A A A A A
Bible Book List

Lúkasarguðspjall 2-3 Icelandic Bible (ICELAND)

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.

Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi.

Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,

að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð.

En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.

Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.

Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir,

10 en engillinn sagði við þá: "Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum:

11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.

12 Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu."

13 Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

14 Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

15 Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: "Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss."

16 Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu.

17 Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta.

18 Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim.

19 En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það.

20 Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

21 Þegar átta dagar voru liðnir, skyldi umskera hann, og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann, áður en hann var getinn í móðurlífi.

22 En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse, fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, _

23 en svo er ritað í lögmáli Drottins: "Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni," _

24 og til að færa fórn eins og segir í lögmáli Drottins, "tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur."

25 Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels, og yfir honum var heilagur andi.

26 Honum hafði heilagur andi vitrað, að hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins.

27 Hann kom að tillaðan andans í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins,

28 tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:

29 "Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér,

30 því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,

31 sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,

32 ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael."

33 Faðir hans og móðir undruðust það, er sagt var um hann.

34 En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: "Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael og til tákns, sem móti verður mælt,

35 og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar."

36 Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hafði hún lifað sjö ár með manni sínum frá því hún var mær

37 og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi.

38 Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.

39 Og er þau höfðu lokið öllu eftir lögmáli Drottins, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret.

40 En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.

41 Foreldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni.

42 Og þegar hann var tólf ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni.

43 Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis, varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem, og vissu foreldrar hans það eigi.

44 Þau hugðu, að hann væri með samferðafólkinu, og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja.

45 En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

46 Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá.

47 En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.

48 Og er þau sáu hann þar, brá þeim mjög, og móðir hans sagði við hann: "Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin."

49 Og hann sagði við þau: "Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?"

50 En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

51 Og hann fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér.

52 Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.

Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene,

í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni.

Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,

eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar lægjast. Krókar skulu verða beinir og óvegir sléttar götur.

Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs.

Við mannfjöldann, sem fór út til að skírast af honum, sagði hann: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?

Berið þá ávexti samboðna iðruninni, og farið ekki að segja með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.

Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað."

10 Mannfjöldinn spurði hann: "Hvað eigum vér þá að gjöra?"

11 En hann svaraði þeim: "Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur."

12 Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: "Meistari, hvað eigum vér að gjöra?"

13 En hann sagði við þá: "Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt."

14 Hermenn spurðu hann einnig: "En hvað eigum vér að gjöra?" Hann sagði við þá: "Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar."

15 Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.

16 En Jóhannes svaraði öllum og sagði: "Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.

17 Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."

18 Með mörgu öðru áminnti hann og flutti lýðnum fagnaðarboðin.

19 Hann vítti Heródes fjórðungsstjóra vegna Heródíasar, konu bróður hans, og fyrir allt hið illa, sem hann hafði gjört.

20 Þá bætti Heródes einnig því ofan á allt annað, að hann varpaði Jóhannesi í fangelsi.

21 Er allur lýðurinn lét skírast, var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist,

22 og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."

23 En Jesús var um þrítugt, er hann hóf starf sitt. Var hann, eftir því sem haldið var, sonur Jósefs, sonar Elí,

24 sonar Mattats, sonar Leví, sonar Melkí, sonar Jannaí, sonar Jósefs,

25 sonar Mattatíass, sonar Amoss, sonar Naúms, sonar Eslí, sonar Naggaí,

26 sonar Maats, sonar Mattatíass, sonar Semeíns, sonar Jóseks, sonar Jóda,

27 sonar Jóhanans, sonar Hresa, sonar Serúbabels, sonar Sealtíels, sonar Nerí,

28 sonar Melkí, sonar Addí, sonar Kósams, sonar Elmadams, sonar Ers,

29 sonar Jesú, sonar Elíesers, sonar Jóríms, sonar Mattats, sonar Leví,

30 sonar Símeons, sonar Júda, sonar Jósefs, sonar Jónams, sonar Eljakíms,

31 sonar Melea, sonar Menna, sonar Mattata, sonar Natans, sonar Davíðs,

32 sonar Ísaí, sonar Óbeðs, sonar Bóasar, sonar Salmons, sonar Naksons,

33 sonar Ammínadabs, sonar Admíns, sonar Arní, sonar Esroms, sonar Peres, sonar Júda,

34 sonar Jakobs, sonar Ísaks, sonar Abrahams, sonar Tara, sonar Nakórs,

35 sonar Serúgs, sonar Reú, sonar Pelegs, sonar Ebers, sonar Sela,

36 sonar Kenans, sonar Arpaksads, sonar Sems, sonar Nóa, sonar Lameks,

37 sonar Metúsala, sonar Enoks, sonar Jareds, sonar Mahalalels, sonar Kenans,

38 sonar Enoss, sonar Sets, sonar Adams, sonar Guðs.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes