Add parallel Print Page Options

Þá er Sanballat heyrði, að vér værum að endurreisa múrinn, varð hann reiður og gramdist honum það mjög. Og hann gjörði gys að Gyðingum

og talaði í áheyrn bræðra sinna og herliðs Samaríu og mælti: "Hvað hafa Gyðingarnir fyrir stafni, þeir vesalingar? Skyldu þeir hætta við það aftur? Munu þeir fórna? Ætli þeir ljúki við það í dag? Munu þeir gjöra steinana í rústahaugunum lifandi, þar sem þeir þó eru brunnir?"

Og Tobía Ammóníti stóð hjá honum og mælti: "Hvað sem þeir nú eru að byggja _ ef refur stigi á það, þá mundi steinveggur þeirra hrynja undan honum!"

Heyr, Guð vor, hversu vér erum smánaðir! Lát háð þeirra koma þeim sjálfum í koll og framsel þá til ráns hernumda í öðru landi.

Hyl eigi misgjörð þeirra, og synd þeirra afmáist aldrei fyrir augliti þínu, því að þeir hafa egnt þig til reiði í augsýn þeirra, sem eru að byggja.

En vér héldum áfram að byggja múrinn og allur múrinn varð fullgjör upp að miðju, og hafði lýðurinn áhuga á verkinu.

En er Sanballat og Tobía og Arabar og Ammónítar og Asdódmenn heyrðu, að farið væri að gjöra við múra Jerúsalem, að skörðin væru tekin að fyllast, urðu þeir mjög reiðir.

Og þeir tóku sig allir saman um að koma og herja á Jerúsalem og gjöra þar spell.

En vér gjörðum bæn vora til Guðs vors og settum vörð gegn þeim bæði dag og nótt af ótta fyrir þeim.

10 En Gyðingar sögðu: "Burðarmennirnir gefast upp og rústirnar eru miklar og þá getum vér ekki byggt múrinn."

11 En mótstöðumenn vorir hugsuðu: "Þeir skulu ekkert vita og einskis varir verða, fyrr en vér ráðumst á þá og brytjum þá niður og gjörum enda á verkinu."

12 En er Gyðingar þeir, sem bjuggu í grennd við þá, komu og sögðu við oss sjálfsagt tíu sinnum, úr öllum áttum: "Þér verðið að koma til vor!"

13 þá lét ég staðar nema á lægstu stöðunum bak við múrinn, á sólbrunnu stöðunum, þar lét ég lýðinn nema staðar eftir ættum, með sverðum sínum, lensum og bogum.

14 Og ég litaðist um, reis upp og sagði við tignarmennina og yfirmennina og hitt fólkið: "Eigi skuluð þér óttast þá. En minnist Drottins, hins mikla og ógurlega, og berjist fyrir bræður yðar, sonu yðar, dætur yðar, konur yðar og hús yðar."

15 En er óvinir vorir heyrðu, að vér værum orðnir þess vísir og að Guð hefði ónýtt ráðagjörð þeirra, þá gátum vér allir snúið aftur að múrnum, hver til sinnar vinnu.

16 En frá þeim degi vann aðeins helmingur sveina minna að verkinu. Hinn helmingur þeirra hélt á lensunum, skjöldunum, bogunum og pönsurunum, en foringjarnir stóðu bak við alla Júdamenn, þá er voru að byggja upp múrinn.

17 En burðarmennirnir voru búnir til bardaga. Með annarri hendinni unnu þeir að verkinu, en með hinni héldu þeir á skotspjótinu.

18 Og þeir sem hlóðu voru allir gyrtir sverði um lendar sér og hlóðu þannig, en lúðursveinninn stóð hjá mér.

19 Og ég sagði við tignarmennina og yfirmennina og aðra af lýðnum: "Verkið er stórt og umfangsmikið, og vér erum tvístraðir á múrnum, langt í burtu hver frá öðrum.

20 Þar sem þér heyrið lúðurhljóminn, þangað skuluð þér safnast til vor. Guð vor mun berjast fyrir oss."

21 Þannig unnum vér að verkinu, en helmingur þeirra hélt á lensunum, frá því er morgunroðinn færðist upp á himininn og þar til er stjörnurnar komu fram.

22 Þá sagði ég og við lýðinn: "Allir skulu vera í Jerúsalem á næturnar, ásamt sveinum sínum, til þess að þeir séu vörður fyrir oss á nóttunni, en vinni að verkinu á daginn."

23 En ég og bræður mínir og sveinar mínir og varðmennirnir, er fylgdu mér, vér fórum aldrei af klæðum, og sérhver hafði skotspjót sitt við hægri hlið sér.

En það varð mikið kvein meðal lýðsins og meðal kvenna þeirra yfir bræðrum þeirra, Gyðingunum.

Sumir sögðu: "Sonu vora og dætur verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn, svo að vér megum eta og lífi halda."

Og aðrir sögðu: "Akra vora, víngarða og hús verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn í hallærinu!"

Og enn aðrir sögðu: "Vér höfum tekið fé að láni upp á akra vora og víngarða í konungsskattinn.

Og þótt hold vort sé eins og hold bræðra vorra, börn vor eins og börn þeirra, þá verðum vér nú að gjöra sonu vora og dætur að ánauðugum þrælum, og sumar af dætrum vorum eru þegar orðnar ánauðugar, og vér getum ekkert við því gjört, þar eð akrar vorir og víngarðar eru á annarra valdi."

Þá varð ég mjög reiður, er ég heyrði kvein þeirra og þessi ummæli.

Og ég hugleiddi þetta með sjálfum mér og taldi á tignarmennina og yfirmennina og sagði við þá: "Þér beitið okri hver við annan!" Og ég stefndi mikið þing í móti þeim

og sagði við þá: "Vér höfum keypt lausa bræður vora, Gyðingana, sem seldir voru heiðingjunum, svo oft sem oss var unnt, en þér ætlið jafnvel að selja bræður yðar, svo að þeir verði seldir oss." Þá þögðu þeir og gátu engu svarað.

Og ég sagði: "Það er ekki fallegt, sem þér eruð að gjöra. Ættuð þér ekki heldur að ganga í ótta Guðs vors vegna smánaryrða heiðingjanna, óvina vorra?

10 Bæði ég og bræður mínir og sveinar mínir höfum líka lánað þeim silfur og korn. Vér skulum því láta þessa skuldakröfu niður falla.

11 Gjörið það fyrir mig að skila þeim aftur þegar í dag ökrum þeirra og víngörðum þeirra og olífugörðum þeirra og húsum þeirra, og látið niður falla skuldakröfuna um silfrið og kornið, um vínberjalöginn og olíuna, er þér hafið lánað þeim."

12 Þá sögðu þeir: "Vér viljum skila því aftur og einskis krefjast af þeim. Vér viljum gjöra sem þú segir." Þá kallaði ég á prestana og lét þá vinna eið að því, að þeir skyldu fara eftir þessu.

13 Ég hristi og skikkjubarm minn og sagði: "Þannig hristi Guð sérhvern þann, er eigi heldur þetta loforð, burt úr húsi hans og frá eign hans, og þannig verði hann gjörhristur og tæmdur." Og allur þingheimur sagði: "Svo skal vera!" Og þeir vegsömuðu Drottin. Og lýðurinn breytti samkvæmt þessu.

14 Frá þeim degi, er hann setti mig til að vera landstjóri þeirra, í Júda _ frá tuttugasta ríkisári Artahsasta konungs til þrítugasta og annars ríkisárs hans, tólf ár _ naut ég heldur ekki, né bræður mínir, landstjóra-borðeyrisins.

15 En hinir fyrri landstjórar, þeir er á undan mér voru, höfðu kúgað lýðinn og tekið af þeim fjörutíu sikla silfurs á dag fyrir brauði og víni. Auk þess höfðu sveinar þeirra drottnað yfir lýðnum. En ekki breytti ég þannig, því að ég óttaðist Guð.

16 Ég vann og að byggingu þessa múrs, og höfðum vér þó ekki keypt neinn akur, og allir sveinar mínir voru þar saman safnaðir að byggingunni.

17 En Gyðingar og yfirmennirnir, hundrað og fimmtíu að tölu, svo og þeir er komu til mín frá þjóðunum, er bjuggu umhverfis oss, átu við mitt borð.

18 Og það sem matreitt var á hverjum degi _ eitt naut, sex úrvals-kindur og fuglar _, það var matreitt á minn kostnað, og tíunda hvern dag nægtir af alls konar víni. En þrátt fyrir þetta krafðist ég ekki landstjóra-borðeyris, því að lýður þessi var í mikilli ánauð.

19 Virstu, Guð minn, að muna mér til góðs allt það, sem ég hefi gjört fyrir þennan lýð.

Þegar þeir Sanballat, Tobía og Gesem hinn arabíski og aðrir óvinir vorir spurðu það, að ég hefði byggt upp múrinn og að ekkert skarð væri framar í hann, þótt ég þá hefði eigi enn sett hurðir í hliðin,

þá sendu þeir Sanballat og Gesem til mín og létu segja mér: "Kom þú, svo að vér megum eiga fund með oss í einhverju af þorpunum í Ónódalnum." En þeir höfðu í hyggju að gjöra mér illt.

Þá gjörði ég menn til þeirra og lét segja þeim: "Ég hefi mikið starf með höndum og get því eigi komið ofan eftir. Hví ætti verkið að bíða, af því að ég yfirgæfi það og færi ofan til ykkar?"

Fjórum sinnum sendu þeir til mín á þennan hátt, og ég svaraði þeim á sömu leið.

Þá sendi Sanballat enn í fimmta sinn til mín, og það svein sinn með opið bréf í hendi.

Í því var ritað: "Sú saga gengur hjá þjóðunum, og Gasmú segir hið sama, að þú og Gyðingar hyggið á uppreisn _ fyrir því sért þú að byggja upp múrinn _ og þú ætlir að verða konungur þeirra, eins og sjá megi á öllu.

Þú hefir og sett spámenn til þess að gjöra það hljóðbært um þig í Jerúsalem og segja: ,Hann sé konungur í Júda.` Og nú mun slíkur orðrómur berast konungi til eyrna. Kom því, og skulum vér eiga fund með oss."

Þá sendi ég til hans og lét segja honum: "Ekkert slíkt á sér stað, sem þú talar um, heldur hefir þú spunnið það upp frá eigin brjósti."

Því að þeir ætluðu allir að gjöra oss hrædda og hugsuðu: "Þeim munu fallast hendur og hætta við verkið, svo að því verður eigi lokið." Styrk því nú hendur mínar!

10 Og ég gekk inn í hús Semaja Delajasonar, Mehetabeelssonar, en hann hafði lokað sig inni. Hann sagði: "Við skulum fara saman inn í musteri Guðs, inn í aðalhúsið, og loka síðan dyrum aðalhússins, því að þeir munu koma til að drepa þig, já, um nótt munu þeir koma til að drepa þig."

11 En ég sagði: "Ætti slíkur maður sem ég að flýja? Og hver er sá minn líki, sem geti farið inn í aðalhúsið og haldið lífi? Ég fer hvergi."

12 Og ég sá, að Guð hafði ekki sent hann, heldur hafði hann spáð mér þessu, af því að Tobía og Sanballat höfðu keypt hann.

13 Til þess var hann keyptur, að ég skyldi verða hræddur og gjöra þetta og drýgja synd. Og það hefði orðið þeim tilefni til ills umtals, til þess að þeir gætu ófrægt mig.

14 Mundu, Guð minn, þeim Tobía og Sanballat þessar aðgjörðir þeirra, svo og spákonunni Nóadja og hinum spámönnunum, sem ætluðu að hræða mig.

15 Og múrinn var fullgjör hinn tuttugasta og fimmta elúlmánaðar, á fimmtíu og tveim dögum.

16 Og er allir óvinir vorir spurðu þetta, urðu allar þjóðirnar, sem bjuggu umhverfis oss, hræddar, og þær lækkuðu mjög í eigin áliti, því að þær könnuðust við, að fyrir hjálp Guðs vors hafði verki þessu orðið lokið.

17 Í þann tíð rituðu og tignarmenn Júdalýðs mörg bréf og sendu Tobía, og frá Tobía komu líka bréf til þeirra.

18 Því að margir í Júda voru bundnir honum með eiði, því að hann var tengdasonur Sekanja Arasonar, og Jóhanan sonur hans hafði gengið að eiga dóttur Mesúllams Berekíasonar.

19 Þeir töluðu og um mannkosti hans við mig og báru honum aftur orð mín. Bréf hafði og Tobía sent til þess að hræða mig.