Add parallel Print Page Options

Orðskviðir Salómons Davíðssonar, Ísraels konungs,

til þess að menn kynnist visku og aga, læri að skilja skynsamleg orð,

til þess að menn fái viturlegan aga, réttlæti, réttvísi og ráðvendni,

til þess að þeir veiti hinum óreyndu hyggindi, unglingum þekking og aðgætni, _

hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni nemur hollar lífsreglur _

til þess að menn skilji orðskviði og líkingamál, orð spekinganna og gátur þeirra.

Ótti Drottins er upphaf þekkingar, visku og aga fyrirlíta afglapar einir.

Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar,

því að þær eru yndislegur sveigur á höfði þér og men um háls þinn.

10 Son minn, þegar skálkar ginna þig, þá gegn þeim eigi.

11 Þegar þeir segja: "Kom með oss! Leggjumst í launsátur til manndrápa, sitjum án saka um saklausan mann,

12 gleypum þá lifandi eins og Hel _ með húð og hári, eins og þá sem farnir eru til dánarheima.

13 Alls konar dýra muni munum vér eignast, fylla hús vor rændum fjármunum.

14 Þú skalt taka jafnan hlut með oss, einn sjóð skulum vér allir hafa" _

15 son minn, þá haf ekki samleið við þá, halt fæti þínum frá stigum þeirra.

16 Því að fætur þeirra eru skjótir til ills og fljótir til að úthella blóði.

17 Því að til einskis þenja menn út netið í augsýn allra fleygra fugla,

18 og slíkir menn sitja um sitt eigið líf, liggja í launsátri fyrir sjálfum sér.

19 Þannig fer öllum þeim, sem fíknir eru í rangfenginn gróða: fíknin verður þeim að fjörlesti.

20 Spekin kallar hátt á strætunum, lætur rödd sína gjalla á torgunum.

21 Hún hrópar á glaummiklum gatnamótum, við borgarhliðin heldur hún tölur sínar:

22 Hversu lengi ætlið þér, fávísir, að elska fávísi og hinir háðgjörnu að hafa yndi af háði og heimskingjarnir að hata þekkingu?

23 Snúist til umvöndunar minnar, sjá, ég læt anda minn streyma yfir yður, kunngjöri yður orð mín.

24 En af því að þér færðust undan, þá er ég kallaði, og enginn gaf því gaum, þótt ég rétti út höndina,

25 heldur létuð öll mín ráð sem vind um eyrun þjóta og skeyttuð eigi umvöndun minni,

26 þá mun ég hlæja í ógæfu yðar, draga dár að, þegar skelfingin dynur yfir yður,

27 þegar skelfingin dynur yfir yður eins og þrumuveður og ógæfa yðar nálgast eins og fellibylur, þegar neyð og angist dynja yfir yður.

28 Þá munu þeir kalla á mig, en ég mun ekki svara, þeir munu leita mín, en ekki finna mig.

29 Vegna þess að þeir hötuðu þekking og aðhylltust ekki ótta Drottins,

30 skeyttu ekki ráðum mínum og smáðu alla umvöndun mína,

31 þá skulu þeir fá að neyta ávaxtar breytni sinnar og mettast af sínum eigin vélræðum.

32 Því að fráhvarf fávísra drepur þá, og uggleysi heimskingjanna tortímir þeim.

33 En sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.

Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér,

svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum,

já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin,

ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,

þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði.

Því að Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.

Hann geymir hinum ráðvöndu gæfuna, er skjöldur þeirra, sem breyta grandvarlega,

með því að hann vakir yfir stigum réttarins og varðveitir veg sinna guðhræddu.

Þá munt þú og skilja, hvað réttlæti er og réttur og ráðvendni, _ í stuttu máli, sérhverja braut hins góða.

10 Því að speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg.

11 Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig,

12 til þess að frelsa þig frá vegi hins illa, frá þeim mönnum, sem fara með fals,

13 sem yfirgefa stigu einlægninnar og ganga á vegum myrkursins

14 sem hafa gleði af því að gjöra illt, fagna yfir illsku hrekkjum,

15 sem gjöra vegu sína hlykkjótta og komnir eru út á glapstigu í breytni sinni,

16 til þess að frelsa þig frá léttúðarkonu, frá blíðmálugri konu sem annar á,

17 sem yfirgefið hefir unnusta æsku sinnar og gleymt sáttmála Guðs síns,

18 því að hús hennar hnígur í dauðann, og brautir hennar liggja niður til framliðinna,

19 þeir sem inn til hennar fara, snúa engir aftur, og aldrei komast þeir á lífsins stigu, _

20 til þess að þú gangir á vegi góðra manna og haldir þig á stigum réttlátra.

21 Því að hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því.

22 En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.

Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín,

því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli.

Kærleiki og trúfesti munu aldrei yfirgefa þig. Bind þau um háls þér, rita þau á spjald hjarta þíns,

þá munt þú ávinna þér hylli og fögur hyggindi, bæði í augum Guðs og manna.

Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.

Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.

Þú skalt ekki þykjast vitur, óttast Drottin og forðast illt,

það mun verða heilnæmt fyrir líkama þinn og hressandi fyrir bein þín.

Tigna Drottin með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar,

10 þá munu hlöður þínar verða nægtafullar og vínberjalögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum.

11 Son minn, lítilsvirð eigi ögun Drottins og lát þér eigi gremjast umvöndun hans,

12 því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og lætur þann son kenna til, sem hann hefir mætur á.

13 Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki, sá maður, sem hyggindi hlotnast.

14 Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs, og arðurinn af henni ágætari en gull.

15 Hún er dýrmætari en perlur, og allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana.

16 Langir lífdagar eru í hægri hendi hennar, auður og mannvirðingar í vinstri hendi hennar.

17 Vegir hennar eru yndislegir vegir og allar götur hennar velgengni.

18 Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.

19 Drottinn grundvallaði jörðina með visku, festi himininn af hyggjuviti.

20 Fyrir þekking hans mynduðust hafdjúpin og drýpur döggin úr skýjunum.

21 Son minn, varðveit þú visku og gætni, lát þær eigi víkja frá augum þínum,

22 þá munu þær verða líf sálu þinni og prýði fyrir háls þinn.

23 Þá muntu ganga óhultur veg þinn og eigi drepa við fæti.

24 Þegar þú leggst til hvíldar, þarft þú ekki að hræðast, og hvílist þú, mun svefninn verða vær.

25 Þú þarft ekki að óttast skyndilega hræðslu, né eyðilegging hinna óguðlegu, þegar hún dynur yfir.

26 Því að Drottinn mun vera athvarf þitt og varðveita fót þinn, að hann verði eigi fanginn.

27 Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.

28 Seg þú ekki við náunga þinn: "Far og kom aftur! á morgun skal ég gefa þér" _ ef þú þó átt það til.

29 Brugga eigi illt gegn náunga þínum, þegar hann býr öruggur hjá þér.

30 Deil ekki við neinn að ástæðulausu, ef hann hefir ekki gjört þér neitt mein.

31 Öfunda ekki ofbeldismanninn og haf engar mætur á neinum gjörðum hans.

32 Því að andstyggð er sá Drottni, er afvega fer, en ráðvandir menn alúðarvinir hans.

33 Bölvun Drottins er yfir húsi hins óguðlega, en bústað réttlátra blessar hann.

34 Spottsama spottar hann, en lítillátum veitir hann náð.

35 Vitrir menn munu heiður hljóta, en heimskingjar bera smán úr býtum.