A A A A A
Bible Book List

Þriðja bók Móse 11-13 Icelandic Bible (ICELAND)

11 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði við þá:

"Talið til Ísraelsmanna og segið: Þessi eru þau dýr, er þér megið eta af öllum ferfættum dýrum, sem eru á jörðinni:

Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta.

Af þeim, sem jórtra og klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta: Úlfaldann, því að hann jórtrar að sönnu, en er eigi klaufhæfður; hann sé yður óhreinn;

stökkhérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn;

hérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn;

og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, og þær alklofnar, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint.

Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta. Þau skulu vera yður óhrein.

Af lagardýrum megið þér eta þessi: Öll lagardýr, sem hafa sundugga og hreistur, hvort heldur er í sjó eða ám, megið þér eta.

10 En af öllu því, sem kvikt er í vötnunum, og af öllum lifandi skepnum, sem eru í vötnunum, séu öll þau dýr í sjó eða ám, sem eigi hafa sundugga og hreistur, yður viðurstyggð.

11 Viðurstyggð skulu þau vera yður. Ekki skuluð þér eta kjöt þeirra, og við hræjum þeirra skal yður stugga.

12 Öll lagardýr, sem ekki hafa sundugga og hreistur, skulu vera yður viðurstyggð.

13 Af fuglunum skal yður stugga við þessum, _ þér skuluð eigi eta þá, þeir eru viðurstyggð _: örninn, skegg-gammurinn og gammurinn,

14 gleðan og valakynið,

15 allt hrafnakynið,

16 strúturinn, svalan, mávurinn og haukakynið,

17 uglan, súlan og náttuglan,

18 hornuglan, pelíkaninn og hrægammurinn,

19 storkurinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblakan.

20 Öll fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð.

21 Af öllum fleygum skriðkvikindum ferfættum megið þér þau ein eta, er hafa leggi upp af afturfótunum til þess að stökkva með um jörðina.

22 Af þeim megið þér eta þessi: arbe-engisprettur, sólam-engisprettur, hargól-engisprettur og hagab-engisprettur.

23 En öll önnur fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð.

24 Af þessum dýrum verðið þér óhreinir. Hver sem snertir hræ þeirra, verður óhreinn til kvelds.

25 En hver sá, sem ber hræ þeirra, hann skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds.

26 Hvert það ferfætt dýr, sem hefir klaufir, þó eigi alklofnar, og eigi jórtrar, sé yður óhreint. Hver sem þau snertir verður óhreinn.

27 Og öll þau, sem ganga á hrömmum sínum, meðal allra dýra ferfættra, séu yður óhrein. Hver sem snertir hræ þeirra, er óhreinn til kvelds.

28 Og sá, sem ber hræ þeirra, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. Þau skulu vera yður óhrein.

29 Þessi skulu vera yður óhrein á meðal skriðkvikindanna, sem skríða á jörðinni: hreysivislan, músin og eðlukynið,

30 skrækeðlan, kóah-eðlan, leta-eðlan, salamandran og kamelljónið.

31 Þessi skulu vera yður óhrein meðal allra skriðkvikindanna. Hver sem snertir þau, þegar þau eru dauð, verður óhreinn til kvelds.

32 Sérhvað það, er eitthvert af þeim fellur ofan á, þegar þau eru dauð, verður óhreint, hvort heldur er tréílát, klæði, skinn eða sekkur; öll þau áhöld, sem til einhvers eru notuð. Skal það í vatn leggja og er óhreint til kvelds, þá er það hreint.

33 Falli eitthvert af þeim ofan í leirker, þá verður allt, sem í því er, óhreint, og kerið skuluð þér brjóta.

34 Allur matur, sem etinn er og vatn er látið í, verður óhreinn, og allur drykkur, sem drukkinn er, verður óhreinn, í hvaða keri sem hann er.

35 Og sérhvað það, sem hræ þeirra fellur á, verður óhreint. Hvort heldur er ofn eða eldstó, skal það rifið niður. Það er óhreint, og óhreint skal það yður vera.

36 Lindir einar og brunnar, það er vatnsstæður, skulu hreinar vera, en sá, sem hræin snertir, verður óhreinn.

37 En þó að eitthvað af hræjunum falli á útsæði, sem á að sá, þá er það hreint.

38 En ef vatn er látið á sæðið og eitthvað af hræjunum fellur ofan í það, þá sé það yður óhreint.

39 Þegar einhver af þeim skepnum deyr, sem yður eru til fæðu, þá skal sá, er snertir dauðan skrokkinn, vera óhreinn til kvelds.

40 Og sá, sem etur af skrokknum, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. Og sá, sem ber skrokkinn, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds.

41 Öll skriðkvikindi, sem skríða á jörðinni, skulu vera yður viðurstyggð. Eigi skal þau eta.

42 Öll þau, er skríða á kviðnum, og öll þau, er ganga á fjórum fótum, svo og allar margfætlur meðal allra skriðkvikinda, er skríða á jörðinni, þau skuluð þér eigi eta, því að þau eru viðurstyggð.

43 Látið eigi nokkurt skriðkvikindi gjöra yður sjálfa viðurstyggilega, og saurgið yður ekki á þeim, svo að þér verðið óhreinir af þeim.

44 Því að ég er Drottinn, Guð yðar. Og helgist og verið heilagir, því að ég er heilagur. Og þér skuluð ekki saurga sjálfa yður á nokkru því skriðkvikindi, sem skríður á jörðinni.

45 Því að ég er Drottinn, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Guð. Þér skuluð vera heilagir, því að ég er heilagur."

46 Þessi eru ákvæðin um ferfættu dýrin, fuglana og allar lifandi skepnur, sem hrærast í vötnunum, og um allar lifandi skepnur, sem jörðin er kvik af,

47 svo að menn viti grein óhreinna og hreinna dýra, svo og ætra dýra og óætra.

12 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Þegar kona verður léttari og elur sveinbarn, þá skal hún vera óhrein sjö daga. Skal hún vera óhrein, eins og þá daga, sem hún er saurug af klæðaföllum.

Og á áttunda degi skal umskera hold yfirhúðar hans.

En konan skal halda sér heima þrjátíu og þrjá daga, meðan á blóðhreinsuninni stendur. Hún skal ekkert heilagt snerta og eigi inn í helgidóminn koma, uns hreinsunardagar hennar eru úti.

En ef hún elur meybarn, þá skal hún vera óhrein hálfan mánuð, sem þá er hún er saurug af klæðaföllum, og hún skal halda sér heima sextíu og sex daga, meðan á blóðhreinsuninni stendur.

En þegar hreinsunardagar hennar eru úti, hvort heldur er fyrir son eða dóttur, þá skal hún færa prestinum að dyrum samfundatjaldsins sauðkind veturgamla í brennifórn og unga dúfu eða turtildúfu í syndafórn.

Skal hann fram bera það fyrir Drottin og friðþægja fyrir hana, og er hún þá hrein af blóðlátum sínum." Þessi eru ákvæðin um sængurkonuna, hvort heldur barnið er sveinbarn eða meybarn.

En ef hún á ekki fyrir sauðkind, þá færi hún tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í brennifórn, en hina í syndafórn, og skal presturinn friðþægja fyrir hana, og er hún þá hrein.

13 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:

"Nú tekur einhver þrota, hrúður eða gljádíla í skinnið á hörundi sínu og verður að líkþrárskellu í skinninu á hörundi hans. Þá skal leiða hann fyrir Aron prest eða einhvern af prestunum, sonum hans.

Og prestur skal líta á skelluna í skinninu á hörundinu, og hafi hárin í skellunni gjörst hvít og beri skelluna dýpra en skinnið á hörundi hans, þá er það líkþrárskella. Og prestur skal líta á hann og dæma hann óhreinan.

En sé hvítur gljádíli í skinninu á hörundi hans og beri ekki dýpra en skinnið og hafi hárin í honum ekki gjörst hvít, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skelluna hefir tekið.

Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann að jafnmikið ber á skellunni og hafi skellan ekki færst út í skinninu, þá skal prestur byrgja hann enn inni sjö daga.

Og prestur skal enn líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann þá, að skellan hefir dökknað, og hafi skellan ekki færst út í skinninu, skal prestur dæma hann hreinan. Þá er það hrúður, og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn.

En færist hrúðrið út í skinninu eftir að hann sýndi sig prestinum til þess að verða dæmdur hreinn, þá skal hann aftur sýna sig prestinum.

Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hrúðrið hefir færst út í skinninu, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrá.

Nú tekur einhver líkþrárskellu, og skal leiða hann fyrir prest.

10 Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hvítur þroti er í skinninu og hefir gjört hárin hvít, og lifandi kvika er í þrotanum,

11 þá er það gömul líkþrá í skinninu á hörundi hans, og skal prestur dæma hann óhreinan. Hann skal eigi byrgja hann inni, því að hann er óhreinn.

12 En brjótist líkþráin út um skinnið og hylji líkþráin allt skinnið frá hvirfli til ilja á þeim, er skellurnar hefir tekið, hvar sem prestur rennir augum til,

13 þá skal prestur líta á, og sjái hann, að líkþráin hefir hulið allt hörund hans, þá skal hann dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Hann hefir þá allur gjörst hvítur og er þá hreinn.

14 En þegar er ber á kviku holdi á honum, skal hann vera óhreinn.

15 Og prestur skal líta á kvika holdið og dæma hann óhreinan. Kvika holdið er óhreint. Þá er það líkþrá.

16 En hverfi kvika holdið og gjörist hvítt, þá skal hann ganga fyrir prest.

17 Og prestur skal líta á hann, og sjái hann að skellurnar hafa gjörst hvítar, þá skal prestur dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Þá er hann hreinn.

18 Nú kemur kýli í hörundið, út í skinnið, og grær,

19 og kemur í stað kýlisins hvítur þroti eða gljádíli ljósrauður, þá skal hann sýna sig presti.

20 Og prestur skal líta á, og sjái hann, að dílann ber lægra en skinnið og hárin í honum hafa gjörst hvít, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt, sem brotist hefir út í kýlinu.

21 En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í honum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga.

22 En færist hann út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.

23 En ef gljádílinn stendur í stað og færist eigi út, þá er það kýlis-ör, og prestur skal dæma hann hreinan.

24 En ef brunasár kemur á hörundið og brunakvikan verður að gljádíla ljósrauðum eða hvítum,

25 þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að hárin í gljádílanum hafa gjörst hvít og ber hann dýpra en skinnið, þá er það líkþrá, sem hefir brotist út í brunanum, og skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.

26 En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í gljádílanum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga.

27 Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi. Hafi hann þá færst út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.

28 En ef gljádílinn stendur í stað og hefir eigi færst út í skinninu, en dökknað, þá er það brunaþroti, og skal prestur dæma hann hreinan, því að þá er það bruna-ör.

29 Nú tekur karl eða kona skellu í höfuðið eða skeggið.

30 Þá skal prestur líta á skelluna, og sjái hann, að hana ber dýpra en skinnið og gulleit visin hár eru í henni, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það skurfa, það er líkþrá í höfði eða skeggi.

31 Og er prestur lítur á skurfuskelluna og sér, að hana ber ekki dýpra en skinnið og engin svört hár eru í henni, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skurfuskelluna hefir tekið.

32 Og prestur skal líta á skelluna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út og engin gulleit hár eru í henni og skurfuna ber eigi dýpra en skinnið,

33 þá skal hann raka sig, en skurfuna skal hann ekki raka, og prestur skal enn byrgja inni sjö daga þann, er skurfuna hefir tekið.

34 Og prestur skal líta á skurfuna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út í skinninu og hana ber ekki dýpra en skinnið, þá skal prestur dæma hann hreinan. Og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn.

35 En ef skurfan færist út í skinninu eftir að hann hefir verið dæmdur hreinn,

36 þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að skurfan hefir færst út í skinninu, þá skal prestur ekki leita að gulleitu hárunum. Þá er hann óhreinn.

37 En ef jafnmikið ber á skurfunni og svört hár hafa sprottið í henni, þá er skurfan gróin. Hann er þá hreinn, og prestur skal dæma hann hreinan.

38 Nú tekur karl eða kona gljádíla, hvíta gljádíla í skinnið á hörundi sínu,

39 þá skal prestur líta á. Og sjái hann, að gljádílarnir í skinninu á hörundi þeirra eru dumb-hvítir, þá er það hringormur, sem hefir brotist út í skinninu. Þá er hann hreinn.

40 Nú verður einhver sköllóttur ofan á höfðinu, þá er hann hvirfilskalli og er hreinn.

41 Og ef hann verður sköllóttur framan á höfðinu, þá er hann ennisskalli og er hreinn.

42 En sé ljósrauð skella í hvirfilskallanum eða ennisskallanum, þá er það líkþrá, er út brýst í hvirfilskalla hans eða ennisskalla.

43 Prestur skal þá líta á hann, og sjái hann að skelluþrotinn í hvirfilskalla hans eða ennisskalla er ljósrauður, á að sjá sem líkþrá í skinninu á hörundinu,

44 þá er hann maður líkþrár og er óhreinn. Prestur skal sannlega dæma hann óhreinan. Líkþrársóttin er í höfði honum.

45 Líkþrár maður, er sóttina hefir, _ klæði hans skulu vera rifin og hár hans flakandi, og hann skal hylja kamp sinn og hrópa: ,Óhreinn, óhreinn!`

46 Alla þá stund, er hann hefir sóttina, skal hann óhreinn vera. Hann er óhreinn. Hann skal búa sér. Bústaður hans skal vera fyrir utan herbúðirnar.

47 Nú kemur líkþrárskella á fat, hvort heldur er ullarfat eða línfat,

48 eða vefnað eða prjónles af líni eða ullu, eða skinn eða eitthvað það, sem af skinni er gjört,

49 og sé skellan grænleit eða rauðleit á fatinu eða skinninu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða nokkrum hlut af skinni gjörvum, þá er það líkþrárskella, og skal sýna það prestinum.

50 Og prestur skal líta á skelluna og byrgja inni sjö daga það, er skellan er á.

51 Og hann skal líta á skelluna á sjöunda degi. Hafi skellan færst út á fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða skinninu, til hverra nota sem skinnið er haft, þá er skellan skæð líkþrá. Þá er það óhreint.

52 Og skal brenna fatið eða vefnaðinn eða prjónlesið, hvort það er heldur af ullu eða líni, eða hvern hlut af skinni gjörvan, er skellan er á, því að það er skæð líkþrá. Það skal í eldi brenna.

53 En ef prestur lítur á og sér, að skellan hefir eigi færst út í fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða á einhverjum hlut af skinni gjörvum,

54 þá skal prestur bjóða að þvo það, sem skellan er á, og hann skal enn byrgja það inni sjö daga.

55 Og prestur skal líta á, eftir að það, sem skellan er á, er þvegið, og sjái hann, að skellan hefir eigi breytt lit og skellan hefir eigi færst út, þá er það óhreint. Þú skalt brenna það í eldi, þá er það áta, hvort það er heldur á úthverfunni eða rétthverfunni.

56 En ef prestur lítur á og sér, að skellan hefir dökknað, eftir að hún var þvegin, þá skal hann rífa hana af fatinu eða skinninu eða vefnaðinum eða prjónlesinu.

57 En komi hún enn í ljós á fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða á nokkrum hlut af skinni gjörvum, þá er það líkþrá, sem er að brjótast út. Þú skalt brenna í eldi það, er skellan er á.

58 En það fat eða vefnaður eða prjónles, eða sérhver hlutur af skinni gjör, sem skellan gengur af, ef þvegið er, það skal þvo annað sinn, og er þá hreint."

59 Þessi eru ákvæðin um líkþrársótt í ullarfati eða línfati eða vefnaði eða prjónlesi eða nokkrum hlut af skinni gjörvum, er það skal dæma hreint eða óhreint.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes