Add parallel Print Page Options

Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams.

Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans.

Júda gat Peres og Sara við Tamar, Peres gat Esrom, Esrom gat Ram,

Ram gat Ammínadab, Ammínadab gat Nakson, Nakson gat Salmon,

Salmon gat Bóas við Rahab, og Bóas gat Óbeð við Rut. Óbeð gat Ísaí,

og Ísaí gat Davíð konung. Davíð gat Salómon við konu Úría,

Salómon gat Róbóam, Róbóam gat Abía, Abía gat Asaf,

Asaf gat Jósafat, Jósafat gat Jóram, Jóram gat Ússía,

Ússía gat Jótam, Jótam gat Akas, Akas gat Esekía,

10 Esekía gat Manasse, Manasse gat Amos, Amos gat Jósía.

11 Jósía gat Jekonja og bræður hans á tíma herleiðingarinnar til Babýlonar.

12 Eftir herleiðinguna til Babýlonar gat Jekonja Sealtíel, Sealtíel gat Serúbabel,

13 Serúbabel gat Abíúd, Abíúd gat Eljakím, Eljakím gat Asór,

14 Asór gat Sadók, Sadók gat Akím, Akím gat Elíúd,

15 Elíúd gat Eleasar, Eleasar gat Mattan, Mattan gat Jakob,

16 og Jakob gat Jósef, mann Maríu, en hún ól Jesú, sem kallast Kristur.

17 Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Davíð fram að herleiðingunni til Babýlonar og fjórtán ættliðir frá herleiðingunni til Krists.

18 Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda.

19 Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey.

20 Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: "Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda.

21 Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra."

22 Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins:

23 "Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel," það þýðir: Guð með oss.

24 Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín.

25 Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.

Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi.

Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,

að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð.

En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.

Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.

Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir,

10 en engillinn sagði við þá: "Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum:

11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.

12 Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu."

13 Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

14 Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

15 Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: "Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss."

16 Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu.

17 Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta.

18 Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim.

19 En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það.

20 Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

21 Þegar átta dagar voru liðnir, skyldi umskera hann, og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann, áður en hann var getinn í móðurlífi.

22 En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse, fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, _

23 en svo er ritað í lögmáli Drottins: "Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni," _

24 og til að færa fórn eins og segir í lögmáli Drottins, "tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur."

25 Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels, og yfir honum var heilagur andi.

26 Honum hafði heilagur andi vitrað, að hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins.

27 Hann kom að tillaðan andans í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins,

28 tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:

29 "Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér,

30 því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,

31 sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,

32 ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael."

33 Faðir hans og móðir undruðust það, er sagt var um hann.

34 En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: "Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael og til tákns, sem móti verður mælt,

35 og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar."

36 Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hafði hún lifað sjö ár með manni sínum frá því hún var mær

37 og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi.

38 Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.

Read full chapter