Add parallel Print Page Options

Nú syndgar einhver, með því að hann hefir heyrt formælingu og getur vitni borið, hvort sem hann hefir séð það sjálfur eða orðið þess vísari, en segir eigi til, og bakar sér þannig sekt,

eða einhver snertir einhvern óhreinan hlut, hvort það er heldur hræ af óhreinu villidýri eða hræ af óhreinum fénaði eða hræ af óhreinu skriðkvikindi og hann veit ekki af því og verður þannig óhreinn og sekur,

eða hann snertir mann óhreinan, hverrar tegundar sem óhreinleikinn er, sem hann er óhreinn af, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður þannig sekur,

eða fleipri einhver þeim eiði af munni fram, að hann skuli gjöra eitthvað, illt eða gott, hvað sem það nú kann að vera, sem menn fleipra út úr sér með eiði, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður sekur fyrir eitthvað af þessu, _

verði nokkur sekur fyrir eitthvað af þessu, þá skal hann játa synd sína.

Og hann skal til sektarbóta fyrir synd þá, sem hann hefir drýgt, færa Drottni ásauð úr hjörðinni, ásauð eða geit, í syndafórn. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar hans.

En ef hann á ekki fyrir kind, þá skal hann í sektarbætur fyrir misgjörð sína færa Drottni tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í syndafórn, en hina í brennifórn.

Hann skal færa þær prestinum, og hann skal fram bera þá fyrr, er til syndafórnar er ætluð. Skal hann klípa höfuðið af hálsinum, en slíta þó eigi frá,

stökkva nokkru af blóði syndafórnarinnar á hlið altarisins, en það, sem eftir er af blóðinu, skal kreist úr og látið drjúpa niður við altarið. Það er syndafórn.

10 En hina skal hann tilreiða í brennifórn að réttum sið. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar þeirrar, sem hann hefir drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.

11 En ef hann á ekki fyrir tveimur turtildúfum eða tveimur ungum dúfum, þá skal hann fram bera að fórnargjöf fyrir misgjörð sína tíunda part úr efu af fínu mjöli í syndafórn. Skal hann eigi hella olíu á það né heldur láta á það reykelsiskvoðu, því að það er syndafórn.

12 Hann skal færa það prestinum, og presturinn skal taka af því hnefafylli sína sem ilmhluta fórnarinnar og brenna á altarinu ofan á eldfórnum Drottins. Það er syndafórn.

13 Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir synd þá, er hann hefir drýgt með einhverju þessu, og honum mun fyrirgefið verða. En hitt fái presturinn, eins og matfórnina."

14 Drottinn talaði við Móse og sagði:

15 "Nú sýnir einhver þá sviksemi, að draga undan eitthvað af því, sem Drottni er helgað, þá skal hann í sektarbætur færa Drottni hrút gallalausan úr hjörðinni, sem að þínu mati sé eigi minna en tveggja sikla virði, eftir helgidóms sikli, til sektarfórnar.

16 Og það, sem hann hefir dregið undan af helgum hlutum, skal hann að fullu bæta og gjalda fimmtungi meira. Skal hann færa það prestinum, og presturinn skal friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum, og mun honum fyrirgefið verða.

17 Nú syndgar einhver og gjörir eitthvað, sem Drottinn hefir bannað, og veit eigi af því og verður þannig sekur og misgjörð hvílir á honum,

18 þá skal hann færa prestinum hrút gallalausan úr hjörðinni, eftir mati þínu, til sektarfórnar. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir vangæslusynd þá, er hann hefir óafvitandi drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.

19 Það er sektarfórn. Hann er sannlega sekur orðinn við Drottin."

Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Nú syndgar einhver og sýnir sviksemi gegn Drottni og þrætir við náunga sinn fyrir það, sem honum hefir verið trúað fyrir, eða honum hefir verið í hendur selt, eða hann hefir rænt, eða hann hefir haft með ofríki af náunga sínum,

eða hann hefir fundið eitthvað, sem týnst hefir, og þrætir fyrir það, eða hann með meinsæri synjar fyrir einhvern þann verknað, er menn fremja sér til syndar, _

þegar hann syndgar þannig og verður sekur, þá skal hann skila því aftur, sem hann hefir rænt eða með ofríki haft af öðrum eða honum hefir verið trúað fyrir, eða hinu týnda, sem hann hefir fundið,

eða hverju því, er hann hefir synjað fyrir með meinsæri, og skal hann bæta það fullu verði og gjalda fimmtungi meira. Skal hann greiða það eiganda á þeim degi, er hann færir sektarfórn sína.

En í bætur Drottni til handa skal hann færa prestinum hrút gallalausan úr hjörðinni, eftir þínu mati, til sektarfórnar.

Og presturinn skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni, og honum mun fyrirgefið verða, _ hvað sem menn fremja sér til sektar."

Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Bjóð Aroni og sonum hans á þessa leið: Þessi eru ákvæðin um brennifórnina: Brennifórnin skal vera á eldstæði altarisins alla nóttina til morguns, og skal altariseldinum haldið lifandi með því.

10 Og presturinn skal færa sig í línklæði sín og draga línbrækur yfir hold sitt, taka síðan burt öskuna eftir brennifórnina, er eldurinn hefir eytt á altarinu, og steypa henni niður við hlið altarisins.

11 Þá skal hann færa sig úr klæðum sínum og fara í önnur klæði og bera öskuna út fyrir herbúðirnar á hreinan stað.

12 Og eldinum á altarinu skal haldið lifandi með því. Hann skal eigi slokkna. Og presturinn skal á hverjum morgni leggja við að eldinum, og hann skal raða brennifórninni ofan á hann og brenna mörinn úr heillafórnunum á honum.

13 Eldurinn skal sífellt brenna á altarinu og aldrei slokkna.

14 Þessi eru ákvæðin um matfórnina: Synir Arons skulu fram bera hana fyrir Drottin, að altarinu.

15 Og hann skal taka af því hnefafylli sína, af fínamjöli matfórnarinnar og olíunni, og alla reykelsiskvoðuna, sem er á matfórninni, og brenna á altarinu til þægilegs ilms, sem ilmhluta hennar fyrir Drottin.

16 En það, sem eftir er af henni, skulu Aron og synir hans eta. Ósýrt skal það etið á helgum stað, í forgarði samfundatjaldsins skulu þeir eta það.

17 Eigi má baka það með súrdeigi. Ég gef þeim það í þeirra hluta af eldfórnum mínum. Það er háheilagt, eins og syndafórnin og sektarfórnin.

18 Allt karlkyn meðal Arons niðja má eta það, frá kyni til kyns ber yður það af eldfórnum Drottins um aldur og ævi. Hver sem snertir það skal vera heilagur."

19 Drottinn talaði við Móse og sagði:

20 "Þessi er fórnargjöf Arons og sona hans, sem þeir skulu færa Drottni á smurningardegi sínum: tíundi partur úr efu af fínu mjöli í stöðuga matfórn, helmingurinn af því að morgni og helmingurinn að kveldi.

21 Skal tilreiða hana á pönnu með olíu. Þú skalt fram bera hana samanhrærða. Þú skalt brjóta hana í stykki og fórna henni til þægilegs ilms fyrir Drottin.

22 Og presturinn, sá af sonum hans, sem smurður er í hans stað, skal tilreiða hana. Er það ævarandi lögmál Drottins, öll skal hún brennd.

23 Allar matfórnir presta skulu vera alfórnir. Þær má ekki eta."

24 Drottinn talaði við Móse og sagði:

25 "Mæl til Arons og sona hans og seg: Þessi eru ákvæðin um syndafórnina: Á þeim stað, sem brennifórnunum er slátrað, skal syndafórninni slátrað, frammi fyrir Drottni. Hún er háheilög.

26 Presturinn, sem fram ber syndafórnina, skal eta hana, á helgum stað skal hún etin, í forgarði samfundatjaldsins.

27 Hver sá, er snertir kjöt hennar, skal vera heilagur. Og þegar eitthvað af blóðinu spýtist á klæðin, þá skalt þú þvo það, sem spýtst hefir á, á helgum stað.

28 Og leirkerið, sem hún hefir verið soðin í, skal brjóta, en hafi hún verið soðin í eirkeri, þá skal fægja það og skola í vatni.

29 Allt karlkyn meðal prestanna má eta hana. Hún er háheilög.

30 En enga syndafórn má eta, hafi nokkuð af blóði hennar verið borið inn í samfundatjaldið til friðþægingar í helgidóminum, heldur skal hún brennd í eldi.

Þessi eru ákvæðin um sektarfórnina: Hún er háheilög.

Þar sem brennifórninni er slátrað, skal og sektarfórninni slátrað, og skal stökkva blóði hennar allt í kring utan á altarið.

Og öllum mörnum úr henni skal fórna: rófunni, netjunni, sem hylur iðrin,

báðum nýrunum, nýrnamörnum, sem liggur innan á mölunum, og stærra lifrarblaðinu. Við nýrun skal taka það frá.

Og presturinn skal brenna þetta á altarinu sem eldfórn Drottni til handa. Er það sektarfórn.

Allt karlkyn meðal prestanna má eta hana; á helgum stað skal hún etin; hún er háheilög.

Skal með sektarfórn farið á sama hátt og syndafórn; eru sömu ákvæði um báðar: Presturinn, sem með þeim friðþægir, skal fá þær.

Presturinn, sem fram ber brennifórn einhvers manns, skal fá skinnið af brennifórninni, sem hann fram ber.

Og sérhverja matfórn, sem í ofni er bökuð eða tilreidd í suðupönnu eða á steikarpönnu, fái presturinn, sem fram ber hana.

10 En sérhver matfórn, olíublönduð eða þurr, skal tilheyra öllum sonum Arons, svo einum sem öðrum.

11 Þessi eru ákvæðin um heillafórnina, sem Drottni er færð:

12 Ef einhver fram ber hana til þakkargjörðar, þá skal hann auk þakkarfórnarinnar fram bera ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð og olíublandaðar kökur, hrærðar úr fínu mjöli.

13 Ásamt kökum úr sýrðu deigi skal hann fram bera þessa fórnargáfu sína, auk heilla-þakkarfórnarinnar.

14 Og hann skal af henni fram bera eina köku af hverri tegund fórnargáfunnar sem fórnargjöf Drottni til handa. Skal presturinn, er stökkvir blóði heillafórnarinnar, fá hana.

15 En kjötið af heilla-þakkarfórninni skal etið sama dag sem fórnin er fram borin. Eigi skal geyma neitt af því til morguns.

16 Sé sláturfórn hans heitfórn eða sjálfviljug fórn, þá skal hún etin sama dag sem hann fram ber sláturfórn sína. Þó má eta það, sem af gengur, daginn eftir.

17 En það, sem verður eftir af kjöti sláturfórnarinnar á þriðja degi, skal brenna í eldi.

18 En sé á þriðja degi nokkuð etið af kjöti heillafórnarinnar, þá mun það eigi verða velþóknanlegt, það skal eigi tilreiknast þeim, er fram bar það. Það skal talið skemmt kjöt. Á hverjum þeim, er etur af því, skal misgjörð hvíla.

19 Og það kjöt, sem komið hefir við eitthvað óhreint, skal eigi eta, heldur skal brenna það í eldi. Hvað kjötið að öðru leyti snertir, þá má hver, sem hreinn er, kjöt eta.

20 En hver sá, sem etur kjöt af heillafórn, sem Drottni er færð, á meðan hann er óhreinn, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni.

21 Og hver sem snertir nokkuð óhreint, hvort heldur það er óhreinn maður eða óhrein skepna, eða hvaða óhrein viðurstyggð sem er, og etur þó af heillafórnarkjöti, sem Drottni er fært, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni."

22 Drottinn talaði við Móse og sagði:

23 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Engan mör úr nautum, sauðum eða geitum megið þér eta.

24 En mör úr sjálfdauðum skepnum eða dýrrifnum má nota til hvers sem vera skal, en með engu móti megið þér eta hann.

25 Því að hver sá, sem etur mör úr þeirri skepnu, sem Drottni er færð eldfórn af, sá sem etur hann skal upprættur verða úr þjóð sinni.

26 Eigi skuluð þér heldur nokkurs blóðs neyta í neinum af bústöðum yðar, hvorki úr fuglum né fénaði.

27 Hver sá, er nokkurs blóðs neytir, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni."

28 Drottinn talaði við Móse og sagði:

29 "Tala til Ísraelsmanna og seg: Sá sem færir Drottni heillafórn skal sjálfur fram bera fórnargjöf sína fyrir Drottin af heillafórninni.

30 Með sínum eigin höndum skal hann fram bera eldfórnir Drottins: Mörinn ásamt bringunni skal hann fram bera, bringuna til þess að veifa henni sem veififórn frammi fyrir Drottni,

31 og skal presturinn brenna mörinn á altarinu, en bringuna skal Aron og synir hans fá.

32 Og af heillafórnum yðar skuluð þér gefa prestinum hægra lærið að fórnargjöf.

33 Sá af sonum Arons, er fram ber blóðið úr heillafórninni og mörinn, skal fá hægra lærið í sinn hluta.

34 Því að bringuna, sem veifa skal, og lærið, sem fórna skal, hefi ég tekið af Ísraelsmönnum, af heillafórnum þeirra, og gefið það Aroni presti og sonum hans. Er það ævinleg skyldugreiðsla, sem á Ísraelsmönnum hvílir.

35 Þetta er hluti Arons og hluti sona hans af eldfórnum Drottins, á þeim degi, sem hann leiddi þá fram til þess að þjóna Drottni í prestsembætti,

36 sem Drottinn bauð að Ísraelsmenn skyldu greiða þeim, á þeim degi, sem hann smurði þá. Er það ævinleg skyldugreiðsla hjá þeim frá kyni til kyns."

37 Þetta eru ákvæðin um brennifórnir, matfórnir, syndafórnir, sektarfórnir, vígslufórnir og heillafórnir,

38 sem Drottinn setti Móse á Sínaífjalli, þá er hann bauð Ísraelsmönnum, að þeir skyldu færa Drottni fórnargjafir sínar í Sínaí-eyðimörk.