Add parallel Print Page Options

14 Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum.

Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur.

Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: "Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?"

Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara.

Og Jesús mælti við þá: "Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?"

Þeir gátu engu svarað þessu.

Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá:

"Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið,

og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.` Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti.

10 Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!` Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér.

11 Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða."

12 Þá sagði hann við gestgjafa sinn: "Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur, og þú færð endurgjald.

13 Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum,

14 og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra."

15 Þegar einn þeirra, er að borði sátu, heyrði þetta, sagði hann við Jesú: "Sæll er sá, sem neytir brauðs í Guðs ríki."

16 Jesús sagði við hann: "Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum.

17 Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: ,Komið, nú er allt tilbúið.`

18 En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: ,Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.`

19 Annar sagði: ,Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.`

20 Og enn annar sagði: ,Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.`

21 Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: ,Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta.`

22 Og þjónninn sagði: ,Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm.`

23 Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: ,Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist.

24 Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína."`

25 Mikill fjöldi fólks var honum samferða. Hann sneri sér við og sagði við þá:

26 "Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.

27 Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn.

28 Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?

29 Ella má svo fara, að hann leggi undirstöðu, en fái ekki við lokið, og allir, sem það sjá, taki að spotta hann

30 og segja: ,Þessi maður fór að byggja, en gat ekki lokið.`

31 Eða hvaða konungur fer með hernaði gegn öðrum konungi og sest ekki fyrst við og ráðgast um, hvort honum sé fært að mæta með tíu þúsundum þeim er fer á móti honum með tuttugu þúsundir?

32 Sé svo ekki, gerir hann menn á fund hans, meðan hann er enn langt undan, og spyr um friðarkosti.

33 Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á.

34 Saltið er gott, en ef saltið sjálft dofnar, með hverju á þá að krydda það?

35 Hvorki er það hæft á tún né taðhaug. Því er fleygt. Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri."

15 Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann,

en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: "Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim."

En hann sagði þeim þessa dæmisögu:

"Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann?

Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann.

Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.`

Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.

Eða kona, sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega, uns hún finnur hana?

Og er hún hefur fundið hana, kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið drökmuna, sem ég týndi.`

10 Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun."

11 Enn sagði hann: "Maður nokkur átti tvo sonu.

12 Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: ,Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber.` Og hann skipti með þeim eigum sínum.

13 Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði.

14 En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort.

15 Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína.

16 Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

17 En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: ,Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri!

18 Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér.

19 Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.`

20 Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.

21 En sonurinn sagði við hann: ,Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.`

22 Þá sagði faðir hans við þjóna sína: ,Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum.

23 Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag.

24 Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.` Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

25 En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans.

26 Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera.

27 Hann svaraði: ,Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.`

28 Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma.

29 En hann svaraði föður sínum: ,Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum.

30 En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.`

31 Hann sagði þá við hann: ,Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt.

32 En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn."`

16 Enn sagði hann við lærisveina sína: "Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans.

Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: ,Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.`

Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ,Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla.

Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.`

Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: ,Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum?`

Hann svaraði: ,Hundrað kvartil viðsmjörs.` Hann mælti þá við hann: ,Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.`

Síðan sagði hann við annan: ,En hvað skuldar þú?` Hann svaraði: ,Hundrað tunnur hveitis.` Og hann sagði honum: ,Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.`

Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.

Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.

10 Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.

11 Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði?

12 Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er, hver gefur yður þá það, sem yðar er?

13 Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón."

14 En farísearnir, sem voru menn fégjarnir, heyrðu þetta og gjörðu gys að honum.

15 En hann sagði við þá: "Þér eruð þeir, sem réttlætið sjálfa yður í augum manna, en Guð þekkir hjörtu yðar. Því það, sem hátt er að dómi manna, er viðurstyggð í augum Guðs.

16 Lögmálið og spámennirnir ná fram til Jóhannesar. Þaðan í frá er flutt fagnaðarerindi Guðs ríkis, og hver maður vill ryðjast þar inn.

17 En það er auðveldara, að himinn og jörð líði undir lok, en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi.

18 Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór.

19 Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði.

20 En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus.

21 Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans.

22 En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.

23 Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans.

24 Þá kallaði hann: ,Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.`

25 Abraham sagði: ,Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst.

26 Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.`

27 En hann sagði: ,Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns,

28 en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.`

29 En Abraham segir: ,Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.`

30 Hinn svaraði: ,Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.`

31 En Abraham sagði við hann: ,Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum."`