Add parallel Print Page Options

Abímelek Jerúbbaalsson fór til Síkem til móðurbræðra sinna og talaði við þá og við allt frændlið móðurættar sinnar á þessa leið:

"Talið svo í eyru allra Síkembúa: ,Hvort mun yður betra, að sjötíu menn, allir synir Jerúbbaals, drottni yfir yður, eða að einn maður drottni yfir yður?` Minnist þess og, að ég er yðar hold og bein."

Móðurbræður hans töluðu öll þessi orð um hann í eyru Síkembúa, svo að hugur þeirra hneigðist að Abímelek, því að þeir sögðu: "Hann er bróðir vor."

Þeir gáfu honum sjötíu sikla silfurs úr musteri Sáttmála-Baals, og Abímelek leigði fyrir það lausingja og óvendismenn og gjörðist fyrirliði þeirra.

Því næst fór hann til húss föður síns í Ofra og drap bræður sína, sonu Jerúbbaals, sjötíu manns á einum steini. Jótam, yngsti sonur Jerúbbaals, varð einn eftir, því að hann hafði falið sig.

En allir Síkembúar söfnuðust nú saman og allir þeir, sem bjuggu í Síkemkastala, og fóru til og tóku Abímelek til konungs hjá merkisteinseikinni, sem er hjá Síkem.

Er Jótam spurði þetta, fór hann og nam staðar á tindi Garísímfjalls, hóf upp raust sína, kallaði og mælti til þeirra: "Heyrið mig, Síkembúar, svo að Guð heyri yður!

Einu sinni fóru trén að smyrja konung sér til handa. Og þau sögðu við olíutréð: Ver þú konungur yfir oss!

En olíutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa feiti mína, sem Guð og menn virða mig fyrir, og fara að sveima uppi yfir trjánum?

10 Þá sögðu trén við fíkjutréð: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

11 En fíkjutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa sætleik minn og ágætan ávöxt minn og fara að sveima uppi yfir trjánum?

12 Þá sögðu trén við vínviðinn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

13 En vínviðurinn sagði við þau: Á ég að yfirgefa vínlög minn, sem gleður bæði Guð og menn, og fara að sveima uppi yfir trjánum?

14 Þá sögðu öll trén við þyrninn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

15 En þyrnirinn sagði við trén: Ef það er alvara yðar að smyrja mig til konungs, þá komið og fáið yður skjól í skugga mínum. En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá þyrninum og eyði sedrustrjánum á Líbanon.

16 Nú ef þér hafið sýnt hreinskilni og einlægni í því að taka Abímelek til konungs, og ef þér hafið gjört vel við Jerúbbaal og hús hans og ef þér hafið breytt við hann, eins og hann hafði til unnið _

17 því að fyrir yður barðist faðir minn og stofnaði lífi sínu í hættu, og yður frelsaði hann úr höndum Midíans,

18 en þér hafið í dag risið upp í gegn húsi föður míns og drepið sonu hans, sjötíu að tölu, á einum steini og tekið Abímelek, son ambáttar hans, til konungs yfir Síkembúa, af því að hann er bróðir yðar _

19 ef þér því hafið sýnt Jerúbbaal og húsi hans hreinskilni og einlægni í dag, þá gleðjist yfir Abímelek, og hann gleðjist þá og yfir yður.

20 En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá Abímelek og eyði Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og þá gangi eldur út frá Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og eyði Abímelek."

21 Síðan lagði Jótam á flótta og flýði burt og fór til Beer. Þar settist hann að, til þess að vera óhultur fyrir Abímelek bróður sínum.

22 Abímelek réð nú fyrir Ísrael í þrjú ár.

23 Þá lét Guð sundurþykkis anda koma upp milli Abímeleks og Síkembúa, svo að Síkembúar rufu tryggðir við Abímelek,

24 til þess að hefnd kæmi fyrir níðingsverkið á þeim sjötíu sonum Jerúbbaals og að blóð þeirra kæmi yfir Abímelek, bróður þeirra, sem drepið hafði þá, og yfir Síkembúa, sem styrkt höfðu hann til að drepa bræður hans.

25 Settu Síkembúar þá menn í launsát í móti honum hæst á fjöllum uppi, og rændu þeir alla þá, er um veginn fóru fram hjá þeim. Og Abímelek var sagt frá því.

26 Þá kom Gaal Ebedsson og bræður hans, og héldu þeir inn í Síkem, og Síkembúar fengu traust á honum.

27 Þeir fóru út á akurinn og lásu vínberin í víngörðum sínum og tróðu þau og héldu hátíð, fóru inn í musteri guðs síns og átu og drukku og bölvuðu Abímelek.

28 Og Gaal Ebedsson sagði: "Hver er Abímelek og hverjir erum vér í Síkem, að vér eigum að lúta honum? Er hann ekki sonur Jerúbbaals og Sebúl höfuðsmaður hans? Lútið mönnum Hemors, föður Síkems! En hví skyldum vér eiga að lúta honum?

29 Ég vildi að fólk þetta væri undir minni hendi, þá skyldi ég ekki vera lengi að reka Abímelek burt og segja við Abímelek: Auk her þinn og kom út!"

30 Er Sebúl, höfuðsmaður borgarinnar, spurði ummæli Gaals Ebedssonar, upptendraðist reiði hans,

31 og sendi hann menn á laun til Abímeleks og lét segja honum: "Sjá, Gaal Ebedsson og bræður hans eru komnir til Síkem og æsa þeir borgina upp í móti þér.

32 Tak þig því upp um nótt með liðið, sem hjá þér er, og leggstu í launsátur úti á víðavangi,

33 og að morgni, þegar sól rennur upp, þá skalt þú vera árla á fótum og ráðast á borgina. Þá mun hann og liðið, sem með honum er, fara út í móti þér, og skalt þú þá með hann fara svo sem þú færð færi á."

34 Þá tók Abímelek sig upp um nótt með allt liðið, sem hjá honum var, og þeir lögðust í launsát í fjórum flokkum móti Síkem.

35 Og er Gaal Ebedsson kom út og nam staðar fyrir utan borgarhliðið, þá spratt Abímelek upp úr launsátinni og liðið, sem með honum var.

36 Og Gaal sá liðið og sagði við Sebúl: "Sjá, þarna kemur fólk ofan af fjöllunum." En Sebúl sagði við hann: "Þú sérð skuggann í fjöllunum og ætlar menn vera."

37 En Gaal hélt áfram að mæla og sagði: "Sjá, þarna kemur fólk ofan af háhæðinni, og einn hópur kemur frá veginum að spásagnaeikinni."

38 Þá mælti Sebúl við hann: "Hvar eru nú stóryrði þín, er þú sagðir: ,Hver er Abímelek, að vér eigum að lúta honum?` Er þetta ekki liðið, sem þú fyrirleist? Láttu nú sjá, far út og berst við það."

39 Fór Gaal þá fyrir Síkembúum og barðist við Abímelek.

40 En Abímelek sótti svo hart að honum, að hann flýði fyrir honum, og varð þar mannfall mikið allt að borgarhliðinu.

41 Eftir það dvaldist Abímelek í Arúma, en Sebúl rak Gaal og bræður hans burt, svo að þeir fengu ekki að búa í Síkem.

42 En daginn eftir fór fólkið út á akurinn, og sögðu menn Abímelek frá því.

43 Þá tók hann lið sitt og skipti því í þrjár sveitir og lagðist í launsát úti á víðavangi, og er hann sá fólkið koma út úr borginni, réðst hann á það og vann sigur á því.

44 Abímelek sjálfur og sveitin, sem með honum var, þusti fram og nam staðar fyrir borgarhliðinu, en báðar hinar sveitirnar gjörðu áhlaup á alla þá, sem úti á víðavangi voru, og unnu sigur á þeim.

45 Því næst herjaði Abímelek á borgina allan þann dag og vann borgina, og drap fólkið, sem í henni var; braut síðan niður borgina og stráði yfir hana salti.

46 Er allir þeir menn, sem bjuggu í Síkemkastala, heyrðu þetta, gengu þeir inn í hvelfinguna í musteri Sáttmála-guðs.

47 Og er Abímelek var sagt frá því, að allir menn í Síkemkastala hefðu safnast þar saman,

48 þá fór Abímelek upp á Salmónfjall með allt liðið, sem hjá honum var. Og Abímelek tók öxi í hönd sér og hjó af trjágrein, hóf á loft og lagði á herðar sér og sagði við liðið, sem með honum var: "Gjörið nú sem skjótast slíkt hið sama, er þér sáuð mig gjöra."

49 Þá hjó og allt fólkið hver sína grein, og fylgdu þeir Abímelek og báru að hvelfingunni og lögðu síðan eld í hvelfinguna yfir þeim, svo að allir menn í Síkemkastala dóu, hér um bil eitt þúsund karla og kvenna.

50 Síðan fór Abímelek til Tebes og settist um Tebes og vann hana.

51 En í miðri borginni var sterkur turn. Þangað flýðu allir menn og konur, já, allir borgarbúar. Lokuðu þeir sig þar inni og stigu síðan upp á þakið á turninum.

52 Nú kom Abímelek að turninum og gjörði áhlaup á hann. En er hann gekk að dyrum turnsins, til þess að leggja eld í hann,

53 þá kastaði kona ein efri kvarnarsteini í höfuð Abímelek og mölvaði sundur hauskúpuna.

54 Þá kallaði hann sem skjótast til skjaldsveins síns og mælti við hann: "Bregð sverði þínu og deyð mig, svo að eigi verði um mig sagt: Kona drap hann!" Þá lagði sveinn hans hann í gegn, og varð það hans bani.

55 En er Ísraelsmenn sáu, að Abímelek var dauður, fóru þeir hver heim til sín.

56 Þannig galt Guð illsku Abímeleks, þá er hann hafði í frammi haft við föður sinn, er hann drap sjötíu bræður sína.

57 Og Guð lét alla illsku Síkembúa koma þeim í koll. Rættist þannig á þeim formæling Jótams Jerúbbaalssonar.

10 Eftir Abímelek reis upp Tóla Púason, Dódóssonar, maður af Íssakar, til að frelsa Ísrael. Hann bjó í Samír á Efraímfjöllum,

og var hann dómari í Ísrael í tuttugu og þrjú ár. Síðan andaðist hann og var grafinn í Samír.

Eftir hann reis upp Jaír Gíleaðíti og var dómari í Ísrael í tuttugu og tvö ár.

Hann átti þrjátíu sonu, sem riðu á þrjátíu ösnufolum, þeir áttu þrjátíu borgir. Eru þær kallaðar Jaírs-þorp allt fram á þennan dag. Þær liggja í Gíleaðlandi.

Síðan andaðist Jaír og var grafinn í Kamón.

Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins, og dýrkuðu Baala og Astörtur, guði Arams, guði Sídonar, guði Móabs, guði Ammóníta og guði Filista, og yfirgáfu Drottin og dýrkuðu hann ekki.

Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann seldi þá í hendur Filistum og í hendur Ammónítum.

Og þeir þjáðu og þjökuðu Ísraelsmenn það ár. Í átján ár þjökuðu þeir alla Ísraelsmenn, sem bjuggu hinumegin Jórdanar í landi Amoríta, þá er bjuggu í Gíleað.

Enn fremur fóru Ammónítar yfir Jórdan til þess að herja einnig á Júda, Benjamín og Efraíms hús, svo að Ísrael komst í miklar nauðir.

10 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins og sögðu: "Vér höfum syndgað móti þér, því að vér höfum yfirgefið Guð vorn og dýrkað Baala."

11 En Drottinn sagði við Ísraelsmenn: "Hafa ekki Egyptar, Amorítar, Ammónítar, Filistar,

12 Sídoningar, Amalekítar og Midíanítar kúgað yður? Þá hrópuðuð þér til mín og ég frelsaði yður úr höndum þeirra.

13 En þér hafið yfirgefið mig og dýrkað aðra guði. Fyrir því vil ég eigi framar hjálpa yður.

14 Farið og hrópið til guða þeirra, er þér hafið kjörið. Hjálpi þeir yður, þegar þér eruð í nauðum."

15 Þá sögðu Ísraelsmenn við Drottin: "Vér höfum syndgað. Gjör við oss rétt sem þér líkar, frelsa oss aðeins í dag."

16 Síðan köstuðu þeir burt frá sér útlendu guðunum og dýrkuðu Drottin. Eirði hann þá illa eymd Ísraels.

17 Þá var Ammónítum stefnt saman, og settu þeir herbúðir sínar í Gíleað. Og Ísraelsmenn söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Mispa.

18 En lýðurinn, höfðingjarnir í Gíleað sögðu hver við annan: "Hver er sá maður, er fyrstur vill hefja ófrið við Ammóníta? Hann skal vera höfðingi yfir öllum Gíleaðbúum!"

17 Dag nokkurn var hann að kenna. Þar sátu farísear og lögmálskennendur, komnir úr hverju þorpi í Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Drottins var með honum til þess að lækna.

18 Komu þá menn með lama mann í rekkju og reyndu að bera hann inn og leggja hann fyrir framan Jesú.

19 En vegna mannfjöldans sáu þeir engin ráð til að komast inn með hann og fóru því upp á þak og létu hann síga í rekkjunni niður um helluþekjuna beint fram fyrir Jesú.

20 Og er hann sá trú þeirra, sagði hann: "Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar."

21 Þá tóku fræðimennirnir og farísearnir að hugsa með sér: "Hver er sá, er fer með slíka guðlöstun? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?"

22 En Jesús skynjaði gjörla hugsanir þeirra og sagði við þá: "Hvað hugsið þér í hjörtum yðar?

23 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru þér fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp og gakk`?

24 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér:" _ og nú talar hann við lama manninn _ "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín."

25 Jafnskjótt stóð hann upp frammi fyrir þeim, tók það, sem hann hafði legið á, fór heim til sín og lofaði Guð.

26 En allir voru furðu lostnir og lofuðu Guð. Og þeir urðu ótta slegnir og sögðu: "Óskiljanlegt er það, sem vér höfum séð í dag."

27 Eftir þetta fór hann út. Þá sá hann tollheimtumann, Leví að nafni, sitja hjá tollbúðinni og sagði við hann: "Fylg þú mér!"

28 Og hann stóð upp, yfirgaf allt og fylgdi honum.

29 Leví bjó honum veislu mikla í húsi sínu, og þar sat að borði með þeim mikill fjöldi tollheimtumanna og annarra.

30 En farísearnir og fræðimenn þeirra vönduðu um við lærisveina hans og sögðu: "Hvers vegna etið þér og drekkið með tollheimtumönnum og bersyndugum?"

31 Og Jesús svaraði þeim: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.

32 Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara til iðrunar."

33 En þeir sögðu við hann: "Lærisveinar Jóhannesar fasta oft og fara með bænir og eins lærisveinar farísea, en þínir eta og drekka."

34 Jesús sagði við þá: "Hvort getið þér ætlað brúðkaupsgestum að fasta, meðan brúðguminn er hjá þeim?

35 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim dögum."

36 Hann sagði þeim einnig líkingu: "Enginn rífur bót af nýju fati og lætur á gamalt fat, því að bæði rífur hann þá nýja fatið og bótin af því hæfir ekki hinu gamla.

37 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir nýja vínið belgina og fer niður, en belgirnir ónýtast.

38 Nýtt vín ber að láta á nýja belgi.

39 Og enginn, sem drukkið hefur gamalt vín, vill nýtt, því að hann segir: ,Hið gamla er gott."`

Read full chapter