A A A A A
Bible Book List

Orðskviðirnir 10-12 Icelandic Bible (ICELAND)

10 Orðskviðir Salómons. Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur sonur er móður sinni til mæðu.

Rangfenginn auður stoðar ekki, en réttlæti frelsar frá dauða.

Drottinn lætur ekki réttlátan mann þola hungur, en græðgi guðlausra hrindir hann frá sér.

Snauður verður sá, er með hangandi hendi vinnur, en auðs aflar iðin hönd.

Hygginn er sá, er á sumri safnar, en skammarlega fer þeim, er um kornsláttinn sefur.

Blessun kemur yfir höfuð hins réttláta, en munnur óguðlegra hylmir yfir ofbeldi.

Minning hins réttláta verður blessuð, en nafn óguðlegra fúnar.

Sá sem er vitur í hjarta, þýðist boðorðin, en sá sem er afglapi í munninum, steypir sér í glötun.

Sá sem gengur ráðvandlega, gengur óhultur, en sá sem gjörir vegu sína hlykkjótta, verður uppvís.

10 Sá sem deplar með auganu, veldur skapraun, en sá sem finnur að með djörfung, semur frið.

11 Munnur hins réttláta er lífslind, en munnur óguðlegra hylmir yfir ofbeldi.

12 Hatur vekur illdeilur, en kærleikurinn breiðir yfir alla bresti.

13 Viska er á vörum hyggins manns, en á baki hins óvitra hvín vöndurinn.

14 Vitrir menn geyma þekking sína, en munnur afglapans er yfirvofandi hrun.

15 Auður ríks manns er honum öflugt vígi, en fátækt hinna snauðu verður þeim að falli.

16 Afli hins réttláta verður til lífs, gróði hins óguðlega til syndar.

17 Sá fer lífsins leið, er varðveitir aga, en sá villist, er hafnar umvöndun.

18 Sá er leynir hatri, er lygari, en sá sem ber út óhróður, er heimskingi.

19 Málæðinu fylgja yfirsjónir, en sá breytir hyggilega, sem hefir taum á tungu sinni.

20 Tunga hins réttláta er úrvals silfur, vit hins óguðlega er lítils virði.

21 Varir hins réttláta fæða marga, en afglaparnir deyja úr vitleysu.

22 Blessun Drottins, hún auðgar, og erfiði mannsins bætir engu við hana.

23 Heimskingjanum er ánægja að fremja svívirðing, en viskan er hyggnum manni gleði.

24 Það sem hinn óguðlegi óttast, kemur yfir hann, en réttlátum gefst það, er þeir girnast.

25 Þegar vindbylurinn skellur á, er úti um hinn óguðlega, en hinn réttláti stendur á eilífum grundvelli.

26 Það sem edik er tönnunum og reykur augunum, það er letinginn þeim, er hann senda.

27 Ótti Drottins lengir lífdagana, en æviár óguðlegra verða stytt.

28 Eftirvænting réttlátra endar í gleði, en von óguðlegra verður að engu.

29 Vegur Drottins er athvarf sakleysisins, en hrun þeim, er aðhafast illt.

30 Hinn réttláti bifast ekki að eilífu, en hinir óguðlegu munu ekki byggja landið.

31 Munnur hins réttláta framleiðir visku, en fláráð tunga verður upprætt.

32 Varir hins réttláta vita, hvað geðfellt er, en munnur óguðlegra er eintóm flærð.

11 Svikavog er Drottni andstyggð, en full vog yndi hans.

Komi hroki, kemur smán, en hjá lítillátum er viska.

Ráðvendni hreinskilinna leiðir þá, en undirferli svikulla tortímir þeim.

Auðæfi stoða ekki á degi reiðinnar, en réttlæti frelsar frá dauða.

Réttlæti hins ráðvanda gjörir veg hans sléttan, en hinn óguðlegi fellur um guðleysi sitt.

Réttlæti hinna hreinskilnu frelsar þá, en hinir svikulu ánetjast í eigin græðgi.

Þegar óguðlegur maður deyr, verður von hans að engu, og eftirvænting glæpamannanna er að engu orðin.

Hinn réttláti frelsast úr nauðum, og hinn óguðlegi kemur í hans stað.

Með munninum steypir hinn guðlausi náunga sínum í glötun, en hinir réttlátu frelsast fyrir þekkingu.

10 Borgin fagnar yfir gæfu réttlátra, og þegar óguðlegir farast, gjalla gleðiópin.

11 Borgin hefst fyrir blessun hreinskilinna, en fyrir munn óguðlegra steypist hún.

12 Óvitur maður sýnir náunga sínum fyrirlitningu, en hygginn maður þegir.

13 Sá er gengur um sem rógberi, lýstur upp leyndarmálum, en sá sem er staðfastur í lund, leynir sökinni.

14 Þar sem engin stjórn er, þar fellur þjóðin, en þar sem margir ráðgjafar eru, fer allt vel.

15 Hrapallega fer fyrir þeim, er gengur í ábyrgð fyrir annan mann, en sá sem hatar handsöl, er óhultur.

16 Yndisleg kona hlýtur sæmd, og hinir sterku hljóta auðæfi.

17 Kærleiksríkur maður gjörir sálu sinni gott, en hinn grimmi kvelur sitt eigið hold.

18 Hinn óguðlegi aflar sér svikuls ávinnings, en sá er réttlæti sáir, sannra launa.

19 Iðki einhver réttlæti, þá leiðir það til lífs, en ef hann eltir hið illa, leiðir það hann til dauða.

20 Andstyggð fyrir Drottni eru þeir, sem hafa rangsnúið hjarta, en yndi hans þeir, er breyta ráðvandlega.

21 Hér er höndin upp á það: Hinn vondi sleppur ekki óhegndur! en niðjar réttlátra komast undan.

22 Eins og gullhringur í svínstrýni, svo er fríð kona, sem enga siðprýði kann.

23 Óskir hinna réttlátu leiða aðeins til góðs, en vonir óguðlegra leiða yfir sig reiðidóm.

24 Sumir miðla öðrum mildilega, og eignast æ meira, aðrir halda í meira en rétt er, og verða þó fátækari.

25 Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.

26 Fólkið formælir þeim, sem heldur í kornið, en blessun kemur yfir höfuð þess, er selur það.

27 Sá sem leitar góðs, stundar það, sem velþóknanlegt er, en sá sem sækist eftir illu, verður fyrir því.

28 Sá sem treystir á auð sinn, hann fellur, en hinir réttlátu munu grænka eins og laufið.

29 Sá sem kemur ólagi á heimilishag sinn, erfir vind, og afglapinn verður þjónn hins vitra.

30 Ávöxtur hins réttláta er lífstré, og hinn vitri hyllir að sér hjörtun.

31 Sjá, hinn réttláti fær endurgjald hér á jörðu, hvað þá hinn óguðlegi og syndarinn?

12 Sá sem elskar aga, elskar þekking, en sá sem hatar umvöndun, er heimskur.

Hinn góði hlýtur velþóknun af Drottni, en hrekkvísan mann fyrirdæmir hann.

Enginn maður nær fótfestu með óguðleika, en rót hinna réttlátu mun eigi bifast.

Væn kona er kóróna manns síns, en vond kona er sem rotnun í beinum hans.

Hugsanir réttlátra stefna að rétti, en ráðagjörðir óguðlegra að svikum.

Orð óguðlegra brugga banaráð, en munnur hreinskilinna frelsar þá.

Óguðlegir kollsteypast og eru eigi framar til, en hús réttlátra stendur.

Manninum verður hrósað eftir vitsmunum hans, en sá sem er rangsnúinn í hjarta, verður fyrirlitinn.

Betra er að láta lítið yfir sér og hafa þjón en að berast mikið á og hafa ekki ofan í sig.

10 Hinn réttláti er nærgætinn um þörf skepna sinna, en hjarta óguðlegra er hart.

11 Sá sem yrkir land sitt, mettast af brauði, en sá sem sækist eftir hégómlegum hlutum, er óvitur.

12 Hinn óguðlegi ágirnist feng hinna vondu, en rót réttlátra er varanleg.

13 Yfirsjón varanna er ill snara, en hinn réttláti bjargast úr nauðum.

14 Af ávexti munnsins mettast maðurinn gæðum, og það sem hendur hans hafa öðrum gjört, kemur aftur yfir hann.

15 Afglapanum finnst sinn vegur réttur, en vitur maður hlýðir á ráð.

16 Gremja afglapans kemur þegar í ljós, en kænn maður dylur smán sína.

17 Sá sem segir sannleikann hispurslaust, mælir fram það sem rétt er, en falsvotturinn svik.

18 Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir.

19 Sannmálar varir munu ávallt standast, en lygin tunga aðeins stutta stund.

20 Yfir svikum búa þeir, er illt brugga, en gleði valda þeir, er ráða til friðar.

21 Réttlátum manni ber aldrei böl að hendi, en óhamingja hleðst á óguðlega.

22 Lygavarir eru Drottni andstyggð, en þeir sem sannleik iðka, eru yndi hans.

23 Kænn maður fer dult með þekking sína, en hjarta heimskingjanna fer hátt með flónsku sína.

24 Hönd hinna iðnu mun drottna, en hangandi höndin verður vinnuskyld.

25 Hugsýki beygir manninn, en vingjarnlegt orð gleður hann.

26 Hinum réttláta vegnar betur en öðrum, en vegur óguðlegra leiðir þá í villu.

27 Letinginn nær ekki villibráðinni, en iðnin er manninum dýrmætur auður.

28 Á vegi réttlætisins er líf, en glæpaleiðin liggur út í dauðann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes