Add parallel Print Page Options

Og það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu lýðirnir streyma.

Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: "Komið, förum upp á fjall Drottins og til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum." Því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem.

Og hann mun dæma meðal margra lýða og skera úr málum voldugra þjóða langt í burtu. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.

Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá. Því að munnur Drottins allsherjar hefir talað það.

Því að allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs, en vér göngum í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega.

Á þeim degi _ segir Drottinn _ vil ég saman safna því halta og smala saman því tvístraða og þeim er ég hefi tjón unnið,

og ég vil gjöra hið halta að nýjum kynstofni og hið burtflæmda að voldugri þjóð. Og Drottinn sjálfur mun verða konungur yfir þeim á Síonfjalli héðan í frá og að eilífu.

En þú, varðturn hjarðmannsins, hæð dótturinnar Síon, til þín mun koma og aftur til þín hverfa hið forna veldi, konungdómur dótturinnar Jerúsalem.

Nú, hví hljóðar þú svo hástöfum? Hefir þú engan konung, eða er ráðgjafi þinn horfinn, úr því að kvalir grípa þig eins og jóðsjúka konu?

10 Fá þú hríðir og hljóða þú, dóttirin Síon, eins og jóðsjúk kona. Því að nú verður þú að fara út úr borginni og búa á víðavangi og fara alla leið til Babýlon. Þar munt þú frelsuð verða, þar mun Drottinn leysa þig undan valdi óvina þinna.

11 En nú hafa margar þjóðir safnast í móti þér, þær er segja: "Verði hún vanhelguð, svo að vér megum horfa hlakkandi á Síon!"

12 En þær þekkja ekki hugsanir Drottins og skilja ekki ráðsályktun hans, að hann hefir safnað þeim saman eins og kerfum á kornláfa.

13 Rís upp og þresk, dóttirin Síon, því að ég gjöri þér horn af járni og klaufir af eiri, svo að þú skalt sundur merja margar þjóðir. Og þú munt helga Drottni ránsfeng þeirra og fjárafla þeirra honum, sem er Drottinn allrar jarðarinnar.

14 Gjör nú skinnsprettur á hold þitt. Hervirki hefir hann gjört í móti oss. Með sprotanum munu þeir ljósta dómara Ísraels á kinnina.

Og þú, Betlehem Efrata, þótt þú sért einna minnst af héraðsborgunum í Júda, þá skal þó frá þér koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael, og ætterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum.

Fyrir því mun Guð yfirgefa þá til þess tíma, er sú hefir fætt, er fæða skal, en þá munu leifar ættbræðra hans hverfa aftur til Ísraelsmanna.

Þá mun hann standa og halda þeim til haga í krafti Drottins, í hinu tignarlega nafni Drottins Guðs síns, og þeir skulu óhultir búa, því að þá skal hann mikill vera til endimarka jarðar.

Og þessi mun friðurinn vera: Brjótist Assýringar inn í land vort og stígi þeir fæti á ættjörð vora, þá munum vér senda í móti þeim sjö hirða og átta þjóðhöfðingja,

og þeir munu herja land Assýringa með sverði og land Nimrods með brugðnum brandi. Og þannig mun hann frelsa oss frá Assýringum, er þeir brjótast inn í land vort og stíga fæti á fold vora.

Leifar Jakobs meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, munu vera sem dögg frá Drottni, sem regndropar á grasi, þeir er bíða ekki eftir neinum og vænta ekki neins af mannanna börnum.

Og leifar Jakobs meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, munu vera sem ljón meðal skógardýra, sem ljónshvolpur í sauðahjörð, sá er niður treður þar sem hann veður yfir og sundur rífur, án þess að nokkur fái bjargað.

Armleggur þinn mun hrósa sigri yfir mótstöðumönnum þínum og allir óvinir þínir munu afmáðir verða.

Á þeim degi _ segir Drottinn _ vil ég eyða öllum þeim víghestum, sem þú átt í landinu, og gjöra að engu hervagna þína,

10 ég vil eyða borgum lands þíns og rífa niður öll virki þín,

11 ég vil eyða öllum töfrum hjá þér, og spásagnamenn skulu eigi framar hjá þér vera.

12 Ég vil eyða skurðmyndum þínum og merkissteinum, þeim er hjá þér eru, og þú skalt ekki framar falla fram fyrir verkum handa þinna.

13 Ég vil brjóta niður asérur þínar og eyðileggja guðalíkneski þín,

14 og ég vil með reiði og gremi hefnast á þjóðunum, er eigi hafa hlýðnast.

12 Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar, og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum.

Hún var þunguð, og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum.

Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður, er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn.

Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt.

Hún fæddi son, sveinbarn, sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans.

En konan flýði út á eyðimörkina, þar sem Guð hefur búið henni stað og þar sem séð verður fyrir þörfum hennar í eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga.

Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans,

en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni.

Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.

10 Og ég heyrði mikla rödd á himni segja: "Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt.

11 Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.

12 Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma."

13 Og er drekinn sá að honum var varpað niður á jörðina, ofsótti hann konuna, sem alið hafði sveinbarnið.

14 Og konunni voru gefnir vængirnir tveir af erninum mikla, til þess að hún skyldi fljúga á eyðimörkina til síns staðar, þar sem séð verður fyrir þörfum hennar þrjú og hálft ár, fjarri augsýn höggormsins.

15 Og höggormurinn spjó vatni úr munni sér á eftir konunni, eins og flóði, til þess að hún bærist burt af straumnum.

16 En jörðin kom konunni til hjálpar, og jörðin opnaði munn sinn og svalg vatnsflóðið, sem drekinn spjó úr munni sér.

17 Þá reiddist drekinn konunni og fór burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur hennar, þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.

18 Og hann nam staðar á sandinum við sjóinn.