A A A A A
Bible Book List

Matteusarguðspjall 17 Icelandic Bible (ICELAND)

17 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman.

Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós.

Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann.

Pétur tók til máls og sagði við Jesú: "Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."

Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!"

Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög.

Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: "Rísið upp, og óttist ekki."

En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: "Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum."

10 Lærisveinarnir spurðu hann: "Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?"

11 Hann svaraði: "Víst kemur Elía og færir allt í lag.

12 En ég segi yður: Elía er þegar kominn, og menn þekktu hann ekki, heldur gjörðu honum allt sem þeir vildu. Eins mun og Mannssonurinn píslir þola af hendi þeirra."

13 Þá skildu lærisveinarnir, að hann hafði talað við þá um Jóhannes skírara.

14 Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum

15 og sagði: "Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn.

16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann."

17 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín."

18 Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu.

19 Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: "Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?"

20 Hann svaraði þeim: "Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. [

21 En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]"

22 Þegar þeir voru saman í Galíleu, sagði Jesús við þá: "Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur,

23 og þeir munu lífláta hann, en á þriðja degi mun hann upp rísa." Þeir urðu mjög hryggir.

24 Þá er þeir komu til Kapernaum, gengu menn þeir, sem heimta inn musterisgjaldið, til Péturs og spurðu: "Geldur meistari yðar eigi musterisgjaldið?"

25 Hann kvað svo vera. En er hann kom inn, tók Jesús fyrr til máls og mælti: "Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?"

26 "Af vandalausum," sagði Pétur. Jesús mælti: "Þá eru börnin frjáls.

27 En til þess vér hneykslum þá ekki, skaltu fara niður að vatni og renna öngli, taktu síðan fyrsta fiskinn, sem þú dregur, opna munn hans og muntu finna pening. Tak hann og greið þeim fyrir mig og þig."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Markúsarguðspjall 9 Icelandic Bible (ICELAND)

Og hann sagði við þá: "Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki komið með krafti."

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra,

og klæði hans urðu fannhvít og skínandi, og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört.

Og þeim birtist Elía ásamt Móse, og voru þeir á tali við Jesú.

Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: "Rabbí, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."

Hann vissi ekki, hvað hann átti að segja, enda urðu þeir mjög skelfdir.

Þá kom ský og skyggði yfir þá, og rödd kom úr skýinu: "Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!"

Og snögglega, þegar þeir litu í kring, sáu þeir engan framar hjá sér nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bannaði hann þeim að segja nokkrum frá því, er þeir höfðu séð, fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.

10 Þeir festu orðin í minni og ræddu um, hvað væri að rísa upp frá dauðum.

11 Og þeir spurðu hann: "Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?"

12 Hann svaraði þeim: "Víst kemur Elía fyrst og færir allt í lag. En hvernig er ritað um Mannssoninn? Á hann ekki margt að líða og smáður verða?

13 En ég segi yður: Elía er kominn, og þeir gjörðu honum allt, sem þeir vildu, eins og ritað er um hann."

14 Þegar þeir komu til lærisveinanna, sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá.

15 En um leið og fólkið sá hann, sló þegar felmtri á alla, og þeir hlupu til og heilsuðu honum.

16 Hann spurði þá: "Um hvað eruð þér að þrátta við þá?"

17 En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: "Meistari, ég færði til þín son minn, sem málleysis andi er í.

18 Hvar sem andinn grípur hann, slengir hann honum flötum, og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki."

19 Jesús svarar þeim: "Ó, þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann til mín."

20 Þeir færðu hann þá til Jesú, en um leið og andinn sá hann, teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi.

21 Jesús spurði þá föður hans: "Hve lengi hefur honum liðið svo?" Hann sagði: "Frá bernsku.

22 Og oft hefur hann kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð, þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur."

23 Jesús sagði við hann: "Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir."

24 Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: "Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni."

25 Nú sér Jesús, að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: "Þú dumbi, daufi andi, ég býð þér, far út af honum, og kom aldrei framar í hann."

26 Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór, en sveinninn varð sem nár, svo að flestir sögðu: "Hann er dáinn."

27 En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp, og hann stóð á fætur.

28 Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum, spurðu þeir hann: "Hví gátum vér ekki rekið hann út?"

29 Hann mælti: "Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn."

30 Þeir héldu nú brott þaðan og fóru um Galíleu, en hann vildi ekki, að neinn vissi það,

31 því að hann var að kenna lærisveinum sínum. Hann sagði þeim: "Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur, og þeir munu lífláta hann, en þá er hann hefur líflátinn verið, mun hann upp rísa eftir þrjá daga."

32 En þeir skildu ekki það sem hann sagði og þorðu ekki að spyrja hann.

33 Þeir komu til Kapernaum. Þegar hann var kominn inn, spurði hann þá: "Hvað voruð þér að ræða á leiðinni?"

34 En þeir þögðu. Þeir höfðu verið að ræða það sín á milli á leiðinni, hver væri mestur.

35 Hann settist niður, kallaði á þá tólf og sagði við þá: "Hver sem vill vera fremstur, sé síðastur allra og þjónn allra."

36 Og hann tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá:

37 "Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur ekki aðeins við mér, heldur og við þeim er sendi mig."

38 Jóhannes sagði við hann: "Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgdi oss ekki."

39 Jesús sagði: "Varnið honum þess ekki, því að enginn er sá, að hann gjöri kraftaverk í mínu nafni og geti þegar á eftir talað illa um mig.

40 Sá sem er ekki á móti oss, er með oss.

41 Hver sem gefur yður bikar vatns að drekka, vegna þess að þér eruð Krists, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum.

42 Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn.

43 Ef hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld. [

44 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.]

45 Ef fótur þinn tælir þig til falls, þá sníð hann af. Betra er þér höltum inn að ganga til lífsins en hafa báða fætur og verða kastað í helvíti. [

46 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.]

47 Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en hafa bæði augu og verða kastað í helvíti,

48 þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.

49 Sérhver mun eldi saltast.

50 Saltið er gott, en ef saltið missir seltuna, með hverju viljið þér þá krydda það? Hafið salt í sjálfum yður, og haldið frið yðar á milli."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Lúkasarguðspjall 9:28-62 Icelandic Bible (ICELAND)

28 Svo bar við um átta dögum eftir ræðu þessa, að hann tók með sér þá Pétur, Jóhannes og Jakob og gekk upp á fjallið að biðjast fyrir.

29 Og er hann var að biðjast fyrir, varð yfirlit ásjónu hans annað, og klæði hans urðu hvít og skínandi.

30 Og tveir menn voru á tali við hann. Það voru þeir Móse og Elía.

31 Þeir birtust í dýrð og ræddu um brottför hans, er hann skyldi fullna í Jerúsalem.

32 Þá Pétur og félaga hans sótti mjög svefn, en nú vöknuðu þeir og sáu dýrð hans og mennina tvo, er stóðu hjá honum.

33 Þegar þeir voru að skilja við Jesú, mælti Pétur við hann: "Meistari, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina." Ekki vissi hann, hvað hann sagði.

34 Um leið og hann mælti þetta, kom ský og skyggði yfir þá, og urðu þeir hræddir, er þeir komu inn í skýið.

35 Og rödd kom úr skýinu og sagði: "Þessi er sonur minn, útvalinn, hlýðið á hann!"

36 Er röddin hafði talað, var Jesús einn. Og þeir þögðu og sögðu á þeim dögum engum frá neinu því, sem þeir höfðu séð.

37 Daginn eftir, er þeir fóru ofan af fjallinu, kom mikill mannfjöldi á móti honum.

38 Og maður nokkur úr mannfjöldanum hrópar: "Meistari, ég bið þig að líta á son minn, því að hann er einkabarnið mitt.

39 Það er andi, sem grípur hann, og þá æpir hann skyndilega. Hann teygir hann svo að hann froðufellir, og víkur varla frá honum og er að gjöra út af við hann.

40 Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki."

41 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður og umbera yður? Fær þú hingað son þinn."

42 Þegar hann var að koma, slengdi illi andinn honum flötum og teygði hann ákaflega. En Jesús hastaði á óhreina andann, læknaði sveininn og gaf hann aftur föður hans.

43 Og allir undruðust stórum veldi Guðs. Þá er allir dáðu allt það, er hann gjörði, sagði hann við lærisveina sína:

44 "Festið þessi orð í huga: ,Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur."`

45 En þeir skildu ekki þessi orð, og þetta var þeim hulið, svo að þeir skynjuðu það ekki. Og þeir þorðu ekki að spyrja hann um þetta.

46 Sú spurning kom fram meðal þeirra, hver þeirra væri mestur.

47 Jesús vissi, hvað þeir hugsuðu í hjörtum sínum, og tók lítið barn, setti það hjá sér

48 og sagði við þá: "Hver sem tekur við þessu barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. Því að sá sem minnstur er meðal yðar allra, hann er mestur."

49 Jóhannes tók til máls: "Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgir oss ekki."

50 En Jesús sagði við hann: "Varnið þess ekki. Sá sem er ekki á móti yður, er með yður."

51 Nú fullnaðist brátt sá tími, er hann skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað.

52 Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu.

53 En þeir tóku ekki við honum, því hann var á leið til Jerúsalem.

54 Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það, sögðu þeir: "Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?"

55 En hann sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: "Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð.

56 Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa."] Og þeir fóru í annað þorp.

57 Þegar þeir voru á ferð á veginum, sagði maður nokkur við hann: "Ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð."

58 Jesús sagði við hann: "Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla."

59 Við annan sagði hann: "Fylg þú mér!" Sá mælti: "Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn."

60 Jesús svaraði: "Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki."

61 Enn annar sagði: "Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima."

62 En Jesús sagði við hann: "Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes