A A A A A
Bible Book List

Orðskviðirnir 24-26 Icelandic Bible (ICELAND)

24 Öfunda ekki vonda menn og lát þig ekki langa til að vera með þeim,

því að hjarta þeirra býr yfir ofríkisverkum, og varir þeirra mæla ógæfu.

Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast,

fyrir þekking fyllast forðabúrin alls konar dýrum og yndislegum fjármunum.

Vitur maður er betri en sterkur og fróður maður betri en aflmikill,

því að holl ráð skalt þú hafa, er þú heyr stríð, og þar sem margir ráðgjafar eru, fer allt vel.

Viskan er afglapanum ofviða, í borgarhliðinu lýkur hann ekki upp munni sínum.

Þann sem leggur stund á að gjöra illt, kalla menn varmenni.

Syndin er fíflslegt fyrirtæki, og spottarinn er mönnum andstyggð.

10 Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill.

11 Frelsaðu þá, sem leiddir eru fram til lífláts, og þyrm þeim, sem ganga skjögrandi að höggstokknum.

12 Segir þú: "Vér vissum það eigi," _ sá sem vegur hjörtun, hann verður sannarlega var við það, og sá sem vakir yfir sálu þinni, hann veit það og mun gjalda manninum eftir verkum hans.

13 Et þú hunang, son minn, því að það er gott, og hunangsseimur er gómi þínum sætur.

14 Nem á sama hátt speki fyrir sálu þína, finnir þú hana, er framtíð fyrir hendi, og von þín mun eigi að engu verða.

15 Sit eigi, þú hinn óguðlegi, um bústað hins réttláta og eyðilegg ekki heimkynni hans,

16 því að sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur aftur upp, en óguðlegir steypast í ógæfu.

17 Gleð þig eigi yfir falli óvinar þíns, og hjarta þitt fagni eigi yfir því að hann steypist,

18 svo að Drottinn sjái það ekki og honum mislíki, og hann snúi reiði sinni frá honum til þín.

19 Reiðst ekki vegna illgjörðamanna, öfunda eigi óguðlega,

20 því að vondur maður á enga framtíð fyrir höndum, á lampa óguðlegra slokknar.

21 Son minn, óttastu Drottin og konunginn, samlaga þig ekki óróaseggjum,

22 því að ógæfa þeirra ríður að þegar minnst varir, og ófarir beggja _ hver veit um þær?

23 Þessir orðskviðir eru líka eftir spekinga. Hlutdrægni í dómi er ljót.

24 Þeim sem segir við hinn seka: "Þú hefir rétt fyrir þér!" honum formæla menn, honum bölvar fólk.

25 En þeim sem hegna eins og ber, mun vel vegna, yfir þá kemur ríkuleg blessun.

26 Sá kyssir á varirnar, sem veitir rétt svör.

27 Annastu verk þitt utan húss og ljúk því á akrinum, síðan getur þú byggt hús þitt.

28 Vertu eigi vottur gegn náunga þínum að ástæðulausu, eða mundir þú vilja svíkja með vörum þínum?

29 Seg þú ekki: "Eins og hann gjörði mér, eins ætla ég honum að gjöra, ég ætla að endurgjalda manninum eftir verkum hans!"

30 Mér varð gengið fram hjá akri letingja nokkurs og fram hjá víngarði óviturs manns.

31 Og sjá, hann var allur vaxinn klungrum, hann var alþakinn netlum, og steingarðurinn umhverfis hann var hruninn.

32 En ég varð þess var, veitti því athygli, sá það og lét mér það að kenningu verða:

33 Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast,

34 þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður.

25 Þetta eru líka orðskviðir Salómons, er menn Hiskía Júdakonungs hafa safnað.

Guði er það heiður að dylja mál, en konungum heiður að rannsaka mál.

Eins og hæð himins og dýpt jarðar, svo eru konungahjörtun órannsakanleg.

Sé sorinn tekinn úr silfrinu, þá fær smiðurinn ker úr því.

Séu hinir óguðlegu teknir burt frá augliti konungsins, þá mun hásæti hans staðfestast fyrir réttlæti.

Stær þig eigi frammi fyrir konunginum og ryðst eigi í rúm stórmenna,

því að betra er að menn segi við þig: "Fær þig hingað upp!" heldur en að menn gjöri þér læging frammi fyrir tignarmanni. Hvað sem augu þín kunna að hafa séð,

þá ver eigi skjótur til málsóknar, því að hvað ætlar þú síðan að gjöra, þá er náungi þinn gjörir þér sneypu?

Rek þú mál þitt gegn náunga þínum, en ljósta eigi upp leyndarmáli annars manns,

10 til þess að sá sem heyrir það, smáni þig ekki og þú losnir aldrei við illan orðróm.

11 Gullepli í skrautlegum silfurskálum _ svo eru orð í tíma töluð.

12 Eins og gullhringur og skartgripur af skíru gulli, svo er vitur áminnandi heyranda eyra.

13 Eins og snjósvali um uppskerutímann, svo er áreiðanlegur sendimaður þeim er sendir hann, því að hann hressir sál húsbónda síns.

14 Ský og vindur, og þó engin rigning _ svo er sá, sem hrósar sér af gjafmildi, en gefur þó ekkert.

15 Með þolinmæði verður höfðingja talið hughvarf, og mjúk tunga mylur bein.

16 Finnir þú hunang, þá et sem þér nægir, svo að þú verðir ekki ofsaddur af því og ælir því upp aftur.

17 Stíg sjaldan fæti þínum í hús náunga þíns, svo að hann verði ekki leiður á þér og hati þig.

18 Hamar og sverð og hvöss ör _ svo er maður, sem ber falsvitni gegn náunga sínum.

19 Molnandi tönn og hrasandi fótur _ svo er traust á svikara á neyðarinnar degi.

20 Að fara úr fötum í kalsaveðri _ að hella ediki út í saltpétur _ eins er að syngja skapvondum ljóð.

21 Ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, og ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka,

22 því að þú safnar glóðum elds yfir höfuð honum, og Drottinn mun endurgjalda þér það.

23 Norðanvindurinn leiðir fram regn og launskraf reiðileg andlit.

24 Betri er vist í horni á húsþaki en sambúð við þrasgjarna konu.

25 Eins og kalt vatn er dauðþyrstum manni, svo er góð fregn af fjarlægu landi.

26 Eins og grugguð lind og skemmdur brunnur, svo er réttlátur maður, sem titrar frammi fyrir óguðlegum manni.

27 Það er ekki gott að eta of mikið hunang, ver því spar á hólið.

28 Eins og borg, sem múrarnir hafa verið brotnir utan af, eins er sá maður, sem eigi hefir stjórn á skapsmunum sínum.

26 Eins og snjór um sumar og eins og regn um uppskeru, eins illa á sæmd við heimskan mann.

Eins og spörfugl flögrar, eins og svala flýgur, eins er um óverðskuldaða formæling _ hún verður eigi að áhrínsorðum.

Svipan hæfir hestinum og taumurinn asnanum _ en vöndurinn baki heimskingjanna.

Svara þú ekki heimskingjanum eftir fíflsku hans, svo að þú verðir ekki honum jafn.

Svara þú heimskingjanum eftir fíflsku hans, svo að hann haldi ekki, að hann sé vitur.

Sá höggur af sér fæturna og fær að súpa á ranglæti, sem sendir orð með heimskingja.

Eins og lærleggir hins lama hanga máttlausir, svo er spakmæli í munni heimskingjanna.

Sá sem sýnir heimskum manni sæmd, honum fer eins og þeim, er bindur stein í slöngvu.

Eins og þyrnir, sem stingst upp í höndina á drukknum manni, svo er spakmæli í munni heimskingjanna.

10 Eins og skytta, sem hæfir allt, svo er sá sem leigir heimskingja, og sá er leigir vegfarendur.

11 Eins og hundur, sem snýr aftur til spýju sinnar, svo er heimskingi, sem endurtekur fíflsku sína.

12 Sjáir þú mann, sem þykist vitur, þá er meiri von um heimskingja en hann.

13 Letinginn segir: "Óargadýr er á veginum, ljón á götunum."

14 Hurðin snýst á hjörunum og letinginn í hvílu sinni.

15 Latur maður dýfir hendinni ofan í skálina, en honum verður þungt um að bera hana aftur upp að munninum.

16 Latur maður þykist vitrari en sjö, sem svara hyggilega.

17 Sá, sem kemst í æsing út af deilu, sem honum kemur ekki við, hann er eins og sá, sem tekur um eyrun á hundi, er hleypur fram hjá.

18 Eins og óður maður, sem kastar tundurörvum, banvænum skeytum,

19 eins er sá maður, er svikið hefir náunga sinn og segir síðan: "Ég er bara að gjöra að gamni mínu."

20 Þegar eldsneytið þrýtur, slokknar eldurinn, og þegar enginn er rógberinn, stöðvast deilurnar.

21 Eins og kol þarf til glóða og við til elds, svo þarf þrætugjarnan mann til að kveikja deilur.

22 Orð rógberans eru eins og sælgæti, og þau læsa sig inn í innstu fylgsni hjartans.

23 Eldheitir kossar og illt hjarta, það er sem sorasilfur utan af leirbroti.

24 Með vörum sínum gjörir hatursmaðurinn sér upp vinalæti, en í hjarta sínu hyggur hann á svik.

25 Þegar hann mælir fagurt, þá trú þú honum ekki, því að sjö andstyggðir eru í hjarta hans.

26 Þótt hatrið hylji sig hræsni, þá verður þó illska þess opinber á dómþinginu.

27 Sá sem grefur gröf, fellur í hana, og steinninn fellur aftur í fang þeim, er veltir honum.

28 Lygin tunga hatar þá, er hún hefir sundur marið, og smjaðrandi munnur veldur glötun.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes