Add parallel Print Page Options

23 Þá mælti Bíleam við Balak: "Gjör þú mér hér sjö ölturu og fá mér hingað sjö uxa og sjö hrúta."

Og Balak gjörði sem Bíleam sagði, og Balak og Bíleam fórnuðu uxa og hrút á altari hverju.

Bíleam sagði við Balak: "Statt þú hér hjá brennifórn þinni, ég ætla að ganga burt. Vera má að Drottinn kunni að koma til móts við mig, en hvað sem hann birtir mér, skal ég tjá þér." Fór hann þá upp á skóglausa hæð.

Og Guð kom til móts við Bíleam, og Bíleam sagði við hann: "Ég hefi búið sjö ölturu og fórnað uxa og hrút á hverju altari."

Drottinn lagði þá Bíleam orð í munn og sagði: "Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér."

Fór hann þá aftur til hans. Og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og allir höfðingjar Móabs með honum.

Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Til Mesópótamíu lét Balak sækja mig, konungur Móabs, til hinna austlægu fjalla. "Kom þú, bölva Jakob fyrir mig, kom þú, formæl Ísrael!"

Hvernig má ég biðja bölbæna þeim, er Guð eigi biður bölbæna, og hvernig má ég formæla þeim, er Drottinn eigi formælir?

Af fjallstindinum sé ég hann, og af hæðunum lít ég hann. Hann er þjóðflokkur, sem býr einn sér og telur sig eigi meðal hinna þjóðanna.

10 Hver mun telja mega duft Jakobs, og hver mun fá tölu komið á fjöld Ísraels? Deyi önd mín dauða réttlátra og verði endalok mín sem þeirra.

11 Þá sagði Balak við Bíleam: "Hvað hefir þú gjört mér? Ég fékk þig til þess að biðja óvinum mínum bölbæna, og sjá, þú hefir margblessað þá."

12 En Bíleam svaraði og sagði: "Hvort hlýt ég eigi að mæla það eitt, er Drottinn leggur mér í munn?"

13 Þá sagði Balak við Bíleam: "Kom með mér á annan stað, þar er þú mátt sjá þá, _ þó munt þú aðeins fá séð ysta hluta þeirra, alla munt þú eigi sjá þá, _ og bið þeim þar bölbæna fyrir mig."

14 Og hann tók hann með sér upp á Njósnarvöll, upp á Pisgatind, og reisti þar sjö ölturu og fórnaði.

15 Þá mælti Bíleam við Balak: "Statt þú hér hjá brennifórn þinni, meðan ég fer þangað til móts við Guð."

16 Drottinn kom til móts við Bíleam og lagði honum orð í munn og sagði: "Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér."

17 Gekk hann þá til hans, og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og höfðingjar Móabs með honum. Og Balak mælti við hann: "Hvað sagði Drottinn?"

18 Flutti Bíleam þá kvæði sitt og mælti: Rís þú upp, Balak, og hlýð á! Hlusta þú á mig, Sippórs sonur!

19 Guð er ekki maður, að hann ljúgi, né sonur manns, að hann sjái sig um hönd. Skyldi hann segja nokkuð og gjöra það eigi, tala nokkuð og efna það eigi?

20 Sjá, að blessa var mér falið, fyrir því blessa ég og tek það eigi aftur.

21 Eigi sést óheill með Jakob, né heldur má mein líta með Ísrael. Drottinn, Guð hans, er með honum, og konungsfögnuður er hjá honum.

22 Sá Guð, sem leiddi þá af Egyptalandi, er honum sem horn vísundarins.

23 Því að eigi er galdur með Jakob né fjölkynngi með Ísrael. Nú verður það eitt sagt um Jakob og Ísrael: Hversu mikla hluti hefir Guð gjört!

24 Hann er þjóðflokkur, sem rís upp eins og ljónynja og reisir sig sem ljón, hann leggst ekki niður fyrr en hann hefir etið bráð og drukkið blóð veginna manna.

25 Þá sagði Balak við Bíleam: "Þú skalt hvorki biðja honum bölbæna né blessa hann."

26 En Bíleam svaraði og sagði við Balak: "Hefi ég ekki sagt þér: ,Allt það, sem Drottinn býður, það mun ég gjöra`?"

27 Þá mælti Balak við Bíleam: "Kom þú, ég vil fara með þig á annan stað. Vera má að Guði þóknist, að þú biðjir þeim þar bölbæna fyrir mig."

28 Tók Balak þá Bíleam með sér upp á Peórtind, sem mænir yfir öræfin.

29 Þá mælti Bíleam við Balak: "Gjör þú mér hér sjö ölturu og fá mér hingað sjö uxa og sjö hrúta."

30 Og Balak gjörði sem Bíleam mælti og fórnaði uxa og hrút á altari hverju.

24 Þegar Bíleam sá, að það var gott í augum Guðs að blessa Ísrael, gekk hann ekki burt eins og í fyrri skiptin til að leita spáfrétta, heldur hélt á leið til eyðimerkurinnar.

Og er Bíleam hóf upp augu sín og sá Ísrael, þar sem hann lá í herbúðum eftir kynkvíslum sínum, kom andi Guðs yfir hann.

Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Svo mælir Bíleam Beórsson, svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun.

Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs, sem sér sýn Hins Almáttuga, hnígandi niður og með upp loknum augum:

Hve fögur eru tjöld þín, Jakob! bústaðir þínir, Ísrael!

Eins og víðir árdalir, eins og aldingarðar á fljótsbökkum, eins og alóetré, er Drottinn hefir gróðursett, eins og sedrustré við vötn.

Vatn rennur úr skjólum hans, og sáð hans hefir nægt vatn. Konungur hans mun meiri verða en Agag, og konungdómur hans mun verða vegsamlegur.

Sá Guð, sem leiddi hann af Egyptalandi, er honum sem horn vísundarins. Hann upp etur óvinaþjóðir, og bein þeirra brýtur hann og nístir þá með örvum sínum.

Hann leggst niður, hvílist sem ljón og sem ljónynja, _ hver þorir að reka hann á fætur? Blessaður sé hver sá, sem blessar þig, en bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér.

10 Balak reiddist þá Bíleam mjög og barði saman hnefunum og sagði við Bíleam: "Til þess að biðja bölbæna óvinum mínum kallaði ég þig, en sjá, þú hefir nú blessað þá þrem sinnum.

11 Far þú því sem skjótast heim til þín! Ég hugðist veita þér mikla sæmd, en sjá, Drottinn hefir svipt þig þeirri sæmd."

12 Þá sagði Bíleam við Balak: "Mælti ég eigi þegar við sendimenn þá, er þú gjörðir til mín, þessum orðum:

13 ,Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins til þess að gjöra gott eða illt eftir hugþótta mínum. Það sem Drottinn mælir, það mun ég mæla`?

14 Og sjá, nú fer ég til minnar þjóðar. Kom, ég vil segja þér fyrir, hvað þessi þjóð mun gjöra þinni þjóð á komandi tímum."

15 Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Svo mælir Bíleam Beórsson, svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun.

16 Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs og þekkir ráð hins hæsta, sem sér sýn Hins Almáttuga, hnígandi niður og með upp loknum augum:

17 Ég sé hann, þó eigi nú, ég lít hann, þó eigi í nánd. Stjarna rennur upp af Jakob, og veldissproti rís af Ísrael. Hann lýstur sundur þunnvangann á Móab og hvirfilinn á öllum hávaðamönnum.

18 Og Edóm mun verða þegnland og Seír mun verða þegnland _ þessir óvinir hans, en Ísrael eykur vald sitt.

19 Frá Jakob mun drottnari koma og eyða flóttamönnum í borgunum.

20 En er hann leit Amalekíta, flutti hann kvæði sitt og mælti: Fremstur af þjóðunum er Amalek, en að lyktum hnígur hann í valinn.

21 Og er hann leit Keníta, flutti hann kvæði sitt og mælti: Traustur er bústaður þinn, og hreiður þitt er byggt á kletti.

22 Og þó er Kain eyðingin vís. Brátt mun Assúr flytja þig burt hernuminn.

23 Og hann flutti kvæði sitt og mælti: Vei, hver mun fá lífi haldið, er Guð lætur þetta að bera!

24 Og skip koma vestan frá Kýpur, og þau lægja Assúr og þau lægja Eber. En hann mun og hníga í valinn.

25 Síðan tók Bíleam sig upp, hélt af stað og hvarf aftur heimleiðis, og Balak fór einnig leiðar sinnar.

25 Meðan Ísrael dvaldi í Sittím, tók lýðurinn að drýgja hór með Móabs dætrum.

Buðu þær lýðnum til fórnarmáltíða goða sinna, og lýðurinn át og tilbað goð þeirra.

Og Ísrael hafði mök við Baal Peór. Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísrael.

Drottinn sagði við Móse: "Tak með þér alla höfðingja lýðsins og líflát þá úti undir berum himni fyrir Drottni, svo að hin ákafa reiði Drottins hverfi í brott frá Ísrael."

Móse sagði þá við dómarana í Ísrael: "Drepi nú hver um sig þá af sínum mönnum, er mök hafa haft við Baal Peór."

Sjá, einn af Ísraelsmönnum kom og hafði með sér midíanska konu til bræðra sinna í augsýn Móse og alls safnaðar Ísraelsmanna, er þeir voru grátandi fyrir dyrum samfundatjaldsins.

En er Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar prests, sá það, gekk hann fram úr söfnuðinum og tók spjót í hönd sér.

Fór hann á eftir Ísraelsmanninum inn í svefnhýsið og lagði þau bæði í gegn, Ísraelsmanninn og konuna, gegnum kviðinn. Staðnaði þá plágan meðal Ísraelsmanna.

En þeir sem dóu í plágunni, voru tuttugu og fjórar þúsundir.

10 Drottinn talaði við Móse og sagði:

11 "Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar prests, hefir bægt reiði minni frá Ísraelsmönnum með því að vandlæta meðal þeirra með mínu vandlæti. Hefi ég því eigi gjöreytt Ísraelsmönnum í vandlæti mínu.

12 Seg því: ,Sjá, ég gef honum minn friðarsáttmála.

13 Hann og niðjar hans eftir hann skulu hljóta sáttmála ævarandi prestdóms fyrir það, að hann vandlætti vegna Guðs síns og friðþægði fyrir Ísraelsmenn."`

14 Hinn vegni Ísraelsmaður, sá er veginn var ásamt midíönsku konunni, hét Simrí Salúson. Var hann höfðingi eins ættleggs meðal Símeoníta.

15 Og midíanska konan, sem vegin var, hét Kosbí Súrsdóttir, en hann var höfðingi yfir ættstofni einum í Midían.

16 Og Drottinn talaði við Móse og sagði: "Kreppið að Midíansmönnum og fellið þá,

18 því að þeir hafa komið yður í krappan stað með brögðum þeim, er þeir beittu yður, bæði að því er snertir dýrkun Peórs og systur þeirra, Kosbí, dóttur midíanska höfðingjans, hennar sem vegin var, þá er plágan reið yfir sökum dýrkunar Peórs."

14 Aftur kallaði hann til sín mannfjöldann og sagði: "Heyrið mig allir, og skiljið.

15 Ekkert er það utan mannsins, er saurgi hann, þótt inn í hann fari. Hitt saurgar manninn, sem út frá honum fer." [

16 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!]

17 Þegar hann var kominn inn frá fólkinu, spurðu lærisveinar hans hann um líkinguna.

18 Og hann segir við þá: "Eruð þér einnig svo skilningslausir? Skiljið þér eigi, að ekkert, sem fer inn í manninn utan frá, getur saurgað hann?

19 Því að ekki fer það inn í hjarta hans, heldur maga og út síðan í safnþróna." Þannig lýsti hann alla fæðu hreina.

20 Og hann sagði: "Það sem fer út frá manninum, það saurgar manninn.

21 Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp,

22 hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska.

23 Allt þetta illa kemur innan að og saurgar manninn."

24 Hann tók sig upp þaðan og hélt til byggða Týrusar. Þar fór hann inn í hús og vildi engan láta vita. En eigi fékk hann dulist.

25 Kona ein frétti þegar af honum og kom og féll honum til fóta, en dóttir hennar hafði óhreinan anda.

26 Konan var heiðin, ættuð úr Fönikíu sýrlensku. Hún bað hann að reka illa andann út af dóttur sinni.

27 Hann sagði við hana: "Lofaðu börnunum að seðjast fyrst, ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."

28 Hún svaraði honum: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir undir borðinu af molum barnanna."

29 Og hann sagði við hana: "Vegna þessara orða skaltu heim snúa, illi andinn er farinn úr dóttur þinni."

30 Hún fór heim, fann barnið liggjandi á rúminu, og illi andinn var farinn.

31 Síðan hélt hann úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns.

32 Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann.

33 Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu.

34 Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: "Effaþa," það er: Opnist þú.

35 Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt.

36 Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum, en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því.

37 Menn undruðust næsta mjög og sögðu: "Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla."

Read full chapter