A A A A A
Bible Book List

Orðskviðirnir 16-18 Icelandic Bible (ICELAND)

16 Fyrirætlanir hjartans eru á mannsins valdi, en svar tungunnar kemur frá Drottni.

Manninum þykja allir sínir vegir hreinir, en Drottinn prófar hugarþelið.

Fel þú Drottni verk þín, þá mun áformum þínum framgengt verða.

Allt hefir Drottinn skapað til síns ákveðna marks, svo og guðleysingjann til óheilladagsins.

Sérhver hrokafullur maður er Drottni andstyggð, hér er höndin upp á það: hann sleppur ekki óhegndur!

Með elsku og trúfesti er friðþægt fyrir misgjörð, og fyrir ótta Drottins forðast menn hið illa.

Þegar Drottinn hefir þóknun á breytni einhvers manns, þá sættir hann og óvini hans við hann.

Betra er lítið með réttu en miklar tekjur með röngu.

Hjarta mannsins upphugsar veg hans, en Drottinn stýrir gangi hans.

10 Goðsvar er á vörum konungsins, í dómi mun munni hans ekki skeika.

11 Rétt vog og reisla koma frá Drottni, lóðin á vogarskálunum eru hans verk.

12 Að fremja ranglæti er konungum andstyggð, því að hásætið staðfestist fyrir réttlæti.

13 Réttlátar varir eru yndi konunga, og þeir elska þann, er talar hreinskilni.

14 Konungsreiði er sem sendiboði dauðans, en vitur maður sefar hana.

15 Í mildilegu augnaráði konungs er líf, og hylli hans er sem vorregns-ský.

16 Hversu miklu betra er að afla sér visku en gulls og ákjósanlegra að afla sér hygginda en silfurs.

17 Braut hreinskilinna er að forðast illt, að varðveita sálu sína er að gæta breytni sinnar.

18 Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall.

19 Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum en að skipta herfangi með dramblátum.

20 Sá sem gefur gætur að orðinu, hreppir hamingju, og sæll er sá, sem treystir Drottni.

21 Sá sem er vitur í hjarta, verður hygginn kallaður, og sætleiki varanna eykur fræðslu.

22 Lífslind er hyggnin þeim, sem hana á, en ögun afglapanna er þeirra eigin flónska.

23 Hjarta spekingsins gjörir munn hans hygginn og eykur fræðsluna á vörum hans.

24 Vingjarnleg orð eru hunangsseimur, sæt fyrir sálina, lækning fyrir beinin.

25 Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum.

26 Hungur erfiðismannsins erfiðar með honum, því að munnur hans rekur á eftir honum.

27 Varmennið grefur óheillagröf, og á vörum hans er sem brennandi eldur.

28 Vélráður maður kveikir illdeilur, og rógberinn veldur vinaskilnaði.

29 Ofbeldismaðurinn ginnir náunga sinn og leiðir hann á vondan veg.

30 Sá sem lokar augunum, upphugsar vélræði, sá sem kreistir saman varirnar, er albúinn til ills.

31 Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana.

32 Sá sem seinn er til reiði, er betri en kappi, og sá sem stjórnar geði sínu, er meiri en sá sem vinnur borgir.

33 Í skikkjufellingum eru teningarnir hristir, en Drottinn ræður, hvað upp kemur.

17 Betri er þurr brauðbiti með ró en fullt hús af fórnarkjöti með deilum.

Hygginn þræll verður drottnari yfir spilltum syni, og hann tekur erfðahlut með bræðrunum.

Deiglan er fyrir silfrið og bræðsluofninn fyrir gullið, en Drottinn prófar hjörtun.

Illmennið gefur gaum að fláræðis-vörum, lygin hlýðir á glæpa-tungu.

Sá sem gjörir gys að fátækum, óvirðir þann er skóp hann, og sá sem gleðst yfir ógæfu, sleppur ekki óhegndur.

Barnabörnin eru kóróna öldunganna, og feðurnir eru heiður barnanna.

Ekki hæfa heimskum manni stóryrði, hve miklu síður göfgum manni lygavarir.

Mútan er gimsteinn í augum þess er hana fær, hvert sem maður snýr sér með hana, kemur hann sínu fram.

Sá sem breiðir yfir bresti, eflir kærleika, en sá sem ýfir upp sök, veldur vinaskilnaði.

10 Ávítur fá meira á hygginn mann en hundrað högg á heimskingja.

11 Uppreisnarmaðurinn hyggur á illt eitt, en grimmur sendiboði mun sendur verða móti honum.

12 Betra er fyrir mann að mæta birnu, sem rænd er húnum sínum, heldur en heimskingja í flónsku hans.

13 Sá sem launar gott með illu, frá hans húsi víkur ógæfan eigi.

14 Þegar deila byrjar, er sem tekin sé úr stífla, lát því af þrætunni, áður en rifrildi hefst.

15 Sá sem sekan sýknar, og sá sem saklausan sakfellir, þeir eru báðir Drottni andstyggð.

16 Hvað stoða peningar í hendi heimskingjans til þess að kaupa speki, þar sem vitið er ekkert?

17 Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir.

18 Óvitur maður er sá, er til handsala gengur, sá sem gengur í ábyrgð fyrir náunga sinn.

19 Sá elskar yfirsjón, sem þrætu elskar, sá sem háar gjörir dyr sínar, sækist eftir hruni.

20 Rangsnúið hjarta öðlast enga gæfu, og sá sem hefir fláráða tungu, hrapar í ógæfu.

21 Sá sem getur af sér heimskingja, honum verður það til mæðu, og faðir glópsins fagnar ekki.

22 Glatt hjarta veitir góða heilsubót, en dapurt geð skrælir beinin.

23 Hinn óguðlegi þiggur mútur á laun til þess að beygja leiðir réttvísinnar.

24 Hygginn maður hefir viskuna fyrir framan sig, en augu heimskingjans eru úti á heimsenda.

25 Heimskur sonur er föður sínum til sorgar og þeirri til angurs, er ól hann.

26 Það eitt að sekta saklausan er ekki gott, en að berja tignarmenni tekur þó út yfir.

27 Fámálugur maður er hygginn, og geðrór maður er skynsamur.

28 Afglapinn getur jafnvel álitist vitur, ef hann þegir, hygginn, ef hann lokar vörunum.

18 Sérlyndur maður fer að sínum munum, hann illskast við öllu, sem hyggilegt er.

Heimskinginn hefir engar mætur á hyggindum, heldur á því að gjöra kunnar hugsanir sínar.

Þar sem hinn óguðlegi kemur, þar kemur og fyrirlitning, og með smáninni kemur skömm.

Djúp vötn eru orð af manns munni, lind viskunnar er sem rennandi lækur.

Það er ekki rétt að draga taum hins óguðlega, að halla rétti hins saklausa í dómi.

Varir heimskingjans valda deilum, og munnur hans kallar á högg.

Munnur heimskingjans verður honum að tjóni, og varir hans eru snara fyrir líf hans.

Orð rógberans eru eins og sælgæti, og þau læsa sig inn í innstu fylgsni hjartans.

Sá sem tómlátur er í verki sínu, er skilgetinn bróðir eyðsluseggsins.

10 Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.

11 Auður ríks manns er honum öflugt vígi og ókleifur múrveggur í sjálfs hans ímyndun.

12 Ofmetnaður hjartans er undanfari falls, en auðmýkt er undanfari virðingar.

13 Svari einhver áður en hann heyrir, þá er honum það flónska og skömm.

14 Hugrekki mannsins heldur honum uppi í sjúkdómi hans, en dapurt geð, hver fær borið það?

15 Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar, og eyra hinna vitru leitar þekkingar.

16 Gjöf sem maður gefur, rýmir til fyrir honum og leiðir hann fram fyrir stórmenni.

17 Hinn fyrri sýnist hafa á réttu að standa í þrætumáli sínu, en síðan kemur mótpartur hans og rannsakar röksemdir hans.

18 Hlutkestið gjörir enda á deilum og sker úr milli sterkra.

19 Erfiðara er að ávinna svikinn bróður en að vinna rammbyggða borg, og deilur slíkra manna eru sem slagbrandar fyrir hallardyrum.

20 Kviður mannsins mettast af ávexti munns hans, af gróðri varanna mettast hann.

21 Dauði og líf eru á tungunnar valdi, og sá sem hefir taum á henni, mun eta ávöxt hennar.

22 Sá sem eignast konu, eignast gersemi, og hlýtur náðargjöf af Drottni.

23 Hinn fátæki mælir bljúgum bænarorðum, en hinn ríki svarar með hörku.

24 Að vera allra vinur er til tjóns, en til er ástvinur, sem er tryggari en bróðir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes