Add parallel Print Page Options

21 Drottinn sagði við Móse: "Mæl þú til prestanna, sona Arons, og seg við þá: Prestur skal eigi saurga sig á líki meðal fólks síns,

nema það sé skyldmenni hans, honum mjög náið: móðir hans, faðir hans, sonur hans, dóttir hans, bróðir hans

eða systir hans, sem er mey og honum nákomin, og eigi er manni gefin, vegna hennar má hann saurga sig.

Eigi skal hann saurga sig, þar eð hann er höfðingi meðal fólks síns, svo að hann vanhelgi sig.

Eigi skulu þeir gjöra skalla á höfði sér, eigi raka skeggrönd sína, né heldur skera skurði í hold sitt.

Þeir skulu vera heilagir fyrir Guði sínum og ekki vanhelga nafn Guðs síns, því að þeir bera fram eldfórnir Drottins, mat Guðs síns. Fyrir því skulu þeir vera heilagir.

Eigi skulu þeir ganga að eiga skækju eða mey spjallaða, né heldur skulu þeir ganga að eiga konu, er maður hennar hefir rekið frá sér, því að prestur er heilagur fyrir Guði sínum.

Fyrir því skalt þú halda hann heilagan, því að hann ber fram mat Guðs þíns. Hann skal vera þér heilagur, því að ég er heilagur, Drottinn, sá er yður helgar.

Og ef prestsdóttir vanhelgar sig með saurlifnaði, þá vanhelgar hún föður sinn. Hana skal brenna í eldi.

10 Sá sem er æðsti prestur meðal bræðra sinna, og smurningarolíu hefir verið hellt yfir höfuð honum og hönd hans fyllt, að hann klæðist hinum helgu klæðum, hann skal eigi láta hár sitt flaka og eigi rífa sundur klæði sín.

11 Eigi skal hann koma nærri nokkru líki. Vegna föður síns og vegna móður sinnar skal hann eigi saurga sig.

12 Og eigi skal hann ganga út úr helgidóminum, svo að hann vanhelgi ekki helgidóm Guðs síns, því að vígsla smurningarolíu Guðs hans er á honum. Ég er Drottinn.

13 Hann skal ganga að eiga konu í meydómi hennar.

14 Ekkju eða konu brott rekna eða mey spjallaða, skækju, eigi skal hann slíkum kvænast, heldur skal hann taka sér fyrir konu mey af þjóð sinni.

15 Eigi skal hann vanhelga afkvæmi sitt meðal fólks síns, því að ég er Drottinn, sá er helgar hann."

16 Drottinn talaði við Móse og sagði:

17 "Mæl þú til Arons og seg: Hafi einhver niðja þinna, nú eða í komandi kynslóðum, lýti á sér, þá skal hann eigi ganga fram til þess að bera fram mat Guðs síns.

18 Því að enginn sá, er lýti hefir á sér, skal ganga fram, sé hann blindur eða haltur eða örkumlaður í andliti eða hafi ofskapaðan útlim,

19 eða sé hann fótbrotinn eða handleggsbrotinn,

20 eða hafi hann herðakistil eða sé tærður eða hafi vagl á auga eða kláða eða útbrot eða eistnamar.

21 Enginn af niðjum Arons prests, sem lýti hefir á sér, skal koma fram til þess að bera fram eldfórnir Drottins. Lýti er á honum; eigi skal hann koma fram til þess að bera fram mat Guðs síns.

22 Mat Guðs síns, bæði af því, sem háheilagt er og heilagt, má hann eta.

23 En þó skal hann hvorki ganga inn að fortjaldinu né koma nærri altarinu, því að lýti er á honum, að hann eigi vanhelgi helga dóma mína; því að ég er Drottinn, sá er helgar þá."

24 Þannig talaði Móse við Aron og sonu hans og við alla Ísraelsmenn.

22 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Seg þú Aroni og sonum hans, að þeir skuli halda sér frá helgigjöfum Ísraelsmanna, þeim er þeir helga mér, svo að þeir vanhelgi eigi heilagt nafn mitt. Ég er Drottinn.

Seg við þá: Hver sá af niðjum yðar, nú og í komandi kynslóðum, er kemur nærri helgigjöfum þeim, er Ísraelsmenn helga Drottni, meðan hann er óhreinn, skal upprættur verða frá augliti mínu. Ég er Drottinn.

Eigi skal neinn sá af niðjum Arons, sem líkþrár er eða hefir rennsli, eta af helgigjöfunum, uns hann er hreinn. Og sá, er snertir einhvern þann, sem saurgaður er af líki, eða mann sem hefir sáðlát,

eða sá, sem snert hefir eitthvert skriðkvikindi og saurgast af því, eða mann og saurgast af honum, hverrar tegundar sem óhreinleiki hans er, _

sá er snert hefir slíkt, skal vera óhreinn til kvelds. Og eigi skal hann eta af helgigjöfunum nema hann laugi líkama sinn í vatni.

En jafnskjótt og sól er setst, er hann hreinn, og síðan eti hann af helgigjöfunum, því að það er matur hans.

Sjálfdauða skepnu eða dýrrifna skal hann eigi eta, svo að hann saurgist af. Ég er Drottinn.

Þeir skulu því varðveita boðorð mín, svo að þeir baki sér eigi synd fyrir slíkt og deyi vegna þess, fyrir því að þeir vanhelguðu það. Ég er Drottinn, sá er helgar þá.

10 Enginn sá, er eigi heyrir skylduliði prests, skal eta helgan dóm. Hvorki hjábýlingur prests né kaupamaður skal eta helgan dóm.

11 En kaupi prestur þræl verði, þá skal hann eta af því, svo og sá er fæddur er í húsi hans. Þeir skulu eta af mat hans.

12 Eigi skal prestsdóttir, sé hún leikmanni gefin, eta af hinum heilögu fórnargjöfum.

13 En sé dóttir prests ekkja eða kona brott rekin og eigi ekki barna og sé horfin aftur í hús föður síns, eins og í æsku hennar, skal hún eta af mat föður síns. En enginn sá, er eigi heyrir skylduliði prests, skal eta af honum.

14 Nú etur einhver af vangá helgan dóm, og skal hann þá færa presti hinn helga dóm og greiða fimmtung umfram.

15 Þeir skulu eigi vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna, það er þeir færa Drottni í lyftifórn,

16 svo að þeir baki þeim eigi sekt með misgjörð sinni, er þeir eta helgigjafir þeirra, því að ég er Drottinn, sá er helgar þá."

17 Drottinn talaði við Móse og sagði:

18 "Mæl þú til Arons og sona hans og allra Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er einhver af húsi Ísraels eða útlendum mönnum í Ísrael ber fram fórnargjöf sína, hvort sem það er einhver heitfórn þeirra eða sjálfviljafórn, sem þeir færa Drottni að brennifórn,

19 þá skuluð þér bera hana svo fram, að hún afli yður velþóknunar: gallalausa, karlkyns, af nautum, sauðum eða geitum.

20 Eigi skuluð þér bera fram neitt það, er lýti hefir á sér, því að það mun eigi afla yður velþóknunar.

21 Nú vill einhver fórna Drottni heillafórn af nautum eða sauðfénaði, hvort heldur er til að efna heit sitt eða í sjálfviljafórn, þá skal það vera gallalaust, til þess að það afli honum velþóknunar. Ekkert lýti sé á því.

22 Það sem blint er eða beinbrotið eða sært eða með kýlum eða kláða eða útbrotum, það skuluð þér eigi færa Drottni, og eigi skuluð þér bera Drottni eldfórn af því á altarið.

23 En nautkind eða sauðkind, sem hefir lim ofskapaðan eða vanskapaðan, mátt þú fórna í sjálfviljafórn, en sem heitfórn mun hún eigi verða þóknanleg.

24 Það sem vanað er með kramningu, marningu, sliti eða skurði, skuluð þér eigi færa Drottni, og þér skuluð eigi slíkt gjöra í landi yðar.

25 Né heldur skuluð þér fá neitt af þessu hjá útlendum manni og bera það fram svo sem mat Guðs yðar, því að skemmd er á því. Lýti er á því, það mun eigi afla yður velþóknunar."

26 Drottinn talaði við Móse og sagði:

27 "Þá er kálfur, lamb eða kið fæðist, skal það ganga sjö daga undir móðurinni, en átta daga gamalt og þaðan af eldra mun það verða þóknanlega meðtekið sem eldfórnargjöf Drottni til handa.

28 Þér skuluð eigi slátra kú eða á sama daginn og afkvæmi hennar.

29 Er þér fórnið Drottni þakkarfórn, þá fórnið henni svo, að hún afli yður velþóknunar.

30 Skal hún etin samdægurs, eigi skuluð þér leifa neinu af henni til morguns. Ég er Drottinn.

31 Varðveitið því skipanir mínar og haldið þær. Ég er Drottinn.

32 Og eigi skuluð þér vanhelga heilagt nafn mitt, svo að ég helgist meðal Ísraelsmanna. Ég er Drottinn, sá er yður helgar,

33 sá er leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera Guð yðar. Ég er Drottinn."

28 Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina.

Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann.

Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór.

Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: "Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta.

Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá.

Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ,Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.` Þetta hef ég sagt yður."

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: "Heilar þið!" En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans.

10 Þá segir Jesús við þær: "Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig."

11 Meðan þær voru á leiðinni komu nokkrir varðmenn til borgarinnar og sögðu æðstu prestunum allt, sem gjörst hafði.

12 En þeir kvöddu saman öldungana og tóku það ráð með þeim að bera mikið fé á hermennina og mæltu við þá:

13 "Segið þetta: ,Lærisveinar hans komu á næturþeli, meðan vér sváfum, og stálu honum.`

14 Og ef þetta berst landshöfðingjanum til eyrna, skulum vér sefa hann, svo að þér getið verið áhyggjulausir."

15 Þeir tóku við fénu og gjörðu sem þeim var sagt. Þessi sögusögn hefur verið borin út meðal Gyðinga allt til þessa dags.

16 En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til.

17 Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa.

18 Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: "Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.

19 Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda,