A A A A A
Bible Book List

Orðskviðirnir 3-5 Icelandic Bible (ICELAND)

Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín,

því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli.

Kærleiki og trúfesti munu aldrei yfirgefa þig. Bind þau um háls þér, rita þau á spjald hjarta þíns,

þá munt þú ávinna þér hylli og fögur hyggindi, bæði í augum Guðs og manna.

Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.

Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.

Þú skalt ekki þykjast vitur, óttast Drottin og forðast illt,

það mun verða heilnæmt fyrir líkama þinn og hressandi fyrir bein þín.

Tigna Drottin með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar,

10 þá munu hlöður þínar verða nægtafullar og vínberjalögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum.

11 Son minn, lítilsvirð eigi ögun Drottins og lát þér eigi gremjast umvöndun hans,

12 því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og lætur þann son kenna til, sem hann hefir mætur á.

13 Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki, sá maður, sem hyggindi hlotnast.

14 Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs, og arðurinn af henni ágætari en gull.

15 Hún er dýrmætari en perlur, og allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana.

16 Langir lífdagar eru í hægri hendi hennar, auður og mannvirðingar í vinstri hendi hennar.

17 Vegir hennar eru yndislegir vegir og allar götur hennar velgengni.

18 Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.

19 Drottinn grundvallaði jörðina með visku, festi himininn af hyggjuviti.

20 Fyrir þekking hans mynduðust hafdjúpin og drýpur döggin úr skýjunum.

21 Son minn, varðveit þú visku og gætni, lát þær eigi víkja frá augum þínum,

22 þá munu þær verða líf sálu þinni og prýði fyrir háls þinn.

23 Þá muntu ganga óhultur veg þinn og eigi drepa við fæti.

24 Þegar þú leggst til hvíldar, þarft þú ekki að hræðast, og hvílist þú, mun svefninn verða vær.

25 Þú þarft ekki að óttast skyndilega hræðslu, né eyðilegging hinna óguðlegu, þegar hún dynur yfir.

26 Því að Drottinn mun vera athvarf þitt og varðveita fót þinn, að hann verði eigi fanginn.

27 Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.

28 Seg þú ekki við náunga þinn: "Far og kom aftur! á morgun skal ég gefa þér" _ ef þú þó átt það til.

29 Brugga eigi illt gegn náunga þínum, þegar hann býr öruggur hjá þér.

30 Deil ekki við neinn að ástæðulausu, ef hann hefir ekki gjört þér neitt mein.

31 Öfunda ekki ofbeldismanninn og haf engar mætur á neinum gjörðum hans.

32 Því að andstyggð er sá Drottni, er afvega fer, en ráðvandir menn alúðarvinir hans.

33 Bölvun Drottins er yfir húsi hins óguðlega, en bústað réttlátra blessar hann.

34 Spottsama spottar hann, en lítillátum veitir hann náð.

35 Vitrir menn munu heiður hljóta, en heimskingjar bera smán úr býtum.

Heyrið, synir, áminning föður yðar og hlýðið til, svo að þér lærið hyggindi!

Því að góðan lærdóm gef ég yður, hafnið eigi kenning minni!

Þegar ég var sonur í föðurhúsum, viðkvæmt einkabarn heima hjá móður minni,

þá kenndi faðir minn mér og sagði við mig: "Hjarta þitt haldi fast orðum mínum, varðveit þú boðorð mín, og muntu lifa!

Afla þér visku, afla þér hygginda! Gleym eigi og vík eigi frá orðum munns míns!

Hafna henni eigi, þá mun hún varðveita þig, elska hana, þá mun hún vernda þig.

Upphaf viskunnar er: afla þér visku, afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar!

Haf hana í hávegum, þá mun hún hefja þig, hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana.

Hún mun setja yndislegan sveig á höfuð þér, sæma þig prýðilegri kórónu."

10 Heyr þú, son minn, og veit viðtöku orðum mínum, þá munu æviár þín mörg verða.

11 Ég vísa þér veg spekinnar, leiði þig á brautir ráðvendninnar.

12 Gangir þú þær, skal leið þín ekki verða þröng, og hlaupir þú, skalt þú ekki hrasa.

13 Haltu fast í agann, slepptu honum ekki, varðveittu hann, því að hann er líf þitt.

14 Kom þú eigi á götu óguðlegra og gakk eigi á vegi vondra manna.

15 Sneið hjá honum, farðu hann ekki, snú þú frá honum og farðu fram hjá.

16 Því að þeir geta ekki sofið, nema þeir hafi gjört illt, og þeim kemur ekki dúr á auga, nema þeir hafi fellt einhvern.

17 Því að þeir eta glæpabrauð og drekka ofbeldisvín.

18 Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.

19 Vegur óguðlegra er eins og niðamyrkur, þeir vita ekki, um hvað þeir hrasa.

20 Son minn, gef gaum að ræðu minni, hneig eyra þitt að orðum mínum.

21 Lát þau eigi víkja frá augum þínum, varðveit þau innst í hjarta þínu.

22 Því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau, og lækning fyrir allan líkama þeirra.

23 Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.

24 Haltu fláræði munnsins burt frá þér og lát fals varanna vera fjarri þér.

25 Augu þín líti beint fram og augnalok þín horfi beint fram undan þér.

26 Gjör braut fóta þinna slétta, og allir vegir þínir séu staðfastir.

27 Vík hvorki til hægri né vinstri, haltu fæti þínum burt frá illu.

Son minn, gef gaum að speki minni, hneig eyra þitt að hyggindum mínum,

til þess að þú megir varðveita mannvit og varir þínar geymi þekkingu.

Því að hunangsseimur drýpur af vörum lauslátrar konu, og gómur hennar er hálli en olía.

En að síðustu er hún beiskari en malurt, beitt eins og tvíeggjað sverð.

Fætur hennar ganga niður til dauðans, spor hennar liggja til Heljar.

Til þess að hún hitti ekki leið lífsins, eru brautir hennar á reiki, og hún veit ekki hvert hún fer.

Heyrið mig því, synir, og víkið eigi frá orðum munns míns.

Legg leið þína langt frá henni og kom þú ekki nálægt húsdyrum hennar,

svo að þú gefir ekki öðrum æskublóma þinn og ár þín grimmum manni,

10 svo að útlendir menn mettist ekki af eigum þínum og aflafé þitt lendi ekki í annarlegu húsi,

11 og þú andvarpir að lokum, þá er líkami þinn og hold veslast upp,

12 og segir: "Hversu hefi ég hatað aga og hjarta mitt fyrirlitið umvöndun!

13 að ég skyldi ekki hlýða raustu kennara minna og hneigja eyra mitt til þeirra, er fræddu mig!

14 Við sjálft lá, að ég hefði ratað í mestu ógæfu á miðju dómþingi safnaðarins."

15 Drekk þú vatn úr vatnsþró þinni og rennandi vatn úr brunni þínum.

16 Eiga lindir þínar að flóa út á götuna, lækir þínir út á torgin?

17 Þér einum skulu þær tilheyra og engum óviðkomandi með þér.

18 Uppspretta þín sé blessuð, og gleð þig yfir festarmey æsku þinnar,

19 elsku-hindinni, yndis-gemsunni. Brjóst hennar gjöri þig ætíð drukkinn, og ást hennar fjötri þig ævinlega.

20 En hví skyldir þú, son minn, láta léttúðarkonu töfra þig, og faðma barm lauslátrar konu?

21 Því að vegir sérhvers manns blasa við Drottni, og allar brautir hans gjörir hann sléttar.

22 Misgjörðir hins óguðlega fanga hann, og hann verður veiddur í snörur synda sinna.

23 Hann mun deyja vegna skorts á aga og kollsteypast vegna sinnar miklu heimsku.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Síðara bréf Páls til Kori 1 Icelandic Bible (ICELAND)

Páll, að Guðs vilja postuli Krists Jesú, og Tímóteus, bróðir vor, heilsa söfnuði Guðs, sem er í Korintu, ásamt öllum heilögum, í gjörvallri Akkeu.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar,

sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.

Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig hljótum vér og huggun í ríkum mæli fyrir Krist.

En ef vér sætum þrengingum, þá er það yður til huggunar og hjálpræðis, og ef vér hljótum huggun, þá er það til þess að þér hljótið huggun og kraft til að standast þær þjáningar, sem vér einnig líðum.

Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum.

Vér viljum ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þrenging þá, sem vér urðum fyrir í Asíu. Vér vorum aðþrengdir langt um megn fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið.

Já, oss sýndist sjálfum, að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm. Því að oss átti að lærast það að treysta ekki sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu.

10 Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann oss og mun frelsa oss. Til hans höfum vér sett von vora, að hann muni enn frelsa oss.

11 Til þess getið þér og hjálpað með því að biðja fyrir oss. Þá munu margir þakka þá náðargjöf, sem oss er veitt að fyrirbæn margra.

12 Þetta er hrósun vor: Samviska vor vitnar um, að vér höfum lifað í heiminum, og sérstaklega hjá yður, í heilagleika og hreinleika, sem kemur frá Guði, ekki látið stjórnast af mannlegri speki, heldur af náð Guðs.

13 Vér skrifum yður ekki annað en það, sem þér getið lesið og skilið. Ég vona, að þér munið til fulls skilja það,

14 sem yður er að nokkru ljóst, að þér getið miklast af oss eins og vér af yður á degi Drottins vors Jesú.

15 Í þessu trausti var það ásetningur minn að koma fyrst til yðar, til þess að þér skylduð verða tvöfaldrar gleði aðnjótandi.

16 Ég hugðist bæði koma við hjá yður á leiðinni til Makedóníu og aftur á leiðinni þaðan og láta yður búa ferð mína til Júdeu.

17 Var það nú svo mikið hverflyndi af mér, er ég afréð þetta? Eða ræð ég ráðum mínum að hætti heimsins, svo að hjá mér sé "já, já" sama og "nei, nei"?

18 Svo sannarlega sem Guð er trúr: Það, sem vér segjum yður, er ekki bæði já og nei.

19 Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem vér höfum prédikað á meðal yðar, ég, Silvanus og Tímóteus, var ekki bæði "já" og "nei", heldur er allt í honum "já".

20 Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, þá er játun þeirra í honum. Þess vegna segjum vér og fyrir hann amen Guði til dýrðar.

21 Það er Guð, sem gjörir oss ásamt yður staðfasta í Kristi og hefur smurt oss.

22 Hann hefur sett innsigli sitt á oss og gefið oss anda sinn sem pant í hjörtum vorum.

23 Ég kalla Guð til vitnis og legg líf mitt við, að það er af hlífð við yður, að ég hef enn þá ekki komið til Korintu.

24 Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar. Því að í trúnni standið þér.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes