A A A A A
Bible Book List

Dómarabókin 8-9 Icelandic Bible (ICELAND)

Efraímítar sögðu við Gídeon: "Hví gjörðir þú oss þetta, að kalla oss eigi? Heldur hefir þú farið einn til þess að berjast við Midíaníta." Og þeir þráttuðu ákaflega við hann.

Þá sagði hann við þá: "Hvað hefi ég nú gjört í samanburði við yður? Er ekki eftirtíningur Efraíms betri en vínberjatekja Abíesers?

Í yðar hendur hefir Guð gefið höfðingja Midíans, þá Óreb og Seeb. Hvað hefi ég megnað að gjöra í samanburði við yður?" Og er hann hafði þetta mælt, sefaðist reiði þeirra við hann.

Gídeon kom nú að Jórdan og fór yfir hana með þau þrjú hundruð manna, er með honum voru, en þeir voru þreyttir orðnir að reka flóttann.

Og hann sagði við Súkkótbúa: "Gefið liðinu, sem fylgir mér, brauðhleifa, því að þeir eru þreyttir orðnir, þar eð ég er að elta þá Seba og Salmúna, Midíans konunga."

En höfðingjarnir í Súkkót sögðu: "Eru þeir Seba og Salmúna þegar gengnir þér svo í greipar, að vér megum gefa her þínum brauð?"

Þá sagði Gídeon: "Sé það svo! Þegar Drottinn gefur Seba og Salmúna í mínar hendur, þá skal ég þreskja hold yðar með þyrnum eyðimerkurinnar og með þistlum."

Þaðan fór hann til Penúel og mælti við þá á sömu leið. En Penúelbúar svöruðu honum hinu sama og Súkkótbúar höfðu svarað.

Þá sagði hann og við Penúelbúa á þessa leið: "Þegar ég kem aftur heilu og höldnu, mun ég brjóta niður kastala þennan."

10 Þeir Seba og Salmúna voru í Karkór og herlið þeirra með þeim, um fimmtán þúsundir manna, allir þeir, er eftir voru af öllum her austurbyggja, en eitt hundrað og tuttugu þúsundir vopnaðra manna voru fallnar.

11 Fór Gídeon nú tjaldbúaleið fyrir austan Nóba og Jogbeha og réðst á herbúðirnar, þá er herinn uggði eigi að sér.

12 Þeir Seba og Salmúna flýðu, en hann elti þá og tók höndum báða Midíanskonungana Seba og Salmúna, og tvístraði öllum hernum.

13 Eftir það sneri Gídeon Jóasson aftur úr leiðangrinum hjá Heresstígnum.

14 Og hann tók höndum svein nokkurn frá Súkkótbúum og kvaddi hann sagna, og sveinninn skrifaði upp fyrir hann höfðingjana í Súkkót og öldungana, sjötíu og sjö manns.

15 Og er hann kom til Súkkótbúa, sagði hann: "Hér eru þú þeir Seba og Salmúna, er þér hædduð mig fyrir og sögðuð: ,Eru þeir Seba og Salmúna þegar gengnir svo í greipar þér, að vér megum gefa þreyttum mönnum þínum brauð?"`

16 Og hann tók öldunga borgarinnar og þyrna eyðimerkurinnar og þistla og lét Súkkótbúa kenna á þeim.

17 Og hann braut niður kastalann í Penúel og drap borgarbúa.

18 Síðan sagði hann við Seba og Salmúna: "Hvernig voru þeir menn í hátt, er þið drápuð hjá Tabor?" Þeir sögðu: "Þeir voru alveg eins og þú. Voru þeir allir slíkir ásýndum sem væru þeir konungssynir."

19 Þá sagði hann: "Þeir hafa verið bræður mínir, synir móður minnar. Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Ef þið hefðuð gefið þeim líf, mundi ég ekki hafa drepið ykkur."

20 Því næst sagði hann við Jeter, frumgetinn son sinn: "Far þú til og drep þá!" En sveinninn brá ekki sverði sínu, því að hann bar ekki hug til, enda var hann ungur að aldri.

21 En þeir Seba og Salmúna sögðu: "Far þú sjálfur til og vinn á okkur, því að afl fylgir aldri manns." Fór þá Gídeon til og drap þá Seba og Salmúna og tók tinglin, sem voru um hálsana á úlföldum þeirra.

22 Þá sögðu Ísraelsmenn við Gídeon: "Drottna þú yfir oss, bæði þú og sonur þinn og sonarsonur þinn, því að þú hefir frelsað oss af hendi Midíans."

23 En Gídeon sagði við þá: "Eigi mun ég drottna yfir yður, og eigi mun sonur minn heldur drottna yfir yður. Drottinn skal yfir yður drottna."

24 Þá sagði Gídeon við þá: "Bónar vil ég biðja yður. Gefið mér allir eyrnahringa þá, er þér hafið fengið að herfangi," _ en Ísmaelítar báru eyrnahringa af gulli.

25 Þeir svöruðu: "Vér viljum fúslega gefa þér þá." Og þeir breiddu út skikkju og köstuðu þangað hver og einn eyrnahringum þeim, er þeir höfðu fengið að herfangi.

26 En þyngd þessara eyrnahringa af gulli, er hann beiðst hafði, var eitt þúsund og sjö hundruð siklar gulls, fyrir utan tinglin, eyrnaperlurnar og purpuraklæðin, sem Midíanskonungarnir báru, og fyrir utan festar þær, sem voru um hálsana á úlföldum þeirra.

27 Og Gídeon gjörði úr því hökul og reisti hann upp í borg sinni, í Ofra, og allur Ísrael tók þar fram hjá með honum, og það varð Gídeon og húsi hans að tálsnöru.

28 Þannig urðu Midíanítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum og máttu aldrei síðan höfuð hefja. Var nú friður í landi í fjörutíu ár, meðan Gídeon var á lífi.

29 Því næst hélt Jerúbbaal Jóasson heim til sín og bjó í sínu húsi.

30 Gídeon átti sjötíu sonu, sem út gengnir voru af lendum hans, því að hann átti margar konur.

31 Og hjákona hans, sú er hann átti í Síkem, fæddi honum og son, og hann nefndi hann Abímelek.

32 Gídeon Jóasson dó í góðri elli og var grafinn í gröf Jóasar, föður síns, í Ofra Abíesrítanna.

33 En er Gídeon var dáinn, tóku Ísraelsmenn enn af nýju fram hjá með Baölum, og gjörðu Sáttmála-Baal að guði sínum.

34 Og Ísraelsmenn minntust ekki Drottins, Guðs síns, sem frelsað hafði þá úr höndum allra óvina þeirra hringinn í kring,

35 og ekki auðsýndu þeir heldur kærleika húsi Jerúbbaals, Gídeons, fyrir allt hið góða, sem hann hafði gjört Ísrael.

Abímelek Jerúbbaalsson fór til Síkem til móðurbræðra sinna og talaði við þá og við allt frændlið móðurættar sinnar á þessa leið:

"Talið svo í eyru allra Síkembúa: ,Hvort mun yður betra, að sjötíu menn, allir synir Jerúbbaals, drottni yfir yður, eða að einn maður drottni yfir yður?` Minnist þess og, að ég er yðar hold og bein."

Móðurbræður hans töluðu öll þessi orð um hann í eyru Síkembúa, svo að hugur þeirra hneigðist að Abímelek, því að þeir sögðu: "Hann er bróðir vor."

Þeir gáfu honum sjötíu sikla silfurs úr musteri Sáttmála-Baals, og Abímelek leigði fyrir það lausingja og óvendismenn og gjörðist fyrirliði þeirra.

Því næst fór hann til húss föður síns í Ofra og drap bræður sína, sonu Jerúbbaals, sjötíu manns á einum steini. Jótam, yngsti sonur Jerúbbaals, varð einn eftir, því að hann hafði falið sig.

En allir Síkembúar söfnuðust nú saman og allir þeir, sem bjuggu í Síkemkastala, og fóru til og tóku Abímelek til konungs hjá merkisteinseikinni, sem er hjá Síkem.

Er Jótam spurði þetta, fór hann og nam staðar á tindi Garísímfjalls, hóf upp raust sína, kallaði og mælti til þeirra: "Heyrið mig, Síkembúar, svo að Guð heyri yður!

Einu sinni fóru trén að smyrja konung sér til handa. Og þau sögðu við olíutréð: Ver þú konungur yfir oss!

En olíutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa feiti mína, sem Guð og menn virða mig fyrir, og fara að sveima uppi yfir trjánum?

10 Þá sögðu trén við fíkjutréð: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

11 En fíkjutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa sætleik minn og ágætan ávöxt minn og fara að sveima uppi yfir trjánum?

12 Þá sögðu trén við vínviðinn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

13 En vínviðurinn sagði við þau: Á ég að yfirgefa vínlög minn, sem gleður bæði Guð og menn, og fara að sveima uppi yfir trjánum?

14 Þá sögðu öll trén við þyrninn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

15 En þyrnirinn sagði við trén: Ef það er alvara yðar að smyrja mig til konungs, þá komið og fáið yður skjól í skugga mínum. En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá þyrninum og eyði sedrustrjánum á Líbanon.

16 Nú ef þér hafið sýnt hreinskilni og einlægni í því að taka Abímelek til konungs, og ef þér hafið gjört vel við Jerúbbaal og hús hans og ef þér hafið breytt við hann, eins og hann hafði til unnið _

17 því að fyrir yður barðist faðir minn og stofnaði lífi sínu í hættu, og yður frelsaði hann úr höndum Midíans,

18 en þér hafið í dag risið upp í gegn húsi föður míns og drepið sonu hans, sjötíu að tölu, á einum steini og tekið Abímelek, son ambáttar hans, til konungs yfir Síkembúa, af því að hann er bróðir yðar _

19 ef þér því hafið sýnt Jerúbbaal og húsi hans hreinskilni og einlægni í dag, þá gleðjist yfir Abímelek, og hann gleðjist þá og yfir yður.

20 En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá Abímelek og eyði Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og þá gangi eldur út frá Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og eyði Abímelek."

21 Síðan lagði Jótam á flótta og flýði burt og fór til Beer. Þar settist hann að, til þess að vera óhultur fyrir Abímelek bróður sínum.

22 Abímelek réð nú fyrir Ísrael í þrjú ár.

23 Þá lét Guð sundurþykkis anda koma upp milli Abímeleks og Síkembúa, svo að Síkembúar rufu tryggðir við Abímelek,

24 til þess að hefnd kæmi fyrir níðingsverkið á þeim sjötíu sonum Jerúbbaals og að blóð þeirra kæmi yfir Abímelek, bróður þeirra, sem drepið hafði þá, og yfir Síkembúa, sem styrkt höfðu hann til að drepa bræður hans.

25 Settu Síkembúar þá menn í launsát í móti honum hæst á fjöllum uppi, og rændu þeir alla þá, er um veginn fóru fram hjá þeim. Og Abímelek var sagt frá því.

26 Þá kom Gaal Ebedsson og bræður hans, og héldu þeir inn í Síkem, og Síkembúar fengu traust á honum.

27 Þeir fóru út á akurinn og lásu vínberin í víngörðum sínum og tróðu þau og héldu hátíð, fóru inn í musteri guðs síns og átu og drukku og bölvuðu Abímelek.

28 Og Gaal Ebedsson sagði: "Hver er Abímelek og hverjir erum vér í Síkem, að vér eigum að lúta honum? Er hann ekki sonur Jerúbbaals og Sebúl höfuðsmaður hans? Lútið mönnum Hemors, föður Síkems! En hví skyldum vér eiga að lúta honum?

29 Ég vildi að fólk þetta væri undir minni hendi, þá skyldi ég ekki vera lengi að reka Abímelek burt og segja við Abímelek: Auk her þinn og kom út!"

30 Er Sebúl, höfuðsmaður borgarinnar, spurði ummæli Gaals Ebedssonar, upptendraðist reiði hans,

31 og sendi hann menn á laun til Abímeleks og lét segja honum: "Sjá, Gaal Ebedsson og bræður hans eru komnir til Síkem og æsa þeir borgina upp í móti þér.

32 Tak þig því upp um nótt með liðið, sem hjá þér er, og leggstu í launsátur úti á víðavangi,

33 og að morgni, þegar sól rennur upp, þá skalt þú vera árla á fótum og ráðast á borgina. Þá mun hann og liðið, sem með honum er, fara út í móti þér, og skalt þú þá með hann fara svo sem þú færð færi á."

34 Þá tók Abímelek sig upp um nótt með allt liðið, sem hjá honum var, og þeir lögðust í launsát í fjórum flokkum móti Síkem.

35 Og er Gaal Ebedsson kom út og nam staðar fyrir utan borgarhliðið, þá spratt Abímelek upp úr launsátinni og liðið, sem með honum var.

36 Og Gaal sá liðið og sagði við Sebúl: "Sjá, þarna kemur fólk ofan af fjöllunum." En Sebúl sagði við hann: "Þú sérð skuggann í fjöllunum og ætlar menn vera."

37 En Gaal hélt áfram að mæla og sagði: "Sjá, þarna kemur fólk ofan af háhæðinni, og einn hópur kemur frá veginum að spásagnaeikinni."

38 Þá mælti Sebúl við hann: "Hvar eru nú stóryrði þín, er þú sagðir: ,Hver er Abímelek, að vér eigum að lúta honum?` Er þetta ekki liðið, sem þú fyrirleist? Láttu nú sjá, far út og berst við það."

39 Fór Gaal þá fyrir Síkembúum og barðist við Abímelek.

40 En Abímelek sótti svo hart að honum, að hann flýði fyrir honum, og varð þar mannfall mikið allt að borgarhliðinu.

41 Eftir það dvaldist Abímelek í Arúma, en Sebúl rak Gaal og bræður hans burt, svo að þeir fengu ekki að búa í Síkem.

42 En daginn eftir fór fólkið út á akurinn, og sögðu menn Abímelek frá því.

43 Þá tók hann lið sitt og skipti því í þrjár sveitir og lagðist í launsát úti á víðavangi, og er hann sá fólkið koma út úr borginni, réðst hann á það og vann sigur á því.

44 Abímelek sjálfur og sveitin, sem með honum var, þusti fram og nam staðar fyrir borgarhliðinu, en báðar hinar sveitirnar gjörðu áhlaup á alla þá, sem úti á víðavangi voru, og unnu sigur á þeim.

45 Því næst herjaði Abímelek á borgina allan þann dag og vann borgina, og drap fólkið, sem í henni var; braut síðan niður borgina og stráði yfir hana salti.

46 Er allir þeir menn, sem bjuggu í Síkemkastala, heyrðu þetta, gengu þeir inn í hvelfinguna í musteri Sáttmála-guðs.

47 Og er Abímelek var sagt frá því, að allir menn í Síkemkastala hefðu safnast þar saman,

48 þá fór Abímelek upp á Salmónfjall með allt liðið, sem hjá honum var. Og Abímelek tók öxi í hönd sér og hjó af trjágrein, hóf á loft og lagði á herðar sér og sagði við liðið, sem með honum var: "Gjörið nú sem skjótast slíkt hið sama, er þér sáuð mig gjöra."

49 Þá hjó og allt fólkið hver sína grein, og fylgdu þeir Abímelek og báru að hvelfingunni og lögðu síðan eld í hvelfinguna yfir þeim, svo að allir menn í Síkemkastala dóu, hér um bil eitt þúsund karla og kvenna.

50 Síðan fór Abímelek til Tebes og settist um Tebes og vann hana.

51 En í miðri borginni var sterkur turn. Þangað flýðu allir menn og konur, já, allir borgarbúar. Lokuðu þeir sig þar inni og stigu síðan upp á þakið á turninum.

52 Nú kom Abímelek að turninum og gjörði áhlaup á hann. En er hann gekk að dyrum turnsins, til þess að leggja eld í hann,

53 þá kastaði kona ein efri kvarnarsteini í höfuð Abímelek og mölvaði sundur hauskúpuna.

54 Þá kallaði hann sem skjótast til skjaldsveins síns og mælti við hann: "Bregð sverði þínu og deyð mig, svo að eigi verði um mig sagt: Kona drap hann!" Þá lagði sveinn hans hann í gegn, og varð það hans bani.

55 En er Ísraelsmenn sáu, að Abímelek var dauður, fóru þeir hver heim til sín.

56 Þannig galt Guð illsku Abímeleks, þá er hann hafði í frammi haft við föður sinn, er hann drap sjötíu bræður sína.

57 Og Guð lét alla illsku Síkembúa koma þeim í koll. Rættist þannig á þeim formæling Jótams Jerúbbaalssonar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes