýtur hana? hún er miklu meira virði en perlur.

11 Hjarta manns hennar treystir henni, og ekki vantar að honum fénist.

12 Hún gjörir honum gott og ekkert illt alla ævidaga sína.

13 Hún sér um ull og hör og vinnur fúslega með höndum sínum.

14 Hún er eins og kaupförin, sækir björgina langt að.

15 Hún fer á fætur fyrir dag, skammtar heimilisfólki sínu og segir þernum sínum fyrir verkum.

16 Hún hefir augastað á akri og kaupir hann, af ávexti handa sinna plantar hún víngarð.

17 Hún gyrðir lendar sínar krafti og tekur sterklega til armleggjunum.

18 Hún finnur, að atvinna hennar er arðsöm, á lampa hennar slokknar eigi um nætur.

19 Hún réttir út hendurnar eftir rokknum, og fingur hennar grípa snælduna.

20 Hún breiðir út lófann móti hinum bágstadda og réttir út hendurnar móti hinum snauða.

21 Hún er ekki hrædd um heimilisfólk sitt, þótt snjói, því að allt heimilisfólk hennar er klætt skarlati.

22 Hún býr sér til ábreiður, klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura.

23 Maður hennar er mikils metinn í borgarhliðunum, þá er hann situr með öldungum landsins.

24 Hún býr til skyrtur og selur þær, og kaupmanninum fær hún belti.

25 Kraftur og tign er klæðnaður hennar, og hún hlær að komandi degi.

26 Hún opnar munninn með speki, og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar.

27 Hún vakir yfir því, sem fram fer á heimili hennar, og etur ekki letinnar brauð.

28 Synir hennar ganga fram og segja hana sæla, maður hennar gengur fram og hrósar henni:

29 "Margar konur hafa sýnt dugnað, en þú tekur þeim öllum fram!"

30 Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull, en sú kona, sem óttast Drottin, á hrós skilið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes