A A A A A
Bible Book List

Þriðja bók Móse 8-10 Icelandic Bible (ICELAND)

Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tak Aron og sonu hans með honum, klæðin og smurningarolíuna, syndafórnaruxann, báða hrútana og körfuna með ósýrðu brauðunum

og stefn þú saman öllum söfnuðinum við dyr samfundatjaldsins."

Og Móse gjörði eins og Drottinn bauð honum, og söfnuðurinn kom saman við dyr samfundatjaldsins.

Móse sagði við söfnuðinn: "Þetta er það sem Drottinn hefir boðið að gjöra."

Því næst leiddi Móse fram Aron og sonu hans og þvoði þá í vatni.

Og hann lagði yfir hann kyrtilinn, gyrti hann beltinu og færði hann í möttulinn, lagði yfir hann hökulinn og gyrti hann hökullindanum og batt hann þannig að honum.

Þá festi hann á hann brjóstskjöldinn og lét úrím og túmmím í brjóstskjöldinn.

Og hann setti vefjarhöttinn á höfuð honum, og framan á vefjarhöttinn setti hann gullspöngina, ennishlaðið helga, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

10 Móse tók smurningarolíuna og smurði tjaldbúðina og allt, sem í henni var, og helgaði það.

11 Og hann stökkti henni sjö sinnum á altarið og smurði altarið og öll áhöld þess, svo og kerið og stétt þess, til að helga það.

12 Því næst hellti hann smurningarolíu á höfuð Aroni og smurði hann til þess að helga hann.

13 Síðan leiddi Móse fram sonu Arons, færði þá í kyrtla, gyrti þá belti og batt á þá höfuðdúka, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

14 Þá leiddi hann fram syndafórnaruxann, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð syndafórnaruxans.

15 En Móse slátraði honum, tók blóðið og reið því með fingri sínum á horn altarisins allt í kring og syndhreinsaði altarið, en því, sem eftir var af blóðinu, hellti hann niður við altarið, og hann helgaði það með því að friðþægja fyrir það.

16 Því næst tók hann allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn, og Móse brenndi það á altarinu.

17 En uxann sjálfan, bæði húðina af honum, kjötið og gorið, brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

18 Því næst leiddi hann fram brennifórnarhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins.

19 Síðan slátraði Móse honum og stökkti blóðinu allt um kring á altarið.

20 Og hann hlutaði hrútinn sundur, og Móse brenndi höfuðið, stykkin og mörinn.

21 En innýflin og fæturna þvoði hann í vatni. Síðan brenndi Móse allan hrútinn á altarinu. Það var brennifórn þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

22 Þessu næst leiddi hann fram hinn hrútinn, vígsluhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins.

23 Og Móse slátraði honum og tók nokkuð af blóði hans og reið því á hægri eyrnasnepil Arons, á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans.

24 Þá leiddi Móse fram sonu Arons og reið nokkru af blóðinu á hægri eyrnasnepil þeirra og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra. Og Móse stökkti blóðinu allt um kring á altarið.

25 Og hann tók mörinn: rófuna, allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið.

26 Sömuleiðis tók hann úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stóð frammi fyrir Drottni, eina ósýrða köku og eina olíuköku og eitt flatbrauð og lagði það ofan á mörinn og hægra lærið.

27 Og hann lagði það allt í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifaði því til veififórnar frammi fyrir Drottni.

28 Síðan tók Móse það af höndum þeirra og brenndi það á altarinu ofan á brennifórninni. Það var vígslufórn til þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa.

29 Því næst tók Móse bringuna og veifaði henni til veififórnar frammi fyrir Drottni. Fékk Móse hana í sinn hluta af vígsluhrútnum, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

30 Og Móse tók nokkuð af smurningarolíunni og nokkuð af blóðinu, sem var á altarinu, og stökkti því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og á klæði sona hans ásamt honum. Og hann helgaði Aron og klæði hans, og sonu hans og klæði sona hans ásamt honum.

31 Og Móse sagði við Aron og sonu hans: "Sjóðið kjötið fyrir dyrum samfundatjaldsins og etið það þar ásamt brauðinu, sem er í vígslufórnarkörfunni, svo sem ég bauð, er ég sagði: ,Aron og synir hans skulu eta það.`

32 En leifarnar af kjötinu og brauðinu skuluð þér brenna í eldi.

33 Og sjö daga skuluð þér ekki ganga burt frá dyrum samfundatjaldsins, uns vígsludagar yðar eru á enda, því að sjö daga skal fylla hendur yðar.

34 Svo sem gjört hefir verið í dag hefir Drottinn boðið að gjöra til þess að friðþægja fyrir yður.

35 Og við dyr samfundatjaldsins skuluð þér vera sjö daga, bæði dag og nótt, og varðveita boðorð Drottins, svo að þér deyið ekki, því að svo hefir mér verið boðið."

36 Og Aron og synir hans gjörðu allt það, sem Drottinn hafði boðið og Móse flutt þeim.

Á áttunda degi kallaði Móse fyrir sig Aron og sonu hans og öldunga Ísraels

og sagði við Aron: "Tak þér nautkálf í syndafórn og hrút í brennifórn, gallalausa, og leið þá fram fyrir Drottin.

En til Ísraelsmanna skalt þú tala á þessa leið: ,Takið geithafur í syndafórn, og kálf og sauðkind, bæði veturgömul og gallalaus, í brennifórn,

og uxa og hrút í heillafórn, til þess að slátra þeim frammi fyrir Drottni, og matfórn olíublandaða, því að í dag mun Drottinn birtast yður."`

Og þeir færðu það, sem Móse hafði boðið, fram fyrir samfundatjaldið, og allur söfnuðurinn kom og nam staðar frammi fyrir Drottni.

Móse sagði: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið. Gjörið það, og mun dýrð Drottins birtast yður."

Því næst mælti Móse til Arons: "Gakk þú að altarinu og fórna syndafórn þinni og brennifórn þinni, og friðþæg þú fyrir þig og fyrir lýðinn. Fram ber því næst fórnargjöf lýðsins og friðþæg fyrir þá, svo sem Drottinn hefir boðið."

Aron gekk þá að altarinu og slátraði kálfinum, er honum var ætlaður til syndafórnar.

En synir Arons færðu honum blóðið, og hann drap fingri sínum í blóðið og reið því á horn altarisins, en hinu blóðinu hellti hann niður við altarið.

10 En mörinn, nýrun og stærra lifrarblaðið úr syndafórninni brenndi hann á altarinu, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

11 En kjötið og húðina brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar.

12 Síðan slátraði hann brennifórninni, og synir Arons réttu að honum blóðið, en hann stökkti því allt um kring á altarið.

13 Þeir réttu og að honum brennifórnina í stykkjum og höfuðið, og hann brenndi hana á altarinu.

14 Og hann þvoði innýflin og fæturna og brenndi á altarinu, ofan á brennifórninni.

15 Þá bar hann fram fórnargjöf lýðsins, tók hafurinn, sem ætlaður var lýðnum til syndafórnar, slátraði honum og færði hann í syndafórn, eins og kálfinn áður.

16 Hann fram bar og brennifórnina og fórnaði henni að réttum sið.

17 Og hann fram bar matfórnina, tók af henni hnefafylli sína og brenndi á altarinu auk morgun-brennifórnarinnar.

18 Því næst slátraði hann uxanum og hrútnum til heillafórnar fyrir lýðinn. En synir Arons réttu að honum blóðið, _ en hann stökkti því allt í kring á altarið _,

19 svo og mörstykkin úr uxanum og af hrútnum rófuna, netjuna, sem hylur iðrin, nýrun og stærra lifrarblaðið.

20 Og þeir lögðu mörinn ofan á bringurnar, en hann brenndi mörinn á altarinu.

21 En bringunum og hægra lærinu veifaði Aron til veififórnar frammi fyrir Drottni, svo sem Móse hafði boðið.

22 Síðan hóf Aron upp hendur sínar yfir fólkið og blessaði það. Og hann sté niður, er hann hafði fórnað syndafórninni, brennifórninni og heillafórninni.

23 Móse og Aron gengu inn í samfundatjaldið, og er þeir komu út aftur, blessuðu þeir fólkið. Birtist þá dýrð Drottins öllum lýðnum.

24 Eldur gekk út frá Drottni og eyddi brennifórninni og mörnum á altarinu. En er allur lýðurinn sá þetta, hófu þeir upp fagnaðaróp og féllu fram á ásjónur sínar.

10 Nadab og Abíhú, synir Arons, tóku hvor sína eldpönnu og létu eld í þær og lögðu reykelsi ofan á og báru fram fyrir Drottin óvígðan eld, sem hann eigi hafði boðið þeim.

Gekk þá eldur út frá Drottni og eyddi þeim, og þeir dóu frammi fyrir Drottni.

Þá sagði Móse við Aron: "Nú er það fram komið, sem Drottinn sagði: Heilagleik minn vil ég sýna á þeim, sem nálægjast mig, og birta dýrð mína frammi fyrir öllum lýð." Og Aron þagði.

Móse kallaði á Mísael og Elsafan, sonu Ússíels, föðurbróður Arons, og sagði við þá: "Komið og berið burt úr helgidóminum frændur ykkar út fyrir herbúðirnar."

Og þeir komu og báru þá í kyrtlum þeirra út fyrir herbúðirnar, eins og Móse hafði sagt.

Og Móse sagði við Aron og við Eleasar og Ítamar, sonu hans: "Þér skuluð eigi láta hár yðar flaka, eigi heldur sundur rífa klæði yðar, að þér ekki deyið og hann reiðist ekki öllum söfnuðinum. En bræður yðar, allur Ísraelslýður, gráti yfir þeim eldi, sem Drottinn hefir kveikt.

Og eigi skuluð þér fara út fyrir dyr samfundatjaldsins, ella munuð þér deyja, því að smurningarolía Drottins er á yður." Og þeir gjörðu sem Móse bauð.

Drottinn talaði við Aron og sagði:

"Hvorki skalt þú né synir þínir drekka vín eða áfengan drykk, þegar þér gangið inn í samfundatjaldið, svo að þér deyið ekki. Það er ævarandi lögmál hjá yður frá kyni til kyns.

10 Og þér skuluð gjöra greinarmun á því, sem er heilagt og óheilagt, og á því, sem er hreint og óhreint.

11 Og þér skuluð kenna Ísraelsmönnum öll þau lög, er Drottinn hefir gefið þeim fyrir Móse."

12 Móse sagði við Aron og þá Eleasar og Ítamar, sonu hans, er eftir voru á lífi: "Takið matfórnina, sem eftir er af eldfórnum Drottins, og etið hana ósýrða hjá altarinu, því að hún er háheilög.

13 Og þér skuluð eta hana á helgum stað, því að hún er hinn ákveðni hluti þinn og sona þinna af eldfórnum Drottins. Því að svo er mér boðið.

14 En bringuna, sem veifa skal, og lærið, sem fórna skal, skuluð þér eta á hreinum stað, þú og synir þínir og dætur þínar með þér, því að þetta er sá ákveðni hluti, sem þér er gefinn og sonum þínum af heillafórnum Ísraelsmanna.

15 Lærið, sem fórna skal, og bringuna, sem veifa skal, skulu þeir fram bera ásamt mörstykkja-eldfórnunum til þess að veifa því til veififórnar frammi fyrir Drottni. Síðan skalt þú fá það og synir þínir með þér, sem ævinlega skyldugreiðslu, eins og Drottinn hefir boðið."

16 Og Móse leitaði vandlega að syndafórnarhafrinum, og sjá, hann var upp brenndur. Þá reiddist hann Eleasar og Ítamar, sonum Arons, er eftir voru á lífi, og sagði við þá:

17 "Hvers vegna átuð þið ekki syndafórnina á helgum stað? Því að hún er háheilög og hann hefir gefið ykkur hana til þess að burt taka misgjörð safnaðarins og friðþægja fyrir þá frammi fyrir Drottni.

18 Sjá, blóð hennar hefir ekki verið borið inn í helgidóminn. Þið áttuð þó að eta hana á helgum stað, eins og ég hafði boðið."

19 En Aron sagði við Móse: "Sjá, í dag hafa þeir fram borið syndafórn sína og brennifórn fyrir Drottin, og mér hefir slíkt að höndum borið. Hefði ég nú etið syndafórnina í dag, mundi Drottni hafa þóknast það?" Og er Móse heyrði þetta, lét hann sér það vel líka.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Matteusarguðspjall 25:31-46 Icelandic Bible (ICELAND)

31 Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.

32 Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.

33 Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.

34 Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.

35 Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,

36 nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.`

37 Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?

38 Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig?

39 Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?`

40 Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.`

41 Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.

42 Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka,

43 gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.`

44 Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?`

45 Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.`

46 Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes