Add parallel Print Page Options

Vitrun Óbadía. Svo segir Drottinn Guð um Edóm: Vér höfum fengið vitneskju frá Drottni, og boðberi er sendur meðal þjóðanna: "Af stað! Vér skulum halda af stað til þess að herja á hann!"

Sjá, ég vil gjöra þig lítinn meðal þjóðanna, þú munt verða mjög fyrirlitinn.

Hroki hjarta þíns hefir dregið þig á tálar, þú sem átt byggð í klettaskorum og situr í hæðum uppi, sem segir í hjarta þínu: "Hver getur steypt mér niður til jarðar?"

Þótt þú sætir hátt eins og örninn og byggðir hreiður þitt meðal stjarnanna, þá steypi ég þér þaðan niður, _ segir Drottinn.

Ef þjófar koma að þér eða ræningjar á náttarþeli _ hversu ert þú í eyði lagður _, stela þeir þá ekki, þar til er þeim nægir? Ef vínlestursmenn ráðast á þig, skilja þeir þá ekki eftir neinn eftirtíning?

En hversu vandlega hefir verið leitað hjá Esaú og leitaðir uppi fólgnir dýrgripir hans.

Allir sambandsmenn þínir reka þig út á landamærin. Þeir sem lifðu í friði við þig, draga þig á tálar, bera þig ofurliði. Þeir sem átu brauð þitt, leggja fyrir þig snörur, sem eigi er unnt að sjá.

Já, á þeim degi _ segir Drottinn _ mun ég afmá vitra menn í Edóm og hyggindin á Esaúfjöllum.

Kappar þínir, Teman, skulu skelfast, til þess að hver maður verði upprættur af Esaúfjöllum í manndrápunum.

10 Sökum ofríkis þess, er þú hefir sýnt bróður þínum Jakob, skal smán hylja þig, og þú skalt að eilífu upprættur verða.

11 Þann dag, er þú stóðst andspænis honum, þann dag, er aðkomnir menn fluttu burt fjárafla hans hertekinn og útlendingar brutust inn um borgarhlið hans og urpu hlutkesti um Jerúsalem, varst þú sem einn af þeim.

12 Horf eigi með ánægju á dag bróður þíns, á ógæfudag hans, og gleð þig eigi yfir Júda sonum á eyðingardegi þeirra og lát þér eigi stóryrði um munn fara á neyðardegi þeirra.

13 Ryðst ekki inn um hlið þjóðar minnar á glötunardegi þeirra, horf þú ekki líka með ánægju á óhamingju hennar á glötunardegi hennar og rétt þú ekki út höndina eftir fjárafla hennar á glötunardegi hennar.

14 Nem eigi staðar á vegamótum til þess að drepa niður flóttamenn hennar, og framsel eigi menn hennar, þá er undan komast, á degi neyðarinnar.

15 Því að dagur Drottins er nálægur fyrir allar þjóðir. Eins og þú hefir öðrum gjört, eins skal þér gjört verða; gjörðir þínar skulu þér í koll koma.

16 Því að eins og þér hafið drukkið á mínu heilaga fjalli, svo skulu allar þjóðirnar drekka stöðuglega. Þær skulu drekka og sötra og verða eins og þær aldrei hefðu til verið.

17 En á Síonfjalli skal frelsun verða, og það skal heilagt vera, og Jakobs niðjar skulu fá aftur eignir sínar.

18 Og Jakobs hús mun verða að eldi og Jósefs hús að loga og Esaú hús að hálmi, og þeir munu kveikja í og eyða honum, svo að ekkert skal eftir verða af Esaúniðjum, því að Drottinn hefir talað það.

19 Sunnlendingar skulu taka Esaúfjöll til eignar og Sléttumenn Filisteu. Þeir munu og taka Efraímsland og Samaríuland til eignar, og Benjamín Gíleað.

20 Þeir af Ísraelsmönnum, er teknir hafa verið í vígi þessu og fluttir burt hernumdir, munu taka það til eignar, sem Kanaanítar eiga, allt til Sarefta, og þeir sem fluttir hafa verið burt hernumdir frá Jerúsalem, þeir sem eru í Sefarad, munu taka til eignar borgir Suðurlandsins.

Og fimmti engillinn básúnaði. Þá sá ég stjörnu, er fallið hafði af himni ofan á jörðina, og henni var fenginn lykillinn að brunni undirdjúpsins.

Og hún lauk upp brunni undirdjúpsins, og reyk lagði upp af brunninum eins og reyk frá stórum ofni. Og sólin myrkvaðist og loftið af reyknum úr brunninum.

Út úr reyknum komu engisprettur á jörðina og þær fengu sama mátt og sporðdrekar jarðarinnar.

Og sagt var við þær, að eigi skyldu þær granda grasi jarðarinnar né nokkrum grænum gróðri né nokkru tré, engu nema mönnunum, þeim er eigi hafa innsigli Guðs á ennum sér.

Og þeim var svo um boðið, að þær skyldu eigi deyða þá, heldur skyldu þeir kvaldir verða í fimm mánuði. Undan þeim svíður eins og undan sporðdreka, er hann stingur mann.

Á þeim dögum munu mennirnir leita dauðans og ekki finna hann. Menn munu æskja sér að deyja, en dauðinn flýr þá.

Og ásýndum voru engispretturnar svipaðar hestum, búnum til bardaga, og á höfðum þeirra voru eins og kórónur úr gulli, og ásjónur þeirra voru sem ásjónur manna.

Þær höfðu hár sem hár kvenna, og tennur þeirra voru eins og ljónstennur.

Þær höfðu brjósthlífar eins og járnbrynjur, og vængjaþyturinn frá þeim var eins og vagnagnýr, þegar margir hestar bruna fram til bardaga.

10 Þær hafa hala og brodda eins og sporðdrekar. Og í hölum þeirra er máttur þeirra til að skaða menn í fimm mánuði.

11 Konung hafa þær yfir sér, engil undirdjúpsins. Nafn hans er á hebresku Abaddón og á grísku heitir hann Apollýón.

12 Veiið hið fyrsta er liðið hjá. Sjá, enn koma tvö vei eftir þetta.

13 Og sjötti engillinn básúnaði. Þá heyrði ég rödd eina frá hornunum á gullaltarinu, sem er frammi fyrir Guði.

14 Og röddin sagði við sjötta engilinn, sem hélt á básúnunni: "Leys þú englana fjóra, sem bundnir eru við fljótið mikla, Efrat."

15 Og englarnir fjórir voru leystir, sem búnir stóðu til stundar þessarar, dags þessa, mánaðar þessa og árs þessa, til þess að deyða þriðjung mannanna.

16 Og talan á herfylkingum riddaraliðsins var tveim sinnum tíu þúsundir tíu þúsunda. Ég heyrði tölu þeirra.

17 Og með þessum hætti sá ég hestana í sýninni og þá sem á þeim sátu: Þeir höfðu eldrauðar, svartbláar og brennisteinsgular brynjur, og höfuð hestanna voru eins og höfuð ljóna. Af munnum þeirra gekk út eldur, reykur og brennisteinn.

18 Í þessum þremur plágum varð þriðji hluti mannanna deyddur, af eldinum, reyknum og brennisteininum, sem út gekk af munnum þeirra.

19 Því að vald hestanna er í munni þeirra og í töglum þeirra, því að tögl þeirra eru lík höggormum. Eru höfuð á, og með þeim granda þeir.

20 Og hinir mennirnir, sem ekki voru deyddir í þessum plágum, gjörðu eigi iðrun og sneru sér eigi frá handaverkum sínum og vildu ekki hætta að tilbiðja illu andana og skurðgoðin úr gulli, silfri, eiri, steini og tré, sem hvorki geta séð, heyrt né gengið.

21 Og eigi gjörðu þeir iðrun né létu af manndrápum sínum og töfrum, frillulífi sínu og þjófnaði.