Add parallel Print Page Options

19 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú til alls safnaðar Ísraelsmanna og seg við þá: Þér skuluð vera heilagir, því að ég, Drottinn, Guð yðar, er heilagur.

Sérhver óttist móður sína og föður sinn og haldi hvíldardaga mína. Ég er Drottinn, Guð yðar.

Snúið yður eigi til falsguða og gjörið yður eigi steypta guði. Ég er Drottinn, Guð yðar.

Er þér slátrið heillafórn Drottni til handa, þá slátrið henni þannig, að hún afli yður velþóknunar.

Skal eta hana daginn, sem þér fórnið henni, og daginn eftir, en það, sem leift er til þriðja dags, skal brenna í eldi.

En sé þó etið af því á þriðja degi, þá skal það talið skemmt kjöt. Það mun eigi verða velþóknanlegt.

Og hver, sem etur það, bakar sér sekt, því að hann hefir vanhelgað það sem helgað er Drottni, og sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.

Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar.

10 Og eigi skalt þú gjörtína víngarð þinn, né heldur tína upp niður fallin ber í víngarði þínum. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar.

11 Þér skuluð eigi stela, eigi svíkja, né heldur ljúga hver að öðrum.

12 Þér skuluð eigi sverja ranglega við nafn mitt, svo að þú vanhelgir nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn.

13 Þú skalt eigi beita náunga þinn ofríki, né ræna hann, og kaup daglaunamanns skal eigi vera hjá þér náttlangt til morguns.

14 Þú skalt ekki bölva daufum manni, né leggja fótakefli fyrir blindan mann, heldur skalt þú óttast Guð þinn. Ég er Drottinn.

15 Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi. Þú skalt eigi draga taum lítilmagnans, né heldur vera hliðdrægur hinum volduga. Með réttvísi skalt þú dæma náunga þinn.

16 Þú skalt eigi ganga um sem rógberi meðal fólks þíns og eigi krefjast blóðs náunga þíns. Ég er Drottinn.

17 Þú skalt ekki hata bróður þinn í hjarta þínu. Einarðlega skalt þú ávíta náunga þinn, að þú eigi bakir þér synd hans vegna.

18 Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.

19 Þér skuluð varðveita setningar mínar. Þú skalt eigi láta tvær tegundir fénaðar þíns eiga samlag, þú skalt eigi sá akur þinn tvenns konar sæði og eigi skalt þú bera klæði, sem ofin eru af tvenns konar efni.

20 Nú hefir einhver holdlegt samræði við konu, og sé hún ambátt manni föstnuð, en hvorki leysingi né frelsingi, þá liggur refsing við. Eigi skal lífláta þau, fyrir því að hún var eigi frelsingi.

21 En hann skal færa Drottni sektarfórn sína að dyrum samfundatjaldsins, hrút í sektarfórn.

22 Og presturinn skal friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum frammi fyrir Drottni vegna syndar hans, sem hann hefir drýgt. Og honum mun fyrirgefin verða synd hans, sem hann hefir drýgt.

23 Er þér komið inn í landið og gróðursetjið alls konar aldintré, þá skuluð þér telja aldinin á þeim sem yfirhúð þeirra. Þrjú ár skuluð þér halda þau fyrir óumskorin; eigi skal neyta þeirra.

24 Fjórða árið skulu öll aldin þeirra vera helguð Drottni til lofgjörðar,

25 en fimmta árið skuluð þér eta aldin þeirra, svo að þau veiti yður því meiri arð. Ég er Drottinn, Guð yðar.

26 Þér skuluð ekkert með blóði eta. Þér skuluð eigi fara með spár né fjölkynngi.

27 Þér skuluð eigi kringluskera höfuð yðar, né heldur skalt þú skerða skeggrönd þína.

28 Og þér skuluð eigi skera skurði í hold yðar fyrir sakir dauðs manns, né heldur gjöra hörundsflúr á yður. Ég er Drottinn.

29 Vanhelga eigi dóttur þína með því að halda henni til saurlifnaðar, að eigi drýgi landið hór og landið fyllist óhæfu.

30 Þér skuluð halda hvíldardaga mína og bera lotningu fyrir helgidómi mínum. Ég er Drottinn.

31 Leitið eigi til særingaranda né spásagnaranda, farið eigi til frétta við þá, svo að þér saurgist ekki af þeim. Ég er Drottinn, Guð yðar.

32 Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið, og þú skalt óttast Guð þinn. Ég er Drottinn.

33 Ef útlendur maður býr hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér eigi sýna honum ójöfnuð.

34 Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.

35 Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi, stiku, vigt og mæli.

36 Þér skuluð hafa réttar vogir, rétta vogarsteina, rétta efu og rétta hín. Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi.

37 Og þér skuluð varðveita allar setningar mínar og öll lög mín og halda þau. Ég er Drottinn."

20 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Og þú skalt segja við Ísraelsmenn: Hver sá Ísraelsmanna, eða útlendra manna, er búa í Ísrael, sem færir Mólok nokkurt afkvæmi sitt, skal líflátinn verða. Landslýður skal lemja hann grjóti.

Og ég vil snúa augliti mínu gegn þeim manni og uppræta hann úr þjóð sinni, fyrir þá sök að hann hefir fært Mólok afkvæmi sitt til þess að saurga helgidóm minn og vanhelga heilagt nafn mitt.

En ef landslýður hylmir yfir með slíkum manni, er hann færir Mólok afkvæmi sitt, og líflætur hann ekki,

þá vil ég snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gegn ætt hans. Og ég mun uppræta hann og alla þá, er verða honum samsekir í því að taka fram hjá með Mólok, úr þjóð þeirra.

Sá sem leitar til særingaranda og spásagnaranda til þess að taka fram hjá með þeim, gegn honum vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni.

Helgist og verið heilagir, því að ég er Drottinn, Guð yðar.

Fyrir því skuluð þér varðveita setningar mínar og halda þær. Ég er Drottinn, sá er yður helgar.

Hver sá, sem bölvar föður sínum eða móður sinni, skal líflátinn verða. Föður sínum eða móður sinni hefir hann bölvað, blóðsök hvílir á honum.

10 Þá er einhver drýgir hór með konu annars manns, drýgir hór með konu náunga síns, þá skal líflátinn verða bæði hórkarlinn og hórkonan.

11 Og leggist maður með konu föður síns, þá hefir hann berað blygðan föður síns. Þau skulu bæði líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.

12 Og leggist maður með tengdadóttur sinni, þá skulu þau bæði líflátin verða. Svívirðing hafa þau framið, blóðsök hvílir á þeim.

13 Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.

14 Og taki maður bæði konu og móður hennar, þá er það óhæfa. Skal brenna hann í eldi ásamt þeim, svo að eigi gangist við óhæfa meðal yðar.

15 Og eigi maður samlag við skepnu, þá skal hann líflátinn verða, og skepnuna skuluð þér drepa.

16 Og ef kona kemur nærri einhverri skepnu til samræðis við hana, þá skalt þú deyða konuna og skepnuna. Þau skulu líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.

17 Nú tekur einhver systur sína, dóttur föður síns eða dóttur móður sinnar, og sér blygðan hennar og hún sér blygðan hans, þá er það skömm. Þau skulu upprætt verða í augsýn samlanda sinna. Blygðan systur sinnar hefir hann berað og bakað sér sekt.

18 Leggist maður með konu, sem hefir tíðir, og berar blygðan hennar _ hefir beran gjört brunn hennar og hún hefir sjálf berað brunn blóðs síns _, þá skulu þau bæði upprætt verða úr þjóð sinni.

19 Eigi skalt þú bera blygðan móðursystur þinnar eða föðursystur, því að sá maður hefir bert gjört náið skyldmenni sitt, þau hafa bakað sér sekt.

20 Og ef einhver leggst með sifkonu sinni, þá hefir hann berað blygðan föðurbróður síns. Þau hafa bakað sér synd, barnlaus skulu þau deyja.

21 Og ef einhver tekur konu bróður síns, þá er það saurgun. Blygðan bróður síns hefir hann berað, barnlaus skulu þau vera.

22 Varðveitið því allar setningar mínar og öll lög mín og haldið þau, svo að landið, sem ég mun leiða yður inn í, til þess að þér byggið það, spúi yður ekki.

23 Þér skuluð ekki breyta eftir setningum þeirrar þjóðar, sem ég rek burt undan yður, því að þeir frömdu allt þetta og þess vegna bauð mér við þeim.

24 Fyrir því sagði ég yður: ,Þér skuluð eignast land þeirra, og ég vil gefa yður það til eignar, land sem flýtur í mjólk og hunangi.` Ég er Drottinn, Guð yðar, sem hefi skilið yður frá þjóðunum.

25 Gjörið því grein hreinna ferfætlinga og óhreinna, og óhreinna fugla og hreinna, og gjörið yður eigi viðurstyggilega á skepnum, fuglum né neinu, sem hrærist á jörðinni, því sem ég hefi greint frá, til þess að það væri yður óhreint.

26 Og þér skuluð vera heilagir fyrir mér, því að ég, Drottinn, er heilagur, og hefi skilið yður frá þjóðunum, til þess að þér skuluð vera mínir.

27 Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim."

21 Drottinn sagði við Móse: "Mæl þú til prestanna, sona Arons, og seg við þá: Prestur skal eigi saurga sig á líki meðal fólks síns,

nema það sé skyldmenni hans, honum mjög náið: móðir hans, faðir hans, sonur hans, dóttir hans, bróðir hans

eða systir hans, sem er mey og honum nákomin, og eigi er manni gefin, vegna hennar má hann saurga sig.

Eigi skal hann saurga sig, þar eð hann er höfðingi meðal fólks síns, svo að hann vanhelgi sig.

Eigi skulu þeir gjöra skalla á höfði sér, eigi raka skeggrönd sína, né heldur skera skurði í hold sitt.

Þeir skulu vera heilagir fyrir Guði sínum og ekki vanhelga nafn Guðs síns, því að þeir bera fram eldfórnir Drottins, mat Guðs síns. Fyrir því skulu þeir vera heilagir.

Eigi skulu þeir ganga að eiga skækju eða mey spjallaða, né heldur skulu þeir ganga að eiga konu, er maður hennar hefir rekið frá sér, því að prestur er heilagur fyrir Guði sínum.

Fyrir því skalt þú halda hann heilagan, því að hann ber fram mat Guðs þíns. Hann skal vera þér heilagur, því að ég er heilagur, Drottinn, sá er yður helgar.

Og ef prestsdóttir vanhelgar sig með saurlifnaði, þá vanhelgar hún föður sinn. Hana skal brenna í eldi.

10 Sá sem er æðsti prestur meðal bræðra sinna, og smurningarolíu hefir verið hellt yfir höfuð honum og hönd hans fyllt, að hann klæðist hinum helgu klæðum, hann skal eigi láta hár sitt flaka og eigi rífa sundur klæði sín.

11 Eigi skal hann koma nærri nokkru líki. Vegna föður síns og vegna móður sinnar skal hann eigi saurga sig.

12 Og eigi skal hann ganga út úr helgidóminum, svo að hann vanhelgi ekki helgidóm Guðs síns, því að vígsla smurningarolíu Guðs hans er á honum. Ég er Drottinn.

13 Hann skal ganga að eiga konu í meydómi hennar.

14 Ekkju eða konu brott rekna eða mey spjallaða, skækju, eigi skal hann slíkum kvænast, heldur skal hann taka sér fyrir konu mey af þjóð sinni.

15 Eigi skal hann vanhelga afkvæmi sitt meðal fólks síns, því að ég er Drottinn, sá er helgar hann."

16 Drottinn talaði við Móse og sagði:

17 "Mæl þú til Arons og seg: Hafi einhver niðja þinna, nú eða í komandi kynslóðum, lýti á sér, þá skal hann eigi ganga fram til þess að bera fram mat Guðs síns.

18 Því að enginn sá, er lýti hefir á sér, skal ganga fram, sé hann blindur eða haltur eða örkumlaður í andliti eða hafi ofskapaðan útlim,

19 eða sé hann fótbrotinn eða handleggsbrotinn,

20 eða hafi hann herðakistil eða sé tærður eða hafi vagl á auga eða kláða eða útbrot eða eistnamar.

21 Enginn af niðjum Arons prests, sem lýti hefir á sér, skal koma fram til þess að bera fram eldfórnir Drottins. Lýti er á honum; eigi skal hann koma fram til þess að bera fram mat Guðs síns.

22 Mat Guðs síns, bæði af því, sem háheilagt er og heilagt, má hann eta.

23 En þó skal hann hvorki ganga inn að fortjaldinu né koma nærri altarinu, því að lýti er á honum, að hann eigi vanhelgi helga dóma mína; því að ég er Drottinn, sá er helgar þá."

24 Þannig talaði Móse við Aron og sonu hans og við alla Ísraelsmenn.