Add parallel Print Page Options

23 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur _ þessar eru löghátíðir mínar.

Sex daga skal verk vinna, en sjöunda daginn skal vera helgihvíld, helg samkoma. Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er hvíldardagur Drottins í öllum bústöðum yðar.

Þessar eru löghátíðir Drottins, helgar samkomur, er þér skuluð boða, hverja á sínum tíma.

Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar Drottins.

Og fimmtánda dag hins sama mánaðar skal halda Drottni hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð.

Fyrsta daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.

Og þér skuluð færa Drottni eldfórn sjö daga. Sjöunda daginn er helg samkoma. Eigi skuluð þér þá fást við neina stritvinnu."

Drottinn talaði við Móse og sagði:

10 "Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, og þér skerið þar upp korn, skuluð þér færa presti fyrsta kornbundinið af uppskeru yðar.

11 Og hann skal veifa kornbundininu frammi fyrir Drottni, svo að það afli yður velþóknunar, daginn eftir hvíldardaginn skal presturinn veifa því.

12 Þann dag, er þér veifið bundininu, skuluð þér fórna veturgamalli sauðkind gallalausri í brennifórn Drottni til handa.

13 Og matfórnin með henni skal vera tveir tíundupartar úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin, og dreypifórnin fjórðungur úr hín af víni.

14 Eigi skuluð þér eta brauð, bakað korn eða korn úr nýslegnum kornstöngum allt til þess dags, allt til þess er þér hafið fært fórnargjöf Guði yðar. Það skal vera yður ævarandi lögmál frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.

15 Þér skuluð telja frá næsta degi eftir hvíldardaginn, frá þeim degi, er þér færið bundinið í veififórn. Sjö vikur fullar skulu það vera.

16 Til næsta dags eftir sjöunda hvíldardaginn skuluð þér telja fimmtíu daga. Þá skuluð þér færa Drottni nýja matfórn.

17 Frá bústöðum yðar skuluð þér færa tvö brauð til veififórnar. Skulu þau vera gjörð af tveim tíundupörtum úr efu af fínu mjöli. Þau skulu vera bökuð með súrdeigi _ frumgróðafórn Drottni til handa.

18 Og ásamt brauðinu skuluð þér fram bera sjö sauðkindur veturgamlar gallalausar, eitt ungneyti og tvo hrúta. Þau skulu vera brennifórn Drottni til handa ásamt matfórn og dreypifórnum þeim, er til þeirra heyra, eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.

19 Og þér skuluð fórna einum geithafri í syndafórn og tveim sauðkindum veturgömlum í heillafórn.

20 Og presturinn skal veifa þeim með frumgróðabrauðinu að veififórn frammi fyrir Drottni ásamt sauðkindunum tveimur. Skal það vera Drottni helgað handa prestinum.

21 Þennan sama dag skuluð þér láta boð út ganga, þér skuluð halda helga samkomu. Þér skuluð eigi vinna neina stritvinnu. Það er ævarandi lögmál fyrir yður í öllum bústöðum yðar frá kyni til kyns.

22 Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar."

23 Drottinn talaði við Móse og sagði:

24 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Í sjöunda mánuðinum, hinn fyrsta dag mánaðarins, skuluð þér halda helgihvíld, minningardag með básúnublæstri, helga samkomu.

25 Þér skuluð eigi vinna neina stritvinnu, og þér skuluð færa Drottni eldfórn."

26 Drottinn talaði við Móse og sagði:

27 "Tíunda dag þessa hins sjöunda mánaðar er friðþægingardagurinn. Skuluð þér þá halda helga samkomu og fasta og færa Drottni eldfórn.

28 Þennan sama dag skuluð þér ekkert verk vinna, því að hann er friðþægingardagur, til þess að friðþægja fyrir yður frammi fyrir Drottni Guði yðar.

29 Því að hver sá, er eigi fastar þennan dag, skal upprættur verða úr þjóð sinni.

30 Og hvern þann, er eitthvert verk vinnur þennan dag, hann vil ég afmá úr þjóð hans.

31 Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.

32 Það skal vera yður helgihvíld og þér skuluð fasta. Hinn níunda dag mánaðarins að kveldi, frá aftni til aftans, skuluð þér halda hvíldardag yðar."

33 Drottinn talaði við Móse og sagði:

34 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Á fimmtánda degi þessa hins sjöunda mánaðar skal halda Drottni laufskálahátíð sjö daga.

35 Fyrsta daginn skal vera helg samkoma, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu.

36 Sjö daga skuluð þér færa Drottni eldfórn. Áttunda daginn skuluð þér halda helga samkomu og færa Drottni eldfórn. Það er hátíðafundur, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu.

37 Þetta eru löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur til þess að færa Drottni eldfórn, brennifórn og matfórn, sláturfórn og dreypifórnir, hverja fórn á sínum degi,

38 auk hvíldardaga Drottins og auk gjafa yðar og auk allra heitfórna yðar og auk allra sjálfviljafórna yðar, er þér færið Drottni.

39 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, er þér hafið hirt gróður landsins, skuluð þér halda hátíð Drottins sjö daga. Fyrsta daginn skal vera helgihvíld og áttunda daginn skal vera helgihvíld.

40 Og fyrsta daginn skuluð þér taka yður aldin af fögrum trjám, pálmviðargreinar og lim af þéttlaufguðum trjám og lækjarpíl, og þér skuluð fagna frammi fyrir Drottni, Guði yðar, í sjö daga.

41 Og þér skuluð halda hana helga sem hátíð Drottins sjö daga á ári. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns: Í sjöunda mánuðinum skuluð þér halda hana.

42 Skuluð þér búa í laufskálum sjö daga. Allir innbornir menn í Ísrael skulu þá búa í laufskálum,

43 svo að niðjar yðar viti, að ég lét Ísraelsmenn búa í laufskálum, þá er ég leiddi þá út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar."

44 Og Móse sagði Ísraelsmönnum löghátíðir Drottins.

24 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Bjóð þú Ísraelsmönnum að færa þér tæra olíu af steyttum olífuberjum til ljósastikunnar, svo að lampar verði ávallt settir upp.

Fyrir utan fortjald sáttmálsins í samfundatjaldinu skal Aron tilreiða þá frá kveldi til morguns frammi fyrir Drottni stöðuglega. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns.

Hann skal raða lömpunum á gull-ljósastikuna frammi fyrir Drottni stöðuglega.

Þú skalt taka fínt mjöl og baka úr því tólf kökur. Skulu vera tveir tíundupartar úr efu í hverri köku.

Og þú skalt leggja þær í tvær raðir, sex í hvora röð, á gullborðið frammi fyrir Drottni.

Og þú skalt láta hjá hvorri röð hreina reykelsiskvoðu, og skal hún vera sem ilmhluti af brauðinu, eldfórn Drottni til handa.

Á hverjum hvíldardegi skal hann raða þessu frammi fyrir Drottni stöðuglega. Er það ævinlegur sáttmáli af hálfu Ísraelsmanna.

Skal Aron og synir hans fá það og eta það á helgum stað, því að það heyrir honum sem háhelgur hluti af eldfórnum Drottins eftir ævinlegu lögmáli."

10 Sonur ísraelskrar konu gekk út meðal Ísraelsmanna, en faðir hans var egypskur. Lenti þá sonur ísraelsku konunnar í deilu við ísraelskan mann í herbúðunum.

11 Og sonur ísraelsku konunnar lastmælti nafninu og formælti. Þeir leiddu hann fyrir Móse. En móðir hans hét Selómít Díbrísdóttir, af ættkvísl Dans.

12 Og þeir settu hann í varðhald, til þess að þeim kæmi úrskurður fyrir munn Drottins.

13 Og Drottinn talaði við Móse og sagði:

14 "Leið þú lastmælandann út fyrir herbúðirnar, og allir þeir, er heyrt hafa, skulu leggja hendur sínar á höfuð honum, og því næst skal allur söfnuðurinn grýta hann.

15 Og þú skalt tala við Ísraelsmenn og segja: ,Hver sá, er formælir Guði sínum, bakar sér synd.

16 Og sá er lastmælir nafni Drottins, skal líflátinn verða. Allur söfnuðurinn skal vægðarlaust grýta hann. Hvort heldur er útlendur maður eða innborinn, lastmæli hann nafninu, skal hann líflátinn.

17 Og ljósti einhver mann til bana, skal hann líflátinn verða.

18 Og sá, er lýstur skepnu til bana, skal bæta hana, líf fyrir líf.

19 Og veiti maður náunga sínum áverka, þá skal honum gjört hið sama, sem hann hefir gjört:

20 Beinbrot fyrir beinbrot, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hinn sami áverki, er hann hefir veitt öðrum, skal honum veittur.

21 Og sá, er lýstur skepnu til bana, skal bæta hana, en sá, er lýstur mann til bana, skal líflátinn.

22 Þér skuluð hafa ein lög, hvort heldur útlendur maður eða innborinn á í hlut, því að ég er Drottinn, Guð yðar."`

23 Og Móse talaði við Ísraelsmenn, og þeir leiddu lastmælandann út fyrir herbúðirnar og lömdu hann grjóti. Og Ísraelsmenn gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

Upphaf fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son.

Svo er ritað hjá Jesaja spámanni: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn.

Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Þannig kom Jóhannes skírari fram í óbyggðinni og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,

og menn streymdu til hans frá allri Júdeubyggð og allir Jerúsalembúar og létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.

En Jóhannes var í klæðum úr úlfaldahári, með leðurbelti um lendar sér og át engisprettur og villihunang.

Hann prédikaði svo: "Sá kemur eftir mig, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans.

Ég hef skírt yður með vatni, en hann mun skíra yður með heilögum anda."

Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu og var skírður af Jóhannesi í Jórdan.

10 Um leið og hann sté upp úr vatninu, sá hann himnana ljúkast upp og andann stíga niður yfir sig eins og dúfu.

11 Og rödd kom af himnum: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."

12 Þá knúði andinn hann út í óbyggðina,

13 og hann var í óbyggðinni fjörutíu daga, og Satan freistaði hans. Hann hafðist við meðal villidýra, og englar þjónuðu honum.

14 Þegar Jóhannes hafði verið tekinn höndum, kom Jesús til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs

15 og sagði: "Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu."

16 Jesús var á gangi með Galíleuvatni og sá Símon og Andrés, bróður Símonar, vera að kasta netum í vatnið, en þeir voru fiskimenn.

17 Jesús sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."

18 Og þegar í stað létu þeir eftir netin og fylgdu honum.

19 Hann gekk skammt þaðan og sá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, og voru þeir einnig á báti að búa net.

20 Jesús kallaði þá, og þeir yfirgáfu Sebedeus föður sinn hjá daglaunamönnunum í bátnum og fylgdu honum.

21 Þeir komu til Kapernaum. Og hvíldardaginn gekk Jesús í samkunduna og kenndi.

22 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur, og ekki eins og fræðimennirnir.

Read full chapter